top of page
Search

Síðasti deildarleikur tímabilsins - Meistaradeildarsætið í húfi

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 23. maí kl 16:00

Leikvangur: Villa Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Þór Jensen


Á sunnudaginn klukkan 15:00 fer fram síðasta umferð Ensku Úrvalsdeildarinnar á þessu tímili þegar að 10 leikir fara fram á sama tíma. Okkar menn mæta lærisveinum Dean Smith og okkar ástkæra John Terry í Aston Villa sem sitja í 11. sæti deildarinnar sigla því lygnan sjó og hafa í raun engu að tapa og ekkert til að berjast fyrir þar sem Evrópusæti er úr myndinni. Villa menn munu þó vilja enda þetta afragðs fína tímabil vel, fyrir framan 10.000 stuðningsmenn sína. Þetta eru þó ekki einu góðu fréttirnar úr herbúðum Villa manna, því að Jack nokkur Grealish byrjaði síðasta leik þeirra gegn Tottenham og verður leikfær gegn okkar mönnum á sunnudag. Það má því búast við hörkuleik frá þeim bláu og fjólubláu frá Birmingham og ljóst að þeir munu ekki gefa neitt eftir.


Chelsea

Eftir sterkan sigur gegn Leicester í hörkuleik með tilheyrandi slagsmálum og látum er mikilvægt fyrir okkar menn að ná sér hratt niður á jörðina og fókusa á þennan leik, því nú er allt undir. Meistaradeildarsætið er í okkar höndum og það þýðir ekkert að spá í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni fyrr en eftir að við höfum tryggt okkur þáttöku í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.


Á blaðamannafundi Tuchel kom fram að Kanté væri tæpur, hann æfði ekki með liðinu í gær, en ef hann nær að æfa með liðinu í dag (laugardag) verður hann líklega í hóp á sunnudaginn, annars ekki. Þá verður Christensen með í hóp, en óljóst er með Kai Havertz, sem fer í test í dag og vonandi æfir með með liðinu í kjölfarið. Sem betur fer er Kovacic kominn til baka úr meiðslum og nokkuð ljóst er að hann mun mynda miðjuparið með Jorginho á Villa Park. Eins og vanalega er stærsta spurningamerkið hvaða 3 leikmenn verða fremstu menn, en ég spái fáum breytingum á byrjunarliðinu frá því í síðasta leik. Ég spái því að Azpi og James muni skipta um stöðu og James verði í væng-bakverði til að fá meiri hraða og ógn fram á við.


Mögulega gætum við séð Ziyech koma inn fyrir Pulisic sem spilaði allan leikinn gegn Leicester í vikunni, en annars spái ég engum breytingum á liðinu fyrir utan Kovacic sem kemur inn fyrir Kanté.Aston Villa

Villa menn lögðu andlausa Tottenham menn af velli í síðasa leik 1-2 á útivelli í fyrsta byrjunarliðsleik Grealish síðan hann meiddist á sköflung gegn Brighton 13. febrúar s.l. og er það mikill liðsstyrkur fyrir Villa að fá þennan magnaða leikmann aftur inn í liðið. Þeir munu þurfa á hans kröftum að halda, sérstaklega þar sem Ross Barkley má ekki spila gegn Chelsea. Enski framherjinn Ollie Watkins skoraði í þeim leik en hann er í hörkuformi og mun reyna að refsa varnarmönnum okkar við minnsta tækifæri með hraða sínum og krafti. Villa menn eru með mjög gott byrjunarlið, frábæran markvörð í Martinez, sterkt hafsentapar í Konsa og Mings, skapandi miðjumenn eins og Grealish, El Ghazi, McGinn og Trézéguet og mikinn hraða fram á við í mönnum eins og Ollie Watkins og Bertrand Traoré. Á góðum degi geta þeir lagt nánast hvaða andstæðing sem er, þeir hafa þó ekki tekið mörg stig af “stóru 6” liðunum í deildinni undanfarið, ef við tökum Tottenham leikinn út fyrir sviga.


Hjá Aston Villa eru Trézéguet, Matthew Cash og Morgan Sanson meiddir og Barkley spilar ekki gegn okkur eins og hefur komið fram. Meiðsli Matty Cash eru áhyggjuefni fyrir Villa en líklega kemur Hause inn í hafsentinn og Konsa færður í hægri bakvörðinn. Djúpir á miðjunni verða líklega Nakamba eða Luiz og McGinn, sem átti líklega einn sinn besta leik á ferlinum gegn okkur á Brúnni fyrr á tímabilinu. Fyrir framan þá verða þá væntanlega El Ghazi, Grealish og Traoré og Ollie nokkur Watkins uppi á topp. Svona mun þetta þá líklega líta út hjá Villa:Spá

Ég spái erfiðum leik gegn hættulegu Villa liði. Við verðum að vera þolinmóðir, og ekki vera með hausinn í Meistaradeildarleiknum, þá gætu menn ómeðvitað farið að hoppa upp úr tæklingum og hlífa sér fyrir meiðslum, en í þessum leik megum við ekki spara okkur.


Ég spái okkar mönnum 0-2 sigri með tveimur mörkum frá mínum manni Timo Werner sem lætur VAR ekki stoppa sig í þetta skiptið!


KTBFFH

- Þór Jensen


Comments


bottom of page