Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: 3. nóvember kl:16:30
Leikvangur: Old Trafford, Manchester
Dómari: Robert Jones
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: BOB - Björgvin Óskar Bjarnason
Næsta verkefni Chelsea í deildinni er útileikur við Manchester United sunnudaginn 3. nóvember. Í upphafi leiktíðar spáðu veðmálabúllurnar því að Erik Ten Hag, stjóri Manchester United, væri næst líklegastur af stjórum deildarinnar til að taka pokann sinn (á eftir Eddie Howe hjá Newcastle) á tímabilinu. Fjölmiðlar hafa djöflast í Ten Hag og Manchester United í allt haust og fundið honum, félaginu og Jim Ratcliffe (sem stjórnanda íþróttamála sem minnihlutaeigandi í Man Utd) allt til foráttu og minnkunar. Illkvittin umræða sem við Chelseapungar þekkjum allt of vel frá velgengistíma Roman Abramovich og ekki síður eftir að Boehly og félagar tóku yfir félagið fyrir tæpum þremur árum.
Ten Hag gerði góða hluti með Ajax og þegar hann tók við Man Utd fékk hann um 600 milljón punda pengepung (frá frekar sínkum Glaziers) til að kaupa leikmenn sem hann gerði snimmhendis og hefur ekki veitt af. Því sá bolti sem Ten Hag vill láta sína menn leika er kröfuharður og ákafur. Það þýðir að menn meiðast oftar og/eða ná sér ekki af meiðslum vegna álags. Þetta hljómar nokkuð kunnuglega, ekki satt? Gæti verið ferillýsingin hjá okkar fyrrum ástkæra Pochettino. Það má rífast um hvort liðið hafði “vinninginn” í meiðslum á sl. leiktíð en bæði Chelsea og ManUn töldu um 45 meiðsli (þar sem leikmenn voru frá) hvort. Leikmenn á meiðslalista Chelsea það sem af er leiktíðar eru fáir meðan listi Man Utd virðist lítið styttast. Það sem af er leiktíðar hafa um 20 meiðslatilfelli komið upp og eru nú sjö aðalliðsmenn meiddir fyrir utan minni spámenn.
Erik Ten Hag virðist ekki hefa verið allra því nokkrir leikmenn liðsins hafa ekki hafa aktað kallinn í starfi stjóra. Þar má nefna Jadon Sancho sem er auðvitað með okkur sem og fleiri. Leikmenn Ten Hag hafa alltaf haft betur gegn okkar mönnum á Old Trafford eða 2-1 (McTominay 2), 4-1 (Casemiro, Fernandes, Martial, Rashford). Nú eru þeir ekki lengur leikmenn Ten Hag heldur er það Ruud Van Nistelrooy sem fer með tímabundna stjórnun á liðinu á meðan félagið leitar að nýjum stjóra. Þeirri leit virðist vera lokið þar sem Rúben Amorim, stjóri Sporting Lissabon er sagður á leiðinni. Það boðar aldrei gott að spila fyrsta leik við lið þar sem stjóranum hefur verið sparkað. Þeir léku að vísu í við Leicester Carabao bikarnum í vikunni og unnu 5-2, því oft er eins og leikmenn hafi losnað við helsi og eiga það til að sýna nýja stjóranum alla sína bestu kosti þegar “gamli” stjórinn er farinn. En málið var að það gekk allt upp í sókninni hjá Manchester United gegn Leicester meðan dauðafærin fóru í vaskinn í West Ham leiknum sl. helgi, með þeim afleiðingum að Ten Hag var sparkað í kjölfarið. Man Utd er vel mannað lið þótt áhangendum þess finnist það ekki ná viðugeigandi úrslitum í samræmi við mannkostinn.
Að mínu mati eru þeir með leikmenn sem geta (og hafa) gert okkur skráveifur eins og Fernandes, Casemiro, Rashford að ógleymdum Kristjáni hinum danska (mér finnst hinn Daninn ekkert ógnvekjandi senter, ennþá) og hinum óútreiknanlega Garnacho. Ég held að handrukkarinn Maguire sé meiddur þannig að hann böðlast vonandi ekki í okkar mönnum í þessum leik. Ennfremur er hinn bráðefnilegi Manoo eitthvað lemstraður. Þeir hafa ágætis varnarleikmenn innan sinna vébanda þótt þeir hafi greinilega ekki náð að sýna alvarlega hvað í þeim býr, því varnartölfræði United er ekki góð og vonandi skánar ekkert næsta sunnudag gegn Chelsea, þrátt fyrir bikarúrslitin gegn Leicester. Það fer ekkert á milli mála að Man Utd liggur vel við höggi sem stendur eða á milli stjóra og full ástæða að ætla að Chelsea geti knúð fram hagstæð úrslit á Old Trafford á sunnudag.
