top of page
Search

Sheffield Utd vs Chelsea - baráttan heldur áfram

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn, 11 júlí kl 16:30

Leikvangur: Bramall Lane

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports, Ölver í Glæsibæ.

Upphitun eftir Stefán Martein

Chelsea

Baráttan um meistaradeildarsæti hefur sjaldan verið jafn hörð og spennandi eins og hún er núna og hafa okkar menn enn sem komið öll spil á hendi til þess að klára Meistaradeildarsætið en í vegi okkar eru 4 síðustu leikirnir og eru Sheffield United næst á dagskrá. Við heimsækjum þá á Bramall Lane á laugardaginn klukkan 16:30 að staðartíma.

Í síðustu umferð mættum við nágrönnum okkar í Crystal Palace og er það vægt til orða tekið að sá leikur reyndi á blóðþrýstinginn. Í hvert sinn sem maður hélt að okkar menn væru að loka þessu náðu Ernirnir að klóra sér leið inn aftur og halda þessu spennandi. Leikurinn byrjaði með góðu marki frá Olivier Giroud sem er að eiga frábært post-covid tímabil (var reyndar farinn að líta hrikalega vel úr fyrir covid pásuna) en hann skoraði eftir sendingu frá Willian sem hafði betur gegn okkar fyrrum fyrirliða Gary Cahill í sprett upp hægri væng en Cahill karlinn fór aftan í læri við að reyna halda í við Willian og óska ég honum skjóts bata með það. Christian „Captain America“ Pulisic hélt síðan partýinu gangandi með því að tvöfalda forystuna en sjö mínútum síðar átti Wilfred Zaha magnað skot langt utan af velli sem söng í markinu og líklega spurningarmerki með hvort Kepa hefði ekki getað gert betur þar. Tammy Abraham er kominn á blað post-covid en hann kom inn fyrir Olivier Giroud í seinni hálfleik og var ekki lengi að komast á blað en hann fékk magnaða sendingu frá Ruben Loftus-Cheek sem hafði komið inn fyrir Ross Barkley fyrr í leiknum. Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís þar sem Christian Benteke af öllum mönnum náði að koma boltanum yfir línuna mínútu seinna. Arfra slakur varnarleikur og ljóst að spennan yrði mikil fyrir lokamínúturnar sem varð svo raunin og eftir skalla í stöng frá Crystal Palace og stórkostlegri björgunartæklingu frá Kurt Zouma stuttu seinna var flautað til leiksloka og þrjú mikilvæg stig í sarpinn staðreynd.

Sheffield United eru næsta verkefni en fyrri leikur liðana í vetur endaði með grátlegu jafntefli 2-2 eftir að hafa leitt leikinn 2-0 í hálfleik og því má færa rök fyrir því að við eigum harma að hefna. Ég reikna með að Frank Lampard haldi sig við svipað lið og í síðustu leikjum.



Vörn: Varnarlínan verður óbreytt með þeim Reece James í hægri bakverði og Cesár Azpilicueta í vinstri bakverði með þá Kurt Zouma og Andreas Christensen í miðverði.

Miðja: Jorginho kemur líklegast til með að byrja djúpur á miðju og á að vera sópurinn fyrir framan vörnina með þá Mason Mount og Ross Barkley fyrir framan sig í „fríari“ hlutverkum fram á við.

Sókn: Auto val með Pulisic-Giroud-Willian. Eru að spila best þessa stundina og enginn ástæða til þess að breyta því.


Sheffield United

Sheffield United höfðu fyrir Covid pásu átt algjört öskubuskuævintýri en Chris Wilder var búin að stýra þeim í 5.sæti deildarinnar og sigldu í átt að öruggu Evrópusæti og voru jafnvel farnir að gæla við Meistradeildardrauma en svo skall covid pásan á og þeir hafa ekki verið sjón að sjá síðan þá en hafa verið að rétta úr kútnum. Þeir koma inn í þennan leik með 7 stig úr síðustu 3 leikjum en þar inni eru frábærir sigrar á Wolves og Tottenham svo þeir eru sýnd veiði en alls ekki gefin. Þeir eru þessa stundina í 7.sæti deildarinnar með 51 stig, 8 stigum á eftir Meistaradeildarsæti svo það er ennþá veik von fyrir hendi en Evrópusætið er mun nær sem þeir eru alls ekki tilbúnir að gefa upp á bátinn.

Spá

Ekkert nema sigurinn. Frank Lampard nær að berja í þá sigurviljann og við höldum 3.sætinu út tímabilið. Ætla spá því að fyrst David McGoldrick á eftir að skora á tímabilinu fyrir Sheffield United í deild að þá komi það hja honum í þessum leik, við virðumst draga fram mörk úr ótrúlegustu leikmönnum en blessunarlega okkar vegna verður það ekki nóg þar sem Olivier Giroud heldur áfram að skora en með honum á markalistanum verða Mason Mount, Christian Pulisic og Ruben Loftus-Cheek kemur með eitt af bekknum í 4-1 sigri.


KTBFFH

bottom of page