Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 11. ágúst 2019 klukkan 15:30
Leikvangur: Old Trafford, Manchester
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports og BeIn Sports
Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason
Það er loksins komið að því!
Fyrsti alvöru leikur tímabilsins og engin smá andstæðingur, tvö sigursælustu lið ensku Úrvalsdeildarinnar frá upphafi að mætast í fyrstu umferð – Man Utd vs. Chelsea.
Chelsea
Áður en við dýfum okkur inn í sjálfa upphitunina um leikinn er réttast að fara aðeins yfir lokadag leikmannagluggans. Þar sem okkar ástkæri klúbbur er í félagaskiptabanni var aðeins spurning um hvaða leikmenn myndu yfirgefa Chelsea. Það er þó vert að minna á að fleiri leikmenn munu líklega yfirgefa félagið þar sem leikmannagluggarnir í Evrópu loka flestir um næstu mánaðarmót. En á enska gluggadeginum tókst Marina Granovskaia að losa Danny Drinkwater til Burnley en Chelsea mun þó ennþá greiða helming launa Drinkwater sem núna fær loksins að spila einhvern fótbolta.
Stóru fréttirnar fyrir okkar menn voru svo að David Luiz ákvað að biðja um sölu frá félaginu eftir að hafa átt „hreinskiptnar“ viðræður við Frank Lampard. Þessi félagaskipti komu verulega á óvart þar sem Luiz skrifaði undir nýjan tveggja ára samning í maí og flestir höfðu reiknað með að hann yrði lykilmaður í vörn Chelsea á þessu tímabili. Frammistöður Luiz á undirbúningstímabilinu voru ekkert til að hrópa húrra fyrir og líklega hefur hann beðið Lampard um heiðarlegt mat á stöðu sinni innan hópsins. Þar segja margir álitlegir blaðamenn að Lampard hafi einfaldlega tjáð Luiz að hann væri fjórði valkostur í miðvörðinn eins og staðan væri í dag, en þó tekið það fram að engin leikmaður eigi öruggt sæti í liði sínu. Við þetta hafi Luiz einfaldlega beðið um að fá að róa á önnur mið og þá hafi Arsenal komið inn í myndina, enda hafa þeir verið að leita eftir miðverði í allt sumar.
Mitt mat á þessu Luiz máli er frekar einfalt – ég er eiginlega bara mjög ánægður með þetta. Fyrir mér er David Luiz slakasti varnarmaðurinn okkar að Alonso undanskildum. Hann tekur mótlæti gríðarlega illa, fór frá okkur árið 2014 þegar Móri notaði frekar Cahill og Terry. Fór svo frá PSG þegar Marquinhos var búinn að slá hann út og stekkur svo burt núna þegar Lampard segir honum að hann eigi ekki öruggt sæti í liðinu. Hann vill aldrei berjast fyrir sæti sínu og getur verið slæmur í klefa þegar hann er ekki að fá að spila, eins og sást þegar Antonio Conte setti hann á bekkinn fyrir tveimur tímabilum. Ég mun samt sakna karaktersins, það var alltaf líf í kringum Luiz og hann var alltaf tilbúinn að berjast til síðasta blóðdropa. Svo stóð hann auðvitað vaktina frábærlega í leiknum í Munchen árið 2012. Núna verða Christansen, Zouma og Tomori einfaldlega að nýta tækifærin sem þeir munu fá með brotthvarfi Luiz.
Að leiknum sjálfum, ég er fyrsti maður til að viðurkenna það að ég hefði sennilega kosið annan upphafsleik á tímabilinu. Reyndar er það þannig að Chelsea er með bestan árangur allra liða í ensku Úrvalsdeildinni í fyrstu umferð deildarinnar, ásamt Manchester United.
Lampard mun að öllum líkindum halda sig við 4-2-3-1 leikkerfið sem hann hefur notað mest allt undirbúningstímabilið. Fyrir mér er vörnin nokkuð sjálfvalin, Azpilicueta, Zouma, Christansen og Emerson munu líklega hefja leik.
Á miðjunni er svo stæsta spurningamerki okkar manna, hvort N‘Golo Kanté sé tilbúin til að hefja leikinn og hver verði þá með honum sem hinn „djúpi“ miðjumaðurinn. Ég ætla að tippa á að Kanté byrji leikinn og að Jorginho verði við hliðina á honum. Það er ekki mikið á milli Kovacic og Jorginho sem báðir hafa leikið ágætlega, sérstaklega sóknarlega, en strögglað pínu varnarlega. Ég held að Ross Barkley byrji svo í holunni en það skal engin láta sér bregða ef Mason Mount verður í þeirri stöðu. Fyrir mér á Barkley skilið að byrja eftir frábært undirbúningatímabil. Pedro og Pulisic verða svo á vængjunum og líklega, ef eitthvað er að marka æfingaleikina, mun Tammy Abraham fá traustið fram á við. Ef það verður ekki Tammy þá held ég að Giroud gæti fengið traustið enda mjög reynslumikill.