Það veltur auðvitað allt á því hvernig Maresca stillir liðinu upp. Í undanförnum tveimur leikjum gegn Newcastle hefur Maresca reynt að sannreyna þá skoðun sína “að góðir leikmenn eigi að geta leikið í ólíkum stöðum og skilað þeim vel”. Í deildinni á móti Newcastle á Brúnni lét hann James leika vinstri bakvörð/miðvörð með Malo Gusto sem hægri varnarblending. Það slapp til og reynsla James bjargaði stigi eða stigum fyrir okkur því sumir félagar hans í vörninni (þar á meðal markmaðurinn) vissu ekkert hvað þeir voru að gera. Það voru síðan meistartaktar Palmers sem björguðu leiknum sóknarlega fyrir Chelsea. Í bikarleiknum gegn Newcastle á miðvikudag gekk Maresca enn lengra í að sannreyna sína kenningu og notaði Veiga (vinstri bakvörður/miðvörður) sem hægri miðjumann með mjög hæpnum árangri. Og það heimskasta að mínu mati var að stilla Dewsbury-Hall (vinstri sóknarmiðjumaður) upp sem hægri kantmanni. Enda virtist leikmaðurinn sjálfur ekki hafa trú á að hann gæti leikið þessa stöðu ef tekið er mið af því litla sjálfstrausti sem hann sýndi einn á móti markmanni í upphafi leiks. Ekki var hann betri varnarlega. Náði ekki einu sinni að trufla okkar fyrrum Hall í að sýna snilldarleik.
Við sáum ákaft kantspil Newcastle í fyrri leiknum ekki síst vinstra megin (þeirra mark kom þaðan) þannig að álíka heimskt er að nota Disasi sem hægri bakvörð. Disasi er enginn bakvörður og frekar dapur miðvörður og með ólíkindum að þessi leikmaður hafi verið keyptur á um 40 milljónir punda. Ennþá skelfilegri varnarmaður er félagi hans úr Monaco, Badiashile. Þessir tveir miðverðir!!! eru of hægir og klaufskir til að leika í deildinni. Þeir þola ekki pressudekkningu og sendingar þeirra úr vörninni eru langt frá því að vera nógu góðar. Þegar við bætist að markmaðurinn okkar (hvort sem hann heitir Sanchez eða Jörgensen) er álíka flækjufótur og Gög og Gokke, þá er engin furða að andstæðingarnir pressi þessa vanhæfu leikmenn í að gera mistök - og uppskera oftast. Því miður er þriðji franski miðvörðurinn okkar (Fofana) stundum afskaplega tæpur í sínum aðgerðum eins og t.d laus skalli á markmanninn í lok leiksins fyrir viku síðan.
Maresca bandaði þessari staðhæfingu, frá sé með þeim orðum að það væri eðlilegt að fá á sig mark úr pressu, þegar leikið er frá marki. Það virðist bæði eðlilegt og mjög algengt hjá Chelsea, þótt það sé ekki svo hjá öðrum liðum (með alvöru öftustu línu) sem hefja leik út frá marki. Chelsea þarf að losa sig við þessa tvo leikmenn og kalla inn Chalobah sem er betri en þeir báðir, og semja við hinn unga Josh Acheampong. Það er nóg af verkefnum fyrir hann. Anselmino kemur ekki úr láni fyrr en næsta vor. Samningur Ruben Dias rennur út 2026 þannig að spurningin er hvort hann semur áfram við Man City eða leitar hófanna annars staðar og glæta væri að krækja í hann. Vitor Reis er ungur upprennandi miðvörður hjá Palmeiras (og liðsfélagi Estevao) sem vert væri að kíkja á. En það er alveg á hreinu að Chelsea er ekki að fara gera stóra hluti með þessa markmenn og varnarmenn sem hluta af liðinu.
Í reynd var allt Chelsealiðið frekar dapurt í bikarleiknum á miðvikudaginn þrátt fyrir að vera meira með boltann. Sá eini sem mér fannst leika af einhverri getu allan leikinn var Cucurella. Joao Felix sýndi góða takta í fyrri hálfleik en var óheppinn/klaufskur með að klára færin sem hann fékk, en fór síðan í pirring í seinni hálfleik. Nkunku gat ekki baun allan leikinn og virtist eins og hann væri kominn í alvarlega fýlu með sína stöðu hjá félaginu. Enda fékk hann enga þjónustu. Ekkert vængspil frá hægri meðan Dewsbury-Hall var inná og boltarnir/sendingarnar frá Enzo voru flestar uppi þar sem hávaxið Newcastleliðið átti auðvelt með að verjast. Mudryk spriklaði örlítið í leiknum en inn á milli gerðist hann bara litli umkomulausi, utangáttar, leikmaðurinn sem við höfum svo oft séð. Newcastle gerði fimm innáskiptingar meðan Maresca gerði AÐEINS eina. Hann setti Madueke inn á. Það hristi örlítið upp í sókninni en það bætti ekkert þjónustuna við Nkunku og Felix því Madueke er eiginlega mest að spila fyrir sjálfan sig en ekki aðra. Chelsea var þó 65% með boltann og átti rúmlega tvöfalt fleiri skot að marki (17-8) og tvöfalt fleiri skot á rammann (4-2).
