Keppni: Premier league
Dag- og tímasetning: fimmtudagur 28. Apríl kl 18:45
Leikvangur: Old Trafford
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Þór Jensen
Chelsea mæta rauðu djöflunum í Manchester United á Old Trafford kl 18:45 á fimmtudaginn. Okkar menn fara inn í leikinn með sætan sigur gegn West Ham á bakinu eftir flautumark frá Christian Pulisic en United koma til leiks eftir tap í síðustu 2 deildarleikjum og aðeins 2 sigra af síðustu 10 leikjum í öllum keppnum. Líklega er þetta frábær tími til að mæta þeim rauðklæddu, og ef eitthvað er þá er það kostur fyrir okkur að leikurinn sé ekki á Stamford Bridge þar sem gengi okkar á heimavelli hefur verið arfaslakt undanfarið.
Þrír síðustu leikir liðanna hafa endað með jafntefli, 1-1 og tveir 0-0 leikir. Leikir þessara liða eru oftast mjög jafnir og mikil barátta, harka og drama einkenna einvígi liðanna. Okkur til ánægju er Anthony Taylor ekki að dæma þennan leik, heldur Mike Dean, sem Man Utd stuðningsmenn eru þekktir fyrir að hata. Hvort sem það verður okkur til góðs á eftir að koma í ljós.
Chelsea
Eitthvað er um meiðlsi í leikmannahópnum en þeir sem spiluðu West Ham leikinn ættu allir að vera heilir ef ekkert breytist. Kovacic er meiddur og verður ekki með. James og Rüdiger eru tæpir vegna meiðsla en þeir æfðu í dag og gætu mögulega spilað gegn United ef að Tuchel fær grænt ljós eins og hann orðaði það á blaðamannafundi. Tuchel var spurður út í leikstöðu Reece James á blaðamannafundinum, hvort að hann sæi fyrir sér að spila honum sem hafsent í þriggja hafsenta kerfi til frambúðar eða nota hann í sinni gömlu stöðu í hægri vængbakverði. Hann svaraði því með því að segja að hann vildi óska þess að hafa tvo Reece James-a í liðinu, þá væri þetta vandamál úr sögunni. Hann hélt svo áfram og sagði að hann sæi James fyrir sér sem 55% hægri-vængbakvörð og 45% hafsent í 3 hafsenta kerfi, s.s. aðeins hrifnari af honum í vængbakverði heldur en í hafsent, en munar ekki miklu, það færi þó eftir andstæðingnum. Hann hefur áður sagt að hann vilji nota hann í hafsentinum á meðan hann er að koma til baka frá meiðslum þar sem sú staða reynir minna á hann líkamlega, svo líklega megum við búast við James þar gegn United.
Tuchel talaði einnig um Rüdiger og mikilvægi hans í leikmannahópnum og hversu mikil eftirsjáin verður að honum. Hann talaði einnig um Ruben Loftus-Cheek og að hann ætti enn eftir að sýna honum hvað hann er í raun góður og að hann þurfi að brjótast út úr skelinni og nota þá líkamlegu yfirburði sem hann hefur og ekki hika, spila hvern leik eins og úrslitaleik.
Tuchel hefur haldið sig við þríeykið Mount - Werner - Havertz uppi á topp og líklega mun hann halda því áfram, en þó gæti Lukaku komið inn í þetta eftir ágætis innkomu gegn West Ham þar sem hann fiskaði víti. Það yrði mikilvægt að menn eins og Pulisic myndu detta í gang núna undir lok móts í „crunch time“ og verður fróðlegt að sjá hvað hann fái margar mínútur gegn Djöflunum.
Manchester United
Manchester United eru í einhverri sögulegri lægð og þolinmæði þeirra stuðningsmanna er algjörlega á þrotum. Fólk er alls ekki ánægt með störf Þjóðverjans, læriföður og fyrrum þjálfara Thomas Tuchel, Ralf Ragnick, sem hefur ekki heillað einn einasta stuðningsmann Man Utd frá því að hann tók við. Stuðningsmenn eru ósáttir við þjálfarann, leikmannahópinn, stjórn og eigendur félagsins og vilja alls herjar hreinsun í sumar og losa stóran hluta leikmannahópsins burt úr félaginu. Sögur eru af óeiningu og eitraðri stemningu í klefa United og að leikmenn skiptist upp í tvær fylkingar gróft til tekið: Ronaldo klíkan með spænsku- og portúgölskumælandi leikmönnum og Harry Maguire klíkan, enskur kjarni sem styður fyrirliðann. Sá síðarnefndi hefur átt hreint út sagt hræðilegt tímabil og vörn liðsins verið í molum nánast allt tímabilið. Mikilvægir leikmenn eins og Bruno Fernandes og Rashford hafa einnig verið virkilega slakir undanfarið og fáir leikmenn liðsins hafa heillað stuðningsmennina. Tveir leikmenn hafa staðið upp úr og heillað stuðningsmenn á erfiðum tímum, Cristiano Ronaldo og Jadon Sancho. Eitthvað er um meiðsli og veikindi í leikmannahóp United, þ.á.m. hjá Harry Maguire, Luke Shaw, Cavani, Fred, Pogba, Wan-Bissaka (tæpur) og Sancho (tæpur).
Byrjunarlið
Ég spái sama byrjunarliði og gegn West Ham fyrir utan tvær breytingar, James kemur inn fyrir Jorginho og Azpi inn fyrir Chalobah. Ruben færist þá inn á miðju, James í hafsent og Azpi í RWB.
Chelsea hefur ekki unnið Manchester United á Old Trafford síðan 1. apríl 2013 (þegar Jóhann Már Helgason var á vellinum, innskot ritstjóra). Það er því heldur betur kominn tími til að leggja Djöflana á þeirra heimavelli, nú er rétti tíminn. Ég spái okkar mönnum 3-2 sigri með mörkum frá Mount, Kanté og James. Ronaldo setur svo tvö í grímuna á okkur, við virðumst varla getað haldið hreinu þessa dagana.
KTBFFH
Þór Jensen
コメント