top of page
Search

Rennes vs. Chelsea - Meistaradeildin rúllar áfram

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 24. nóvember kl. 17:55

Leikvangur: Roazhon Park

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 4

Upphitun eftir: Árna St. StefánssonInngangur

Undanfarnar vikur hafa verið góðar fyrir okkur Chelseaaðdáendur - fimm sigurleikir í röð, þriðja sætið í deildinni (tvö stig frá toppnum) og á toppnum í riðlinum í Meistaradeildinni. Þá er liðið búið að spila ljómandi vel að undanförnu. Það verður reyndar að halda því til haga að mótherjarnir í undanförnum leikjum hafa ekki verið þeir allra sterkustu, en á móti kemur að liðið hefur tapað alltof mörgum stigum á móti “lakari liðunum” undir stjórn Lampard og því eru þessir sigrar afar kærkomnir og gefa tilefni til bjartsýni fyrir framhaldið. Eins og gefur að skilja er leikjaprógramið ansi þétt um þessar mundir og er næsti leikur liðsins annað kvöld gegn Rennes í Meistaradeildinni.


Chelsea Eins og áður sagði þá hefur Chelsea verið á góðu skriði í undanförnum leikjum. Liðið hefur unnið sannfærandi sigra, “dómínerað” inni á vellinum, skorað gommu af mörkum og síðast en ekki síst, náð að halda hreinu í fimm af síðustu sex leikjum. Sóknarlínan er öll að koma til og leikmannakaup síðasta sumar er klárlega farin að skila sér, sbr. hefur galdramaðurinn Ziyech og Turbo Timo verið stórhættulegir fram á við og ítrekað sýnt heimsklassa gæði í undanförnum leikjum. Þá hefur vörnin verið einkar sannfærandi með Mr. Clean Sheet eins og Heimaklett í markinu. Ég gæti auðveldlega haldið upptalningunni áfram sem segir manni e.t.v. það að það eru fáir veikir hlekkir í liðinu eins og staðan er í dag - leikmannahópurinn er einfaldlega feykilega sterkur og Lampard virðist á góðri leið með ná því besta út úr sínum mönnum. Þá eru sem betur ekki mikil meiðsli að plaga hópinn um þessar mundir - Silva og Havertz eru komnir aftur inn í hópinn og aðeins Pulisic er frá vegna meiðsla (ekki slæmt að eiga þann kappa inni). Alls ferðuðust 23 leikmenn með liðinu til Frakklands og á Lampard svo sannarlega verðugt verkefni fyrir höndum að velja 11 menn til að byrja leikinn.


Undirritaður er með ævintýralega dapurt "ratio" þegar kemur að byrjunarliðs-spám og ef Lampard velur sex af eftirfarandi mönnum í liðið á morgun þá lít ég á það sem persónulegan sigur. Ég ætla að tippa á að Lampard gefi Werner verðskuldaða hvíld og Hudson-Odoi komi inn í hans stað og þá finnst mér líklegt að Azpi byrji á kostnað James í hægri bakverðinum. Annað er bland af óskhyggju og “safe bet”.

Sæmilega líklegt byrjunarlið:


Rennes Öfugt við okkar menn þá státar lið Rennes ekki af góðu gengi í undanförnum leikjum. Liðið hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum í frönsku deildinni og þá á liðið ennþá eftir að vinna leik í riðlinum í CL. Gengi þeirra heilt yfir í deildinni hefur þó verið þokkalegt en liðið situr í sjöunda sætinu með 18 stig eftir 11 leiki. Liðin mættust á Brúnni í byrjun nóvember þar sem Chelsea hafði betur 3-0 og það var satt að segja ekki margt í þeim leik sem heillaði hvað leik Rennes varðar. Á móti kemur að gengi Chelsea í Frakklandi hefur ekki verið upp á marga fiska í gegnum tíðina, en liðið hefur einungis unnið tvo af níu leikjum á franskri grundu - síðasti leikur var reyndar sigur gegn Lille í fyrra.


Leikmannahópur liðsins er vissulega ekki stjörnum prýddur líkt og hópur okkar manna, en þar má þó finna nöfn sem margir ættu að þekkja, sbr. Steven Nzonzi, fyrrum leikmann Blackburn, Stoke, Sevilla o.fl. liða. Þá er ítalski varnarmaðurinn Daniele Rugani á á láni hjá Rennes um þessar mundir, en Rugani hefur oftar en einu sinni verið orðaður við Chelsea á undanförnum árum. Hann verður hins vegar ekki með á morgun vegna meiðsla. Þeirra besti leikmaður er líklega hinn gríðarlega efnilegi Eduardo Camavinga, en sá kappi er miðjumaður og sló í gegn í frönsku deildinni í fyrra. Hann er aðeins 18 ára gamall og hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid og Juventus.


Spá Með sigri gegn Rennes í Frakklandi á morgun getur Chelsea tryggt sig í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar, að því gefnu að Sevilla vinni Krasnodar. Það er því til mikils að vinna þó svo að tap eða jafntefli yrði vissulega enginn heimsendir. Ég hef þó enga trú á öðru en að sigurgangan haldi áfram á morgun og okkar menn landi dísætum 1-0 sigri. Mendy heldur hreinu gegn sínum gömlu félögum og Tammy sér um að tryggja stigin þrjú og verður þar með fyrsti leikmaður Chelsea til að skora í fjórum meistaradeildarleikjum í röð síðan Anelka setti fimm í röð árið 2011.


KTBFFH

- Árni St. Stefánsson


Commentaires


bottom of page