top of page
Search

Súrsæt lokaumferð og þáttur af BlákastinuNeðst í færslunni er glóðvolgur þáttur af Blákastinu þar sem Stefán Marteinn, Þór Jensen og Jóhann Már fóru yfir síðustu þrjá leiki liðsins. Endilega hlustið.

Eftir grautfúlt tap gegn Aston Villa á útivelli getum við þakkað erkifjendum okkar í Norður-Lundúnum, Tottenham Hotspurs, fyrir það að hafa náð Meistaradeildarsæti í þessari lokaumferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Spurs menn gerðu sér lítið fyrir og lögðu Leicester á útivelli 2-4, eftir að hafa lent 2-1 undir með tveimur vítum frá Jamie Vardy. Þá var staðan orðin 2-0 fyrir Aston Villa gegn okkar mönnum, Liverpool voru 2-0 yfir gegn Crystal Palace og útlitið hreint ekki gott fyrir Chelsea. Undirritaður slökkti þá á sjónvarpinu og fór út í göngutúr til að róa taugarnar, en tók af sjálfsögðu símann með og kíkti af og til á stöðuna á milli þess sem ég skipti um sorgleg lög á Spotify úti í rigningunni.


Á 70. mínútu sá ég að Chelsea hafði minnkað muninn með marki frá Ben Chilwell, svo ég kveikti á leiknum í símanum og settist á bekk, með hjartað í buxunum. 6 mínútum síðar jafnaði Tottenham leikinn gegn Leicester með sjálfsmarki frá Kasper Schmeichel og allt í einu fór að birta til og það hætti að rigna, bæði í alvörunni og í hjartanu mínu. Á 87. mínútu tóku elsku Spursararnir okkar forystuna með marki frá Gareth Bale, sem setti svo annað í grímuna á þeim í uppbótartíma og rústaði Meistaradeildardraumum Leicester og tryggði á sama tíma Chelsea fjórða sætið í deildinni, skyndilega var sólin farin að skína og mér var orðið drullu heitt enda klæddur fyrir rigningu.


Ég vill meina að José Mourinho hafi fengið Gareth Bale til Tottenham af einni ástæðu, að tryggja Chelsea Champions League þátttöku á næsta tímabili, og það tókst.


Þrátt fyrir gleðina sem fylgir fjórða sætinu er maður á sama tíma hálf vonsvikinn með það hvernig við tryggðum okkur sætið, með hjálp annarra. Við byrjuðum leikinn gegn Villa mun betur og hefðum átt að skora a.m.k. 1 ef ekki 2 mörk í fyrri hálfleik og klára dæmið. Þetta hefur verið sagan okkar síðan Tuchel tók við, við sköpum aragrúa af færum og hálf-færum en nýtum þau ekki. Þegar við nýtum ekki færin er alltaf hættan á að við fáum mark í andlitið, þá sérstaklega úr föstum leikatriðum, sem er enn stórt vandamál í leik okkar, þrátt fyrir að hafa skánað eftir komu Mendy og Tuchel.


Í byrjun seinni hálfleiks gerir Jorginho, sem var heilt yfir búinn að vera mjög tæpur í leiknum með margar óþarfa tæklingar sem hann fékk gult fyrir í fyrri hálfleik, skelfileg mistök inn í vítateig þegar hann stingur út “lötum fæti” og fellir Traoré og dómarinn dæmir víti, réttilega. El Ghazi skorar framhjá Kepa í markinu, sem kom inn í hálfleik fyrir Mendy sem meiddist í fyrra marki Villa manna við að skutla sér á stöngina. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin eru en Mendy fann til í rifbeinum, vonandi verður hann orðinn klár fyrir City.

Við innkomu Hakim Ziyech og Kai Havertz fyrir Jorginho og Kovacic, sem voru báðir á gulu og áttu báðir frekar lélegan leik, tók leikurinn á sig allt aðra mynd. Reece James var færður upp á miðjuna og við spiluðum hálfgert 4-1-4-1 með James djúpan á miðjunni, Ziyech, Pulisic, Mount og Werner fyrir framan og Havertz fljótandi uppi á topp. Þetta skapaði helling af færum en aðeins þetta eina mark Ben Chilwell.


Við áttum allt í allt 23 skot í leiknum, þar af 7 á markið, á móti 6 skotum Villa manna, þar af einu í seinni hálfleik (sem endaði í netinu). Azpiliqueta fékk svo réttilega dæmt á sig rautt spjald á 89. mínútu fyrir að slá þann frábæra en óþolandi leikmann, Jack Grealish, beint í nefið með gifsinu. Eitthvað segir mér að Azpi hafi ekki vitað hvernig staðan í leik Tottenham og Leicester var á þeim tíma, svo ég skil hann vel að vilja skella einum löðrung í andlitið á þessum vægast sagt pirrandi manni. Grealish hefði þó átt að fá a.m.k. eitt gult spjald í fyrri hálfleik en hann straujaði bæði Jorginho og Mount niður en dómari leiksins var ekki í neinu sérstöku stuði að spjalda Villa leikmenn í dag.


Það er ljóst að Thomas Tuchel hefur stórt verkefni fyrir höndum ef að þetta lið á að berjast um Englandsmeistaratitilinn á næsta tímabili. Liðið hefur mikla möguleika á að berjast um alla titla, en það þarf að slípa liðið til og menn þurfa að axla ábyrgð. Það þýðir ekkert að vera með xG upp á 3+ í hverjum leik ef við skorum bara 1 og fáum mörk á okkur. Betur má ef duga skal gegn Manchester City eftir viku, nú verða menn að sína úr hverju þeir eru gerðir.


x-G Bardaginn


Einkunnir

Mendy - 5

James - 6

Silva - 6

Rüdiger - 6

Azpi - 5

Chilwell - 7

Jorginho - 4

Kovacic - 5

Mount - 6

Pulisic - 5

Werner - 5

Havertz - 6

Ziyech - 6

Kepa - 5


KTBFFH

Þór Jensen


コメント


bottom of page