top of page
Search

Liverpool vs. Chelsea - nú er að duga eða drepast

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 22. júlí, kl. 19:15

Leikvangur: Anfield

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Þór Jensen


Á miðvikudagskvöld mæta Chelsea menn ríkjandi Englandsmeisturum Liverpool í sannkölluðum stórleik. Með sigri tryggja okkar menn sér þátttöku í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, en með tapi gæti brekkan orðið brött.

Eftir frábæran sigur gegn Manchester United á Wembley síðustu helgi, þar sem Chelsea tryggði sér sæti í úrslitaleik FA bikarkeppninnar, er kominn tími til að ná höfðinu niður úr skýjunum, komast niður á jörðina og stilla hausinn á næsta leik, því mikilvægari leik höfum við varla spilað á tímabilinu.

Eftir hálf taugatrekkjandi 1-0 sigur gegn Norwich í síðasta deildarleik var maður ekkert sérstaklega ánægður með spilamennsku liðsins, þótt að við hefðum verið með boltann nánast allan leikinn. Leikurinn gegn Man Utd var mun betri, sérstaklega seinni hálfleikurinn. Lampard fór aftur í þriggja hafsenta varnarlínu líkt og hann hefur gert fyrr á tímabilinu, sem kom mér alls ekki á óvart miðað við varnarleik liðsins í undanförnum leikjum (Kepa þurfti meira að segja að bjarga sigri gegn botnliði Norwich). Solskjær gerði að mínu mati stór mistök í leiknum að byrja með Martial, Pogba og Greenwood á bekknum, en eflaust var hann að hugsa til West Ham leiksins í deildinni og meistaradeildarbaráttu Rauðu Djöflanna.

Chelsea menn mættu grimmari og ákveðnari til leiks en þeir rauðklæddu og frá fyrstu mínútu sást að Chelsea menn voru ferskari en United menn, enda fengið 2 dögum lengra frí fyrir leikinn og eflaust nýtt tímann vel í undirbúning fyrir leikinn, sem sást greinilega. Það hefur líklega ekki hljómað vel í eyrum Lampards að tapa fjórða leiknum í röð gegn Manchester liði Solskjær, en United menn sáu eiginlega aldrei til sólar í leiknum.

Mikið er rætt um markmannsmistök David De Gea í mörkum Giroud og Mount, en Chelsea menn voru fyrir utan það mikið sterkari aðilinn í leiknum. Þriggja hafsenta kerfið gekk frábærlega en Reece James og Alonso komust trekk í trekk framhjá bakvörðum Manchester, áttu margar hættulegar fyrirgjafir og ullu varnarmönnum United miklum vandræðum. Mason Mount og Kovacic voru frábærir í leiknum, ásamt Giroud og Azpilicueta. Sterkur sigur hjá okkar mönnum og maður leiksins er að mínu mati Frank Lampard fyrir gott upplegg og slökkva eldinn í hingað til sjóðheitu United liði.

Leikurinn gegn Liverpool er einn sá mikilvægasti sem við höfum spilað á tímabilinu, en sigur í leiknum kemur okkur upp í 66 stig sem þýðir að Leicester menn, með 62 stig og einn leik eftir, geta ekki náð okkur að stigum og Meistaradeildarsætið því tryggt. Þrátt fyrir að Liverpool menn séu löngu búnir að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn og hafa engin met til að slá lengur, munu þeir mæta dýrvitlausir í þennan leik. Þeir hafa ekki gleymt hremmingunum sem þeir lentu í gegn okkar mönnum árið 2014 þegar Steven Gerrard, eða Slippy G eins og hann er oftast kallaður, rann og hleypti Demba Ba einum í gegn sem skoraði og gerði draum Liverpool manna um Englandsmeistaratitli það árið að martröð. Eftir leikinn á miðvikudag munu Liverpool menn fá afhentan sjálfan Englandsmeistaratitilinn á heimavelli sínum og þeir vilja örugglega ekki skyggja á það augnablik með slakri frammistöðu gegn okkar mönnum.

Ég fékk góðvin minn og Liverpool stuðningsmanninn Stefán Frey Gunnlaugsson til að skrifa stutta upphitun um sína menn, og hvernig hann spáir að Jörgen Klopp stilli upp sínu liði á miðvikudag.

Það er vonandi að Liverpool liðið sé búið að fá nóg af því að tapa leikjum í bili. Sem púlari hefur hingað til verið auðvelt að horfa framhjá misgóðum frammistöðum liðsins eftir að hafa tryggt sér titilinn. Þrátt fyrir það eru fá lið sem jafn leiðinlegt er að tapa fyrir eins og Chelsea.

Það yrði alveg sérstaklega súrt að tapa þessum leik, þó liðið hafi tæknilega séð ekki mikið að spila fyrir, þar sem titillinn verður afhentur eftir leikinn.

Ég spái því að Liverpool muni spila óvenjulega varlega. Bæði vegna þess að Chelsea eru alltaf að sýna það betur að þeir eru hörku lið og ætla sér greinilega að komast nær City og Liverpool á næsta tímabili ásamt því hversu anti-climatic það væri að tapa stórt áður en fagnaðarlætin byrja að leik loknum.

Líkleg uppstilling:


Ég spái því að Lampard haldi sig við þriggja hafsenta varnarlínu eins og virkaði svo vel gegn Man Utd um helgina, sérstaklega þar sem Kanté og Billy Gilmoure eru báðir meiddir. Ég hugsa að varnarlínan verði sú sama og á móti United, með Rüdiger, Zouma og Azpilicueta í hjarta varnarinnar og James og Alonso í vængbakvörðum. Það er eitthvað sem segir mér að Lampard muni skipta Jorginho út fyrir Ross Barkley á miðjunni með Kovacic, en Barkley spilaði mjög vel gegn Liverpool í bikarnum. Það gerði Billy Gilmoure auðvitað einnig, því er synd að hann geti ekki spilað leikinn vegna meiðsla. Stærsta spurningin er eiginlega hvort að Pulisic eða Mount byrji leikinn, því ég tel allar líkur á því að Willian og Giroud byrji inná. Líklega mun Pulisic byrja leikinn þar sem hann var hvíldur gegn United en Mount mun alltaf fá margar mínútur í þessum leik.

Ég spái byrjunarliði Chelsea svona:

Allir 3 leikir liðanna það sem af er þessu tímabili hafa verið frekar jafnir, fyrir utan sigur Chelsea í bikarnum mögulega, þar sem Liverpool menn hvíldu nokkra lykilmenn. Pressan er mikil á okkar mönnum og Liverpool hefur harma að hefna gegn okkar mönnum og vilja ekki tapa rétt fyrir bikarafhendingu, svo þetta verður erfiður leikur. Að lokum spái ég 2-2 jafntefli gegn Liverpool mönnum í hörkuleik með mikilli dramatík. Hvernig sem fer þá verður það enn í okkar höndum að tryggja okkur Meistaradeildar sæti með sigri á Wolves í síðasta leik, en það væri frábært fyrir okkar bláu hjörtu að tryggja það bara strax og geta andað aðeins léttar.

KTBFFH

Þór Jensen

Comments


bottom of page