Falleinkun fyrir þennan leik fær þó Maresca sem klikkaði held ég á öllum vígstöðum. Uppstillingu á liðinu og síðan innáskiptingar og leikstjórnun. Eða frekar að skipta EKKI inn á sem mér finnst algjör vanvirðing við leikmennina á bekknum sem og við alla þá Chelseaáhangendur sem tóku sér frí í vinnu til að skrölta þessa tæpu 500 km til Newcastle. Eins finnst mér það vanvirðing við sjálfa Carabao keppnina að stilla upp B-liði og skipta aðeins einum manni inn á (í naumum bikartapleik) þegar á hólminn er komið. Spurningin er hvort leikmenn finni fyrir því að vera stimplaðir “varaliðsmenn” og kerfið sé farið að vinna gegn stjóranum?
Ég vona að Maresca muni stilla upp eftirfarandi liði: Sanchez, James, Fofana, Colwill, Lavia, Caceido, Palmer, Neto, Jackson og Madueke. Sanchez vegna þess að við höfum engan betri sem stendur. James til að stöðva Garnacho (og Gusto til vara). Fofana frekar in Disasi og Tosin. Colwill auðvitað frekar en Badiashili og Cucurella sem blendingurinn. Veiga má vera hans varamaður.
Ég tel að Lavia sé traustari miðjumaður en Enzo sem virðist eiginlega aldrei ná að drífa í skriðgírinn með Chelsea. Ekki bætir úr skák að hann stendur í fjölskylduvandamálum sem hjálpar varla einbeitingunni. Ég hef sagt það áður að Andrey Santos sé betri miðjumaður en Enzo og tel jafnvel líklegt að hann verði innkallaður frá Strasbourg í janúar þar sem hann fer hamförum. Caceido er auðvitað sjálfskipaður á miðjuna eins og Palmer er sjálfskipaður sem sóknarmiðjumaður. Ég vil sjá Neto á vinstri kantinum (Sancho má eflaust ekki leika gegn Man Utd) og þá Madueke á hægri kantinum og Jackson sem fljótandi nía. Hvort Felix og Nkunku koma inn á sem varamenn skal ósagt látið, en því miður var Nkunku ekki að spila sig inn í liðið með frammistöðunni á miðvikudag sem er leitt, því hann er frábær leikmaður og maður veit að hann getur töfrað fram mörk og stoðsendingar.
Leikurinn fer 2-3 og Palmer, Jackson og Madueke með mörkin.
Eftirmáli = TUÐ
Það má alveg segja að ég sé aðeins að mála skrattann á vegginn eða halda einhverju samsæri dómara fram EN ég mála aðeins það sem blasir augljóslega við. Það fer ekkert á milli mála að ákveðin lið í deildinni fá BETRI dómgæslu en önnur. Hvort sem er í beinum dómum, VARdómum eða spjöldum. Ég hef að vísu ekkert horft á alla leiki en tölvuvert marga og ekki sízt leiki efstu liða. Mér finnst Man City og sérstaklega Liverpool græða á þessum dómurum og þeirra vinnu. Eins virðast dómaraprinsarnir tveir Taylor og Oliver orðnir nokkuð allsráðandi um úrslit leikja hvort sem þeir eru innan vallar eða utan (VAR). Ég nefni nokkur nýleg dæmi. Eftir Liverpool - Chelsea leikinn sagði Pawson dómari að sér hefði verið skipað að dæma víti af VARdómaranum, þeim sama leit framhjá mögulegri hendi á Jones, í aðdraganda brots Colwill á Jones en hafði engan áhuga að skoða brot Trent Alexander-Arnold á Sancho í teignum í upphafi leiks meðan öll “meint” brot í vítateig Chelsea voru skoðuð í VAR. VARdómarinn hét Michael Oliver. Í West Ham-Man Utd leiknum um síðastliðna helgi var klafs inni í teig hjá Manchester United í enda leiks sem dómarinn sá ekkert athugvert við og lét leikinn því halda áfram, þar til VARdómarinn stöðvaði leikinn og lét dæma víti. VARdómarinn hét Michael Oliver. Úlfarnir gegn Man City og staðan er 1-1 á 95. mínútu þegar City fær horn. Í fyrsta lagi bakkaði Silva inn í markmann Úlfanna og þvældist síðan fyrir honum þegar Stones ná skoti á markið úr teignum. MARK og tvö viðbótastig í sarpinn hjá City. Dómarar deildarinnar hafa samt sammælst um að leyfa