top of page
Search

Hversu flókið er að kaupa stórstjörnu í fótbolta?Mikið hefur verið rætt og ritað um möguleg kaup Chelsea á stórstjörnu framherja. Hafa leikmenn eins og Erling Haaland, Romelu Lukaku og Harry Kane verið nefndir til sögunnar. Stuðningsmenn liða verða oft mjög óþreyjufullir og óþolinmóðir eftir fréttum og finnst óskiljanlegt hversu langan tíma slík félagaskipti virðast taka.


Í þessum pistli ætla ég að reka það hvað Chelsea þarf að gera til þess að kaupa leikmann eins þá sem nefndir hafa verið hér að ofan. Reyna að útskýra hversu flóknir svona samningar eru, sem um leið skýrir hvers vegna þessir hlutir taka sinn tíma.


Fyrsta skrefið - Vill leikmaðurinn koma til Chelsea?

Þessi pistill verður ein stór dæmisaga þannig við skulum bara styðjast við raunveruleikann og notast við helsta skotmark Chelsea: Erling Braut Haaland.


Áður en Marina Granovskaia og Petr Cech vilja leggja í þá vinnu að gera tilboð í Haaland þá vilja þau hafa ákveðna fullvissu fyrir því að leikmaðurinn hafi raunverulegan áhuga á að koma til liðsins. Þetta eru óopinberar umræður (e. unoffical) enda eru þær, tæknilega séð, ólöglegar. Félög mega ekki ræða við leikmenn nema félagið hafi gefið leyfi fyrir því. En það er einfaldlega þannig í fótboltaheiminum að félög kanna það hvort áhugi sé til staðar hjá leikmanninum áður en lagt er úr vör.


Ekkert er undirritað eða neitt slíkt, bara passað upp á að launakröfur verði ekki vandamál og munnleg staðfesting fengin frá umboðsmanni leikmannsins að hann hafi áhuga á að koma til liðsins.


Sumir miðlar hafa þegar flutt fréttir af þessu, þó flestir þeirra flokkist sem miklir slúðurmiðlar þá byggir þetta eflaust á þessum óopinberu umræðum milli Mino Raiola og forráðarmanna Chelsea sem hafa þegar fundað um framtíð Haaland. Sjá frétt Daily Star um málið hér og svo frétt Talk Sport hér.


Ég tel það nokkuð borðliggjandi að Erling Haaland hefur áhuga á að koma til Chelsea.


Uppbygging á tilboðinu - Fjárhagur Chelsea - Gengur dæmið upp?

Þegar búið er að komast að því að leikmaðurinn hafi áhuga og fá að vita ca. hverjar launakröfur hans eru þá þarf að reikna dæmið út fjárhagslega. Hversu hátt verð getur Chelsea borgað fyrir Haaland án þess að fara út af sporinu fjárhagslega og halda sig innan marka Financial Fair Play reglubókarinnar.


Rekstraruppgjör á knattspyrnufélögum er býsna áhugavert. Laun og kaupverð leikmanns er afskrifað yfir samningstíma leikmannsins.

Einfalt dæmi: Chelsea kaupir Haaland á 100 milljónir og borga honum 10 milljónir á ári yfir 5 ára samning. Þetta væru þá 150 milljónir samtals sem afskrifast jafnt á 5 árum eða 30 milljónir á hverju rekstrarári.


Chelsea þarf að passa upp á að dæmið gangi upp, m.a. með að losa leikmenn til að búa til laust pláss í bókum félagins fyrir leikmann eins og Haaland. Ef undanfarnar vikur eru skoðaðar þá er ekki tilviljun að Chelsea eru búnir að selja leikmenn fyrir um 60 milljónir evra og um leið losa nokkra leikmenn úr bókum félagsins - það er klárlega eitthvað í farvatninu.


Launaskalinn - hverjir munu biðja um hækkun?

Það er alltaf hættulegt að borga einum leikmanni ofurlaun, því umboðsmenn annara leikmanna í sama liði reyna alltaf að nálgast þau laun. Eins og staðan er í dag er Chelsea í nokkrum samningaviðræðum. Rudiger, Azpilicueta, T. Silva og A. Christensen eru allir á síðasta ári samnings. Ef Chelsea færu að borga Erling Haaland 350-450 þúsund pund á viku þá myndi það alltaf hafa áhrif á t.d. samningaviðræður Rudiger og Christensen sem báðir eru sagðir vilja hressilega launahækkun.


Marina Granovskaia mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að reyna endursemja við ofangreinda leikmenn áður en samið er við stórstjörnu eins og Haaland. Þetta er t.d. einn af þeim hlutum sem á óbeinan hátt tefja hin mögulegu félagaskipti.Tammy Abraham áhrifin

Eins og kom fram hér að ofan hafa Chelsea verið að selja og losa leikmenn af launaskrá. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður, m.a. sú að búið er að herða reglur um það hversu marga leikmenn lið mega senda út á lánssamninga.


