Keppni: Premier League
Tími, dagsetning: Laugardagur 11.mars kl: 15.00
Leikvangur: King Power stadium
Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport
Uppitun eftir: Þráinn Brjánsson
Þá er rykið rétt að setjast eftir sérdeilis ánægjuleg úrslit síðustu 2 leikja okkar manna. Eftir eintómt myrkur og mannaskít undanfarnar vikur þá virðist aðeins vera farið að sjást til sólar.
Við tókum á móti Leeds um síðustu helgi og í þeim leik sáust talsverð batamerki og Wesley Fofana skoraði mikilvægt og langþráð mark sem nægði til að við lönduðum loksins sigri.
Á þriðjudagskvöldið sáum við loksins hvað býr í þessu liði þegar við fengum Dortmund í heimsókn í síðari leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og vorum 1-0 undir þegar flautað var til leiks en leikurinn var hin besta skemmtun og loksins sáum við Chelsea spila sem lið en ekki einhverja villuráfandi einstaklinga ráfandi um völlinn.
Það var auðséð að menn ætluðu að gefa allt í leikinn og voru þeir bláklæddu mun betri og sköpuðu nokkur fín færi og spilið var miklu betra þrátt fyrir að sú staða hafi komið upp að Dortmund var meira með boltann en leikmenn Chelsea voru ákveðnari og uppskáru eftir því.
Kai var að þessu sinni flottur og nánast allir leikmenn Chelsea áttu stórgóðann leik en það var þó ekki fyrr en á 43. mínútu sem Raheem Sterling skoraði eftir frábæra sókn en hafði þó kixað all rosalega en fékk annað tækifæri og kláraði málið og staðan orðin jöfn í einvíginu.
Það var svo á 53. mínútu sem dæmd var vítaspyrna eftir að leikmaður Dortmund fékk boltann augljóslega í höndina og sást það alla leið norður á Akureyri þó dómarinn og VAR dómararnir hafi þurft að skjóta á ráðstefnu um málið en dæmdu víti og Kai Havertz fór á punktinn og setti slaka spyrnu í stöngina en þeir þýsku voru of fljótir að hlaupa inn í teiginn þannig að Kai fékk að endurtaka spyrnuna og skoraði og staðan orðin 2-1 í einvíginu.
Okkar menn fengu miklu fleiri færi í leiknum og sýndu risastór batamerki og holningin á liðinu var allt önnur og Potterinn sýndi meira að segja fleiri svipbrigði en venjulega. Það voru margir sem töldu að tveir síðustu leikir myndu ráða úrslitum varðandi áframhaldandi veru Potters hjá klúbbnum og ég held að hann sé “safe” eitthvað áfram og nú þegar við höfum tryggt okkur sæti í 8 liða úrslitum þá eigum við að setja kúrsinn á að vinna þá bara Meistaradeildina og sokka almennilega þá sem fundið hafa liðinu allt til foráttu undanfarið.
Þegar þetta er skrifað á okkar ástsæli klúbbur 118 ára afmæli og óska ég stuðningsmönnum til hamingju með daginn og finnst mér afmælisbarnið bera aldurinn ágætlega allavega undanfarna daga og finnst mér full ástæða til að fagna þessum merka áfanga með sigri á laugardaginn þegar við heimsækjum Refina á King Power völlinn.
Chelsea
Það er því miður þannig að leikurinn gegn Dortmund hefur tekið sinn toll af leikmönnum bláliða en Potter hefur gefið það út að Reece okkar James verður fjarri góðu gamni á laugardaginn en hann mun vera með einhverja bölvaða flumbru og hringdi sig inn veikann.
Mason Mount verður ekki með og Kante er ekki tilbúinn en menn gæla við að hann geti verið orðinn klár gegn Everton 18 mars.
Kóngurinn Silva í vörninni er enn frá vegna meiðsla og Sterling er tæpur en gæti þó komið við sögu.
Það má þó segja að það gæti opnast gluggi fyrir nýja menn að sýna hvað í þeim býr og þar sem Mount er frá þá ætti Mudryk að koma vel til greina og það yrði gaman að sjá hann hrökkva í gang og sýna okkur hvað við erum að fá fyrir peninginn.
Talandi um leikinn gegn Dortmund þá var virkilega gaman að sjá hversu margir leikmenn stigu upp og komu ákveðnir til leiks og Felix var frábær, Kai sjaldan verið betri og Cucurella var flottur og sýndi það að ef hausinn er rétt skrúfaður á hann þá er hann sannarlega betri en enginn svo ég vitni nú í Bjarna.
Kova var frábær og Chilwell verulega grimmur og gríðarlega fljótur bæði fram og til baka og er liðinu gríðarlega mikilvægur.
Reece James klettur eins og venjulega og mér fannst reyndar afar fáir veikir blettir á liðinu þetta þriðjudagskvöldið og Kepa kom þægilega á óvart með því að verja erfiða bolta.
