top of page
Search

Lundúnarslagur við Brentford

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 19. október 2022 kl. 18:30

Leikvangur: Gtech Community Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma PálmasonChelsea:

Þá er stundin runnin upp. Óklárað verkefni. Við keyrum í gang næstu umferð á Gtech Community Stadium, heimavelli Brentford Football Club. 1-4 tap í síðasta leik þessara liða. Ég krefst sigurs í þessari hefndarviðureign. Lið okkar er á fjögurra leikja sigurgöngu í deildinni og fimm í öllum keppnum. Menn farnir að sýna sitt rétta andlit eftir erfiða byrjun og aðrir halda sínu formi eins og vanalega. Mount er líklegast besta dæmið um leikmann sem hefur heldur betur spilað vel í síðustu leikjum eftir erfiða byrjun. Fór fyrstu sjö umferðirnar í deildinni án þess að skora eða leggja upp mark, en er búinn að leggja upp fjögur og skora tvö í síðustu þremur leikjum. Við sitjum í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en við erum fjórum stigum á eftir Tottenham og Manchester City, en Arsenal tróna enn á toppnum.


Við fengum slæmar fréttir af meiðslalistanum, en N’Golo Kante verður frá þangað til á næsta ári. Hann kom úr vel heppnaðri aðgerð, og er búist við að hann verði á hliðarlínunni næstu fjóra mánuðina. Þeir sem eru einnig frá vegna meiðsla eru svo að sjálfsögðu Wesley Fofana, sem við eigum von á aftur núna í lok mánaðar, og Reece James, sem verður frá þangað til um miðjan desember í fyrsta lagi. Einn leikmaður sem mig langar að tala um, sem ég er fullviss um að haldi sínu sæti og jafnvel til lengri tíma, en það er enginn annar en Kepa Arrizabalaga. Þvílík frammistaða í síðasta leik! Greint var frá því fyrr á tímabilinu að Kepa hafi boðist að yfirgefa herbúðir okkar í sumar, en neitað því, sem gefur til kynna að hann hafi komið inn í þetta tímabil með nógu mikið sjálfstraust til að bæta sig. Sá hefur svo sannarlega unnið stuðningsmenn Chelsea á sitt band. Í tilefni þess, þá að sjálfsögðu hendir maður honum í rammann í því sem ég held að verði byrjunarliði okkar manna


Svona spái ég byrjunarliðinu:Brentford FC:


Býflugurnar, eins og þeir eru oft kallaðir, eru að koma úr ójöfnu prógrammi, þar sem þeir hafa unnið tvo, tapað tveimur og gert eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum, og sitja þægilegir í 9. sæti deildarinnar. Þeir hafa hins vegar fengið á sig 17 mörk í fyrstu 10 leikjunum sínum á meðan þeir rétt svo skora 18 mörk, eða einu marki meira. 2-0 sigur gegn gamla liði Mr. Potter, og þeirra besti maður Ivan Toney sjóðheitur á tímabilinu. Átta mörk og tvær stoðsendingar í 10 leikjum er virkilega góð tölfræði, sérstaklega í ljósi þess að Brentford hafa staðið sig svona “upp og niður” það sem af er. Ivan Toney er leikmaður sem ég hef miklar mætur á persónulega. Hann er ekta karakter sem stýrir sóknarleiknum hjá sínu liði og er ekkert feiminn við að láta í sér heyra. Hvort sem það er að uppljóstra rasisma á áhugaverðan máta á samfélagsmiðlum, eða taka góða “dauðastöru” á þá sem abbast uppá hans menn. Þá sýnir Toney allavega mikið inn á vellinum sem að utan. Ef við pælum í sóknarmönnum deildarinnar og reynum að negla niður bestu framherja sinna liða, að þá væri Toney mjög ofarlega að mínu mati. Hann, Jamie Vardy hjá Leicester, Callum Wilson hjá Newcastle og Danny Ings hjá Aston Villa eru allt dæmigerðir enskir framherjar þar sem harkan, metnaðurinn og dugnaður er oft það sem skín í gegn. Okkar menn gætu þurft að standa vörð í allar 90 mínúturnar til þess að spila Toney gjörsamlega úr leiknum. En nóg um það!


Líklegt byrjunarlið Brentford:


GK - Raya

RB - Ajer

CB - Jansson

CB - Mee

LB - Henry

CM - Janelt

CM - Onyeka

CM - Jensen

LW - Wissa

RW - Mbuemo

ST - Toney


Spá:

Ég ætla mér að vera hrokafullur þar sem við erum í sigurvímu ennþá eftir úrslit síðustu leikja, og ég segi að þetta verði alvöru sigur. Við komum inn í leikinn af alvöru krafti, með alvöru dólg, og skákum þessar býflugur á sínum eigin heimaslóðum. 0-3 lokaniðurstaða dagsins, og að sjálfsögðu halda sömu menn áfram að færa okkur mörkin. Aubameyang með eitt, Sterling kemst aftur á blað, og Mount kemur með alvöru sleggju fyrir utan teig!


KTBFFH!

Commenti


bottom of page