En það gefur auga leið að leikmaður eins og Tammy Abraham er í ákveðnu hlutverki í þessu leikriti. Hann er framherji, hefur verið í enska landsliðinu og skv. Transfermarkt er hann metinn á 38 milljónir evra. Thomas Tuchel setti Tammy algerlega í frystiklefann á síðasta tímabili og sökum þess hefur leikmaðurinn verið orðaður við lið eins og Arsenal og Aston Villa. Samningur Tammy Abraham rennur út árið 2023 svo það er eina vitið að selja hann núna.


Samningsstaða Chelsea versnar til muna ef búið er að kaupa annan framherja og Tammy ennþá á launaskrá. Liðin vita að Tammy er ekki að fara spila og hann er sjálfur óánægður, skiljanlega.


Tammy á bara tvö ár eftir af samningi þannig staða hans innan hópsins og samningstími gera það að verkum að hann mun bara lækka í verði. Það er því mikilvægt að klára söluna á Tammy áður en leikmaður eins og Haaland eða Lukaku er keyptur - einfaldlega svo við þurfum ekki að selja Tammy á brunaútsölu.Helvítis umboðsmaðurinn og ímyndarrétturinn

Ef það ætti að búa til lista af mestu "skúrkum" fótboltans eða lista yfir mest "hötuðustu" einstaklinga fótboltaheimsins þá væri umboðsmaðurinn Mino Raiola líklega ofarlega á báðum þessum listum.


Hann er mikill klækjarefur sem passar alltaf upp á fá stóran bita af kökunni til sín og sinna. Hann er líka fullkomlega óþolandi þegar umbjóðendur hans eru í samningaviðræðum um framlengingu á nýjum samningi. Paul Pogba er þar besta dæmið, ég held að Mino sé hreinlega ekki velkominn á Old Trafford eftir allt vesenið sem hann hefur verið með í kringum þann leikmann.


Mino Raiola gætir hagsmuna Erling Haaland ásamt föður hans, Alf-Inge Haaland.


Það hafa margar tröllasögur flotið upp á yfirborðið um launakröfur Erling Haaland og það hversu mikið Chelsea mun þurfa að greiða í hið svokallaða "agent fee" eða umboðslaun eins og að kallast á íslensku. Chelsea er talið vera tilbúið að borga Haaland í kringum 300 þúsund pund á viku + árangurstengda bónusa. Það fé sem Raiola tæki í sinn hlut (og færi auðvitað líka í vasa leikmannsins) er talið vera um 30 milljónir evra. Þessa greiðslu er ekki hægt að afskrifa yfir tíma eins og annan kostnað við Haaland og þarf að greiðast í heilu lagi og kemur þannig fram sem einskiptis kostnaður í bókhaldi Chelsea - sem er ekki gott. Skiljanlega vill því klúbburinn ekki borga þessa upphæð en mun líklega neyðast til þess, fari svo að þessi dæmisaga verði að veruleika.


Einn af þeim hlutum sem er farinn að verða meira áberandi í samningum við leikmenn er hinn svokallaði ímyndarréttur (e. image rights). Það er gríðarlega verðmætt fyrir Chelsea að geta notað stórstjörnu á borð við Haaland til að auglýsa sína styrktaraðila og um leið koma í veg fyrir að leikmaðurinn sé að gera samninga við samkeppnisaðila.


Tökum dæmi: Stærsti styrktaraðili Chelsea er fjarskiptafyrirtækið Three. Ef Chelsea greiða Haaland X upphæð í ímyndarrétt þá skuldbindur leikmaðurinn sig til að vera partur af einhverri herferð með klúbbnum og Three og um leið getur hann ekki gert sjálfur samning við samkeppnisaðila eins og t.d. Vodafone.


Því stærri stjörnur sem Chelsea fær til sín, því stærri sponsor samninga mun liðið gera.Já eða nei?

Ef allt þetta gengur upp þá geta Chelsea lagt fram tilboð, í þessari dæmisögu til Borussia Dortmund. Þær viðræður geta tekið langan tíma en líka mjög stuttan. Ef Chelsea hafa efni á mæta kröfum Dortmund þá fara liðin í þann fasa að byggja upp kauptilboðið, þ.e. hvernig og hvenær greiðslum verður háttað o.s.frv. Dortmund eru þekktir fyrir að vilja fá sem hæsta upphæð við undirritun en Marina og Chelsea vilja árangurstengja sem mest og dreifa greiðslum á þrjár til fjórar dagsetningar.


Á einhverjum tímapunkti leggur Chelsea fram sitt lokaboð og þá er bara að sjá hvort Dortmund segja, já eða nei.


Fari svo að samningar náist við Dortmund þá fær Chelsea leyfi til að ganga til samninga við Raiola og Haaland, það tekur alltaf smá tíma og í kjölfarið ganga svo félagaskiptin í gegn.


Nú er bara að bíða og sjá hvernig Marinu og Cech gangi við samningaborðið. Áhuginn er til staðar, bara spurning hvort allir þessir hlutir ganga upp.


Vonum það besta.


KTBFFH

- Jóhann Márコメント


bottom of page