Chelsea tók á móti Aston Villa í kvöld í leik sem var nokkuð líflegur. Lampard gerði heilar sex breytingar á byrjunarliðinu á meðan Dean Smith gerði bara eina breytingu á liði Villa.
Það var töluvert jafnræði í leiknum framan af, þótt okkar menn hafi verið meira með boltann voru Villa menn beinskeyttir fram á við og Jack Grealish þvingaði fram ágætis markvörslu frá Edouard Mendy á upphafs mínútunum. Okkar líflegasti leikmaður var Pulisic og komst hann í algert dauðafæri eftir ca. 20 mín leik en skaut í hliðarnetið. Það var svo á 34' mínútu er Ben Chilwell átti góða fyrirgjöf á okkar eina sanna Giroud sem náði frábærum skalla á markið og kom okkar mönnum yfir. Í kjölfarið á markinu áttu okkar menn mjög góðan kafla þar sem liðið stútfylltist af sjálfstrausti fram að hálfleik.
Aston Villa er að spila hörku fótbolta um þessar mundir og jöfnuðu leikinn strax á 50' mín er El-Ghazi skoraði eftir fyrirgjöf Matty Cash. Okkar menn voru einum færri þegar þetta gerðist þar sem Christensen lá "meiddur"
á vellinum eftir samstuð við Grealish.
Bæði lið reyndu að vinna leikinn. Okkar menn voru þó ívið aðgangsharðari og tókst Azpi að koma boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. John McGinn átti svo hörkuskot í slánna. Líklega er jafntefli sanngjörn úrslit í hörku fótboltaleik, sérstkalega ef mið er tekið af xG tölfræðinni.
Umræðupunktar
Ég sé á umræðunni meðal stuðningsmanna að margir telja að sæti Lampard sé orðið sjóðandi heitt. Ég tel ekki svo vera. Vissulega er liðið í djúpri lægð, en ég tel að Lampard geti komið okkur aftur á þann stað þar sem við vorum fyrir 3 vikum síðan - nálægt toppnum. Deildin er að spilast mjög furðulega og ekki langt í næstu lið fyrir ofan okkur, þrátt fyrir þessi vondu úrslit.
Werner var réttilega bekkjaður og mér fannst meira jafnvægi í vængspilinu okkar en í síðustu leikjum. Werner er ekki vængmaður.
Í jöfnunarmarki Aston Villa kristallast hvers vegna Andreas Christensen mun aldrei verða sá heimsklassa varnarmaður sem við vorum að vonast eftir að hann yrði. John Terry, Thiago Silva, van Dijk, Rio Ferdinand, Tony Adams og Sergio Ramos hefðu ekki legið eftir á vellinum. Þeir hefðu skakklappast til baka og skallað fyrirgjöf Matty Cash frá markinu og svo fengið aðhlynningu.
Þetta var ekki slakur leikur - en heldur ekki góður.
Lampard hefði mátt gefa Tammy síðustu 5 mín og bara taka miðjumann af velli.
Tek undir orð hans "Yahya" á twitter - það vantar eitt stk. Diego Costa í þetta lið.
Einkunnir
Edouard Mendy - 6: Það er ekki hægt að kenna honum um markið, en hann hefði mátt verja það. Hefðu Oblak, Alisson og Neuer varið það?
Cesar Azpilicueta - 6: Okkar allra besti Dave strögglar alltaf örlítið sóknarlega, sérstaklega í samanburði við Reece James.
Ben Chilwell - 7: Flott stoðsending hjá Chilly B sem hefði líka getað stolið sigrinum með geggjuðu skoti undir lok leiksins.
A. Christensen - 5: Ítreka bara það sem ég sagði hér að ofan, Daninn er bara einum of soft. Myndi fúnkera betur í t.d. spænska boltanum.
Rudiger - 6,5: Gerði ekki nein mistök og stóð sig vel gegn sprækum Watkins. Á samt alltaf í smá vandræðum í uppspilinu.
N'Golo Kanté - 6: Mér fannst Kante of seinn að átta sig á því að Aston Villa voru í yfirtölu í markinu þeirra. Hann hefði átt að koma fyrr inn í teiginn og dekka El-Ghazi í fjarveru Christensen.
Mason Mount - 7: Mount var fínn í leiknum. Linkaði vel við Pulisic og Chilwell þarna vinstra meginn á vellinum og átti sinn þátt í markinu.
Jorginho - 5,5: Mér finnst eins og Jorginho skorti ákveðna skilgreiningu á sínu hlutverki í liðinu hans Lampard. Hann var með mjög skýrt hlutverk hjá Sarri og er með það hjá ítalska landsliðinu. En hann virkar hreinlega eins og hann viti ekki hvar hann eigi að staðsetja sig. Getur miklu betur.
Hudson-Odoi - 6: Ég vonaðist eftir meiru frá CHO í þessum leik. Hann átti góða innkomu gegn Arsenal en var of ragur í þessum leik, óttaðist hreinlega að gera mistök - hann er vængmaður með hraða og leikni, hann þarf að nýta það betur.
Christian Pulisic 7: Okkar hættulegasti maður í leiknum en var einfaldlega klaufi að nýta "mómentin sín ekki betur. Hefði átt að skora amk eitt mark.
Olivier Giroud 7,5: Alltaf hægt að treysta á Konung Lundúna. Gerði gríðarlega vel í markinu. Maður leiksins.
Timo Werner 6: Turbo Timo fékk að spila "sína" stöðu eftir að hann kom inn á fyrir Giroud. Kom sér í eitt færi og var að hreyfa sig ágætlega án boltans.
Kai Havertz 6,5: Það besta sem Havertz hefur sýnt í nokkrar vikur. Var nokkuð öruggur á boltanum og virkilega reyndi að brjóta okkar leik upp - getur byggt ofan á þessa frammistöðu.
KTBFFH
- Jóhann Már
コメント