Manchester United:
Þar sem þetta er upphafsleikur tímabilsins ákvað ég að fá hinn gallharða stuðningsmann Man Utd, Orra Frey Rúnarsson, til að leggja mat á leikmannahóp Man Utd, geta sér til um byrjunarliðið og svo spá fyrir um úrslit leiksins á sunnudag:
Sumarglugginn hjá Man Utd var í meðallagi. Liðið þurfti nauðsynlega heimsklassa hafsent og fyrir smáklink fjárfesta þeir í Harry Maguire, framtíðar Ballon d’Or verðlaunahafa. Aaron Wan-Bissaka er svo trúlega mesta efni frá því að C. Ronaldo kom fram á sjónarsviðið og því ansi gott að hafa hann í hægri bakverði. Daniel James er svo nokkuð óþekkt stærð og verður áhugavert að sjá hversu mörg tækifæri hann fær í vetur.
Frá því að næstbesti portúgalski þjálfarinn (Pedro Hippolito sá besti) hætti með liðið hefur miðjan hjá Man Utd tekið skref niður á við. Belgíski konungurinn farinn til Kína og Herrera flúði Brexit og hélt til PSG. Þá er langbesti miðjumaðurinn okkar að refresh-a Dohop í leit að ódýru flugi til Madrid. Matic er svo aðeins búinn að vera skugginn af sjálfum sér á undirbúningstímabilinu.
Held að flestallir stuðningsmenn Man Utd hefðu verið afar sáttir með flottan miðjumann en fyrst að það gekk ekki upp verða Fred, McTominey eða Pereira að stíga upp um ansi margar hæðir ef ekki á að fara illa. Því miður held ég að þessir leikmenn kæmust ekki í byrjunarlið þeirra liða sem enduðu fyrir ofan Man Utd á síðasta tímabili.
Svo má ekki gleyma því að Man Utd er að fara í enn eitt tímabilið án þess að hafa hreinræktaðan hægri kantmann, spurning hvernig sú staða verði leyst.
Verð líka að nefna að þrátt fyrir að það sé ánægjulegt að leikmannastefnan undir OGS byggir á því að fá leikmenn sem dreyma um að spila fyrir Man Utd, þrátt fyrir að fórnarkostnaðurinn sé mögulega að missa af bitum eins og Dybala og Eriksen.
Væntingar til Man Utd eiga aldrei að vera neitt annað en titill eða a.m.k. titilbarátta. Ég ætla hinsvegar að leyfa brosmilda Norðmanninum að fá smá meiri tíma og krafan er því að ná aftur sæti sem tryggir liðinu leiki á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum næsta tímabil.
Varðandi byrjunarliðið að þá má alveg setja ágætis pening á að De Gea byrji í markinu. Wan-Bissaka verður hægri bakvörður og Luke Shaw sá vinstri. Lindelöf verður í hjarta varnarinnar og ég vona svo innilega að OGS meti að Maguire sé tilbúinn að byrja sinn fyrsta leik eftir nokkrar æfingar með liðinu.
Á miðjunni verða Matic og Pogba og líklegast verður McTominey með þeim.
Rashford og Martial eru öryggir með sín sæti en stóra spurningin er hver verður með þeim í þriggja manna framlínu. Ég ætla að giska á að það verði Lingard en Daniel James gæti alveg dottið óvænt inn.
Spá:
Jói: Þessi leikur verður ekki auðveldur fyrir okkar menn. Það er alltaf mikil stemning fyrir opnunarleikjum og því verða mikil læti á Old Trafford – það er á hreinu. Fyrir mér veltur mikið á því hvort að N‘Golo Kanté verði leikfær eða ekki, Jorginho og Kovacic hafa lent í svakalegum vandræðum í æfingaleikjunum og liðið hefur verið að leka mörkum. Lampard vill pressa hátt upp völlinn og þess vegna þurfa varnarsinnuðu miðjumennirnir að passa vel upp á svæðið milli miðju og varnar og ekki hleypa hraðri sóknarlínu Man Utd í skyndisóknir. Fyrir mér er Kanté leikmaðurinn sem límir varnarleik Chelsea saman, sérstkalega gegn þessum stærri liðum.
Ég spái hörkuleik sem hjartað segir að endi 2-4 fyrir Chelsea en heilinn segir 2-2 jafntefli. Held að við fáum alltaf mörk í þennan leik og líklega nóg af þeim.
Orri: Fyrsti leikur deildarinnar er alltaf dáldið sérstakur. Gríðarleg eftirvænting en lítil leikæfing og eitthvað gæti því vantað upp á flæði leiksins. Engu að síður ætti þetta að vera mjög athyglisverður leikur fyrir stuðningsmenn beggja liða. Fyrsta alvöru tímabil OGS að hefjast hjá Man Utd og Chelsea auðvitað með fyrrverandi leikmann Man City og New York City FC við stjórnvölinn.
Ég spái æsispennandi leik sem mun enda með 2-0 sigri Man Utd. Rashford með bæði mörkin í seinni hálfleik.
Comments