Arsenal ekki að komast upp með sama moðreyk í föstum leikatriðum þetta tímabilið eins og í fyrra og þá sérstaklega í hornum. En leikatriðin helguðust oftast af því að trufla alvarlega markmanninn og mynda líkamlega blokk fyrir fyrirfram ákveðinn Arsenalmann í aðgengi að auðu svæði (og þangað var boltanum beint) líkt og gerist í gridiron (bandarískum) fótbolta. Og dómararnir hafa bætt um betur í að passa ótuktaskap Skyttanna því þeir hafa gefið þeim þrjú rauð spjöld þar sem af er vetrar. Í leiknum gegn Liverpool sl. helgi þá fengu Arsenalmenn smjörþefinn af eigin taktík þegar Diaz truflaði Raya þegar Liverpool tók horn, en kom sér frá honum rétt áður en hornið var tekið, skaust framfyrir Havertz á nærstönginni og nikkaði boltanum áfram inn í teiginn. Og mark! Er næsta viss um að ef þetta hefði verið upp við Liverpoolmarkið og Arsenalmaður að trufla markmanninn hefði Taylor dómari dæmt brot. Sumir Liverpoolmenn spiluðu töluvert hart, en Taylor leyfði þeim það. MacAllister fékk þó gult eftir rúmar 30. mín. En fékk að djöflast áfram í 30 mínútur eftir það. Nunez fékk gult á 94. mínútu eftir að haf lemstrað leikmenn Arsenal næstum allan leikinn. Steininn tók þó úr þegar Havertz togaði í treyju Van Dijk fyrir framan nefið á Taylor dómara. Van Dijk brást við með því að henda Havertz í jörðina og sparka tvisvar í hann. Og Taylor dómari horfi á Virgil eins og reiður kennari og mundaði hljóðlega orðið “skamm”. Ekkert gult eða frekar ekkert beint rautt spjald.
En vinsamlegast réttið upp hönd þeir sem finnst Chelsea hafa fengið eðlilega dómgæslu í sínum leikjum í deildinni á þessu tímabili. Við erum greinilega “lang ruddalegasta liðið” í deildinni með 36 gul spjöld. Sjö spjöldum fleiri en næstu ruddaliðin Southampton og Wolves. Tíu og tólf spjöldum fleiri en t.d. Nottingham Forest og Bournemouth sem leika verulega fast og tvöfalt fleiri en Liverpool sem leikur ágætlega ákveðið. Það er einhver minkur í þessu hænsnabúi. Auðvitað er eitthvað af þessum spjöldum vitleysinga- og ybbagoggsspjöld Chelsea leikmanna (við vitum hverjir) en okkar leikmenn geta varla verið þeir einu í deildinni sem rífa kjaft eða haga sér kjánalega þótt þeir brjóti ekki líkamlega á einhverjum. En mér finnst eins og flestir dómarar séu í nöp við “ríku strákana” úr Chelseahverfinu og vilji kenna þeim lexíu.
Og alvarlegasta tuðið: Hvers konar dómgreindarleysi er þetta hjá Símanum að láta hlutdrægan stuðningsmann Liverpool ítrekað lýsa leikjum Liverpool? Við sem kaupum “enska boltann” af Símanum erum fæstir Liverpoolaðdáendur og nennum því ekki að hlusta á púllarabullið út í eitt.
Við hvetjum fólk til að hittast á stöðum sem sýna Chelsea leikina. Aðdáendur Chelsea á Akureyri og í nágrenni ætla að fjölmenna á Verksmiðjuna á Glerártorgi. Inn í hópnum Chelsea FC á Íslandi á facebook er viðburður sem er hægt að melda sig inná. Af gömlum vana munu Chelsea menn á höfuðborgarsvæðinu safnast saman á Ölver, sem er heimavöllurinn okkar í Reykjavík. Að lokum viljum við minna aðdáendur Chelsea á Íslandi að skrá sig í Chelsea klúbbinn ef þið hafið ekki þegar gert. Nýskráningar og endurnýjanir eru ennþá opnar, og þetta er árangursríkasta leiðin til að verða sér út um miða á leiki með Chelsea. Vel á minnst, þá verður hópferð eftir áramót á heimaleikinn gegn Ipswich (Staðfest). Aðeins sex pláss eru eftir í ferðina. Ef það fyllist, þá þarf ekki að örvænta, því Karl Hillers, formaður Chelsea klúbbsins á Íslandi getur vafalaust reddað málum. Allar upplýsingar eru á www.chelsea.is
Áfram Chelsea!
Björgvin Óskar (Bob)
Comments