Það munar gríðarlega miklu að vera með leikmann eins og Chilwell en hann er greinilega verulega pirrandi andstæðingur og lætur engann í friði og leikmenn Dortmund urðu súrrandi bilaðir eftir leikinn og ungstirnið Bellingham lét bræði sína bitna bæði á Cucurella og myndatökumanni en sá spænski hló bara upp í opið geðið á ungstirninu og bætti það ekki skapið hjá honum.
Þetta var skemmtilegur leikur og það lá eitthvað í loftinu. Ef þessi leikur er byrjunin á einhverju spennandi hjá klúbbnum og hlutirnir fara að smella saman þá held ég að óvæntir hlutir geti gerst, allavega leit þetta svo miklu betur út allt saman.
Eins og ég sagði þá spiluðu okkar menn eins og lið en ekki eins og villuráfandi sauðir og það er það sem maður hefur verið að bíða eftir allt tímabilið. Ég held að hlutirnir fari að falla okkur í hag og með tímanum verði hægt að smíða lið sem verður illviðráðanlegt og komist á þann stall sem við eigum að vera á.
Menn eru efalaust farnir að velta fyrir sér sumrinu og hvað maðurinn með heftið hyggst gera.
Það vantar ekki nöfnin en þar má finna t.d. Viktor Osimhen Nígerísku markavélina hjá Napoli og Króatann Josko Gvardiol hjá Leipzig sem fór á kostum með Króötum á HM í Qatar en tíminn mun leiða það í ljós en ég myndi þyggja hreinræktaða 9 ef ég mætti velja!
En við virðumst þó allavega vera klárir með Nkunku í sumar og svo má ekki gleyma því að Lukaku á víst að mæta í lok júní úr láni en ég held þó að menn hlaupi ekkert út á náttsloppnum yfir komu hans.
En þetta eru allt vangaveltur og spurningar sem verður svarað fyrr en seinna og það er núið sem gildir og við förum bjartsýnir inn í næsta leik. Við hækkum okkur ekki um nein sæti með sigri gegn Leicester en bætum þó stigum í pokann og sigur er það eina sem kemur til greina þvi sigur skapar sjálfstraust og ákafa.
Leicester
Lítið hefur gengið hjá Brendan Rodgers og lærisveinum hans og sitja þeir í 15 sæti með 24 stig og aðeins 2 stigum frá fallsæti.
Leicesterliðið má þó eiga það að þeir geta verið algerlega óútreiknanlegir og þó það sé kannski ekki aðalatriðið þá skartar eigandi Leicester einhverju því rosalegasta nafni sem um getur en það er allt önnur saga.
Leicester liðið hefur verið í basli meginhluta tímabilsins en Brendan Rodgers sá ágæti stjóri hefur ekki náð að smyrja vélina nógu vel til að fá hana til að virka sem skildi.
Talsverð óánægja hefur verið á meðal leikmanna með leikskipulag og leikmönnum hugnast ekki vinnulagið en liðið hefur á að skipa fínum leikmönnum inn á milli eins og Youri Tielemans, James Maddison, Harvey Barnes og fleiri en þeir Tielemans og Barnes koma ekki til með að gagnast þeim á laugardaginn þar sem þeir eru báðir á meiðslalista.
Maddison hefur verið þeirra besti maður og verður væntanlega í eldlínunni á laugardaginn. Okkar klúbbur hefur jú leitað í þeirra raðir og keypt frá þeim fína menn eins og Kante, Chilwell og Wesley Fofana. Ég tel okkar menn mun sigurstranglegri og tel að Leicesterliðar muni lenda í miklu basli.
Byrjunarlið og spá
Jæja þá er það spámennskan og það er jú alltaf gaman að reyna að setja saman einhverja spá þó okkur Potter gæti hugsanlega greint eitthvað á varðandi skipulag og leikmannaval en ég treysti honum allavega ennþá til að sjóða saman gott byrjunarlið á laugardaginn.
Ég er alveg tilbúinn til að bekenna 3-4-3 kerfið og Kepa verður klárlega í markinu.
Þar fyrir framan verða þeir Koulibaly, Fofana og Badiashile. Ég væri alveg til í að sjá Chilwell, Kovacic, Enzo og Gallagher þar fyrir framan og Mudryk kemur inn eins og stormsveipur ásamt þeim Joao Felix og Kai Havertz.
Ef vel gengur er alls ekki ólíklegt að ungu nýju mennirnir fái mínútur til afnota. Ég er bjartsýnn á að menn mæti dýrvitlausir til leiks!
Ef einhverntímann er tilefni til bjartsýni þá er það núna enda afmælishelgi og menn í hátíðarskapi. Ég held mig við sigur og spái okkur sigri með 3 mörkum gegn engu.
Nú eru menn komnir bragðið og eru að ég held ekki tilbúnir til að bakka mikið. Ég vona að þetta verði hátíðsdagur og við getum sungið afmælissönginn fullum hálsi á laugardaginn.
Góða skemmtun félagar og enn og aftur til hamingju með tímamótin.
Áfram Chelsea !!!
Comments