Chelsea lék æfingaleik gegn Barcelona í upphafi vikunnar, var þetta fjórði æfingaleikurinn á þessu undirbúningstímabili. Það sem vakti athygli okkar stuðningsmanna Chelsea fyrir leikinn var að Tammy Abraham var kominn í hina fornfrægu treyju nr. 9 en það er einskonar fótboltahefð að aðalframherji hvers liðs leiki í treyju nr. 9. Tammy fagnaði nýja treyjunúmerinu með marki gegn Barcelona og staðfesti svo eftir leik að Frank Lampard hefði boðið sér númerið. Nú er spurningin hvort Abraham geti sannað sig sem aðalframherji Chelsea og um leið brotið bölvunina sem virðist hafa hvílt yfir þessu treyjunúmeri hjá okkar ástkæra félagi.
Saga treyju nr.9
Ef sagan er skoðuð að þá er erfitt að færa rök fyrir því að það ríki einhver sérstök bölvun á þessu blessaða treyjunúmeri, því bestu framherjar í sögu Chelsea hafa margir hverjir leikið með þetta númer á bakinu. Þannig voru Peter Osgood, Kerry Dixon og Jimmy Floyd Hasselbaink allir númer 9 og stóðu sig frábærlega. Það er hins vegar athyglisverð staðreynd að tveir markahæstu menn Chelsea, þeir Frank Lamaprd og Bobby Tambling, léku báðir í treyju nr. 8.
En bölvunin á númerinu hefur meira verið í seinni tíð eða allt frá því að Chelsea keypti hinn enska Chris Sutton árið 1999 fyrir metfé. Sutton, sem hafði verið fínn markaskorari hjá Blackburn, lék afleitlega með Chelsea og skoraði aðeins eitt mark í 28 leikjum í ensku Úrvalsdeildinni. Síðan þá hafa ansi margir leikmenn mátað sig við níuna en flestir hafa floppað. Hernan Crespo náði aldrei almennilega að festa sig í sessi, Mateja Kezman var alveg skelfilegur og númerinu tókst að breyta sjálfum Fernando Torres í einhvern Inkasso spilara.
Radamel Falcao gerði lítið sem ekkert og Alvaro Morata hræddist númerið svo mikið að hann lét skipta sér úr "níunni" eftir eitt ár. Ekki tókst Gonzalo "Big Mag" Higuain að standa sig neitt sérstaklega vel í númerinu heldur. Inn á milli hafa svo algerir aukaleikarar fengið að vera númer níu eins og Franco Di Santo, Steve Sidwell og svo fékk mannætan Khalid Boulahrouz einhverra hluta vegna að vera númer níu eitt tímabilið! Eini leikmaðurinn sem hefur staðið sig vel í þessari treyju á síðari árum er Jimmy Floyd Hasselbaink! Núna er röðin komin að Tammy Abraham.
Forsagan
Abraham verður 22 ára í október, hann er því enginn unglingur lengur. Hann er 190 cm á hæð skv. Transfermarkt og er alvöru skrokkur sem býr líka yfir töluverðum hraða. Hann lét fyrst af sér kveða í alvöru fórbolta tímabilið 16/17 þegar hann var á láni hjá Bristol City, þar spilaði Tammy 41 leik og skoraði í þeim 23 mörk. Chelsea ákváðu þá í kjölfarið að lána kappann til Swansea sem þá léku í Ensku Úrvalsdeildinni, lið Swansea var alger hörmung þetta tímabilið og féllu með stæl. Abraham lék heilan 31 leik en átti ekki fast sæti í liðinu, m.a. vegna tíðra stjóraskipta og einnig var hann að berjast við meiðsli, hann endaði með fimm mörk í ensku Úrvalsdeildinni það árið og tókst ekki að heilla marga frekar en nokkur annar leikmaður Swansea. Þegar Maurizzio Sarri tók við Chelsea síðasta sumar gerði hann Tammy það ljóst að Morata og Giroud væru á undan honum í goggunarröðinni. Okkar maður vildi sanna sig en ákvað að lokum að fara á láni til Aston Villa, eitthvað sem hann sjálfur var ekki fyllilega sáttur við, því hann vildi spila áfram í ensku Úrvalsdeildinni. Tímabilið hjá Villa endaði svo með að vera mjög gott. Tammy skoraði 26 mörk í 40 leikjum og var að flestra mati besti framherjinn í Championship deildinni.
Hvernig mörk skorar Tammy Abraham?
Ég ákvað að skoða öll mörk Tammy Abraham á síðasta tímabili og reyna að greina hvernig mörk hann er að skora. Það er oft sagt að því betri sem framherjar eru, því fjölbreyttari mörk skora þeir - mér finnst mikið til í því.
Af þessum 26 mörkum sem Tammy skoraði að þá komu fimm úr vítaspyrnum. 17 mörk voru skoruð með hægri fæti (þ.m.t. vítin), 6 mörk voru skoruð með skalla og aðeins þrjú með vinstri löppinni. Það sem vakti líka athygli mína er að 17 af þessum 21 marki sem kom úr opnum leik voru skoruð með fyrstu snertingu og að Tammy skoraði ekkert mark fyrir utan vítateiginn.
Ef við reynum að ramma þessa tölfræði inn að þá segir hún okkur að Tammy Abraham er refur í boxinu, stór og sterkur skallamaður sem getur klárlega slúttað færum. Hann er hins vegar ekki mikill skotmaður og virðist ekki skora mörk þar sem hann kemur hlaupandi á varnirnar. Mér sýnist á þessu öllu að hann þurfi umtalsverða þjónustu en slíkt hefur nú líka átt við um mestu markaskorarana. Ef ég ætti að líkja leikstílnum hans við einhvern leikmann úr sögunni myndi ég líklega nefna hinn franska David Trezeguet.
Vonir og væntingar
Ég tel að við stuðningsmenn Chelsea þurfum að stilla væntingum okkar í hóf. Þar er risastórt skref að fara úr því að vera góður í Championship deildinni yfir í það leiða línuna fyrir Chelsea. Ég tekið dæmi um leikmann eins og Dwight Gayle, sá skorar alltaf grimmt í næst efstu deildinni en nær aldrei að sanna sig í deild þeirra bestu. Tammy er samt ennþá ungur og er að þróa sinn leik, Lampard hefur líka greinilega trú á honum og fyrir mína parta yrði ég feykilega sáttur ef hann nær 12-13 mörkum í 25-30 leikjum. Þá væri hann á góðri vegferð.
KTBFFH
Comments