top of page
Search

Fyrsti sigur Tuchel: Leikskýrsla og einkunnir eftir sigur á Burnley



Gangur leiksins

Eins og við var að búast voru okkar menn mikið meira með boltann og stjórnuðu leiknum frá A til Ö. Það er hins vegar hægara sagt en gert að brjóta á bak aftur varnarmúr Burnley með þá fóstbræðurna Mee og Tarkowski fremsta í flokki auk þess sem Nick Pope er hörku góður markvörður. Megnið af fyrri hálfleiknum var því beint framhald af Wolves leiknum þar sem okkar menn voru nánast í handboltasókn að reyna að finna glufur á vörn gestanna. Sú glufa fannst loksins á 40. mín þegar Mason Mount fann pláss á miðjunni, keyrði upp völlinn og fann Callum Hudson-Odoi sem tók til sín tvo varnarmenn Burnley og lagði boltann svo snyrtilega á Cesar Azpilicueta sem var þá í dauðafæri og skoraði með góðu skoti upp í hornið fjær. Þetta mark gerði helling fyrir okkar menn, loksins búnir að brjóta ísinn.


Seinni hálfleikurinn spilaðist nákvæmlega eins og sá fyrri. Okkar menn reyndu að ógna en þétt Burnley vörnin hélt velli allt þar til á 84' mínútu að hinn gleymdi Marcos Alonso skoraði týpískt Marcos Alonso mark. Pulisic átti mjög góða sendingu inn í teiginn þar sem Alonso var mættur á nærstöngina, hélt boltanum einu sinni á lofti og þrumaði honum svo upp í þaknetið - stórkostlegt mark.


Virkilega sanngjarn sigur.



Umræðupunktar eftir leik

  • Tuchel heldur áfram að vinna með 3-4-2-1 leikkerfið sem virðist vera falla vel að hópnum.

  • Kovacic og Jorginho voru betri í að finna sendingar fram á við í þessum leik sem var megin munurinn frá því í jafnteflinu gegn Wolves. Þannig tókst okkar mönnum að skapa meiri hættu í þessum "vösum" fyrir framan vörn Burnley.

  • Kovacic átti sinn besta leik í langan tíma - frábær frammistaða.

  • T. Silva er eins og kóngur í ríki sínu í hjarta varnarinnar og bindur þetta leikkerfi saman. Hann er gólandi allan leikinn að passa upp á menn haldi sínum stöðum.

  • Þetta nýja hlutverk Hudson-Odoi er magnað. Hann spilar sem vængbakvörður en hefur í raun sáralítið þurft að verjast í þessum tveimur leikjum. En þessi staða dregur fram hans bestu eiginleika því hann heldur breiddinni mjög vel og hefur því mikið pláss til að hlaupa í með boltann. Frábær frammistaða hjá CHO sem ætlar sér að verða lykilmaður undir stjórn Tuchel.

  • Áhugaverð hálfleiksskipting hjá Tuchel þegar hann tók Tammy út af fyrir Pulisic. Captain America var mjög sprækur í fremstu víglínu.

  • Fyrsta færi Burnley kom á 94' mín þegar Tarkowski skallaði yfir. xG tölfræði gestanna í leiknum var 0,2.

Einkunnur leikmanna

Mendy - 7: Hafði mjög lítið að gera en sólaði einn leikmann Burnley og hækkar því upp í sjö.


Azpilicueta - 8: Leiðtogahæfileikar "Dave" eru eitthvað sem Tuchel er að treysta á um þessar mundir - við hæfi að hann skori fyrsta mark undir stjórn TT.


T. Silva - 8: Það er ekki sjálfsagt að eiga svona miðvörð sem nánast einn síns liðs pakkaði báðum framherjum Burnley saman. Hvað eftir annað hirti hann boltann af þeim félögum Wood og Vydra uppi við miðlínu, sem gerði það verkum að okkar menn héldu pressunni á gestunum.


Rudiger - 7: Flott frammistaða hjá Rudi. Var með mun færri sendingar en bæði Azpi og T. Silva sem er pott þétt ekki tilviljun. Kláraði sitt dagsverk vel.


Jorginho - 7: Góð frammistaða hjá Jorginho sem tók fleiri djarfari sendingar en í leiknum gegn Wolves. Það er alltaf ákveðin yfirvegun yfir Jorgi sem TT vill klárlega hafa í sínu liði.


Kovacic - 8,5: Frábær leikur hjá Kova sem hvað eftir annað losaði boltann úr vörninni í hárrétt svæði fyrir Mount, CHO og Werner. Ef hann myndi bæta við mörkum í leik sinn væri hann í algerum heimsklassa.


Alonso - 7,5: Var pínu ryðgaður enda ekki spilað leik í langan tíma. En óx inn í leikinn og var farinn að skila frábærum hlaupum inn í teiginn. Alonso kann þessa stöðu upp á tíu og getur klárlega nýst okkur vel. Geggjað mark sem hann skoraði!


Hudson-Odoi - 8,5: Mögulega er CHO að fara verða okkar Alphonso Davies sem kom eins og stormsveipur inn í lið FC Bayern í fyrra í nýrri stöðu. Er gríðarlega atkvæðamikill og með sjálfstraustið í botni. Fyrsti maður á blað hjá Tuchel eftir þessa tvo leiki.


Werner - 5,5: Enn og aftur veldur Timo vonbrigðum. Átti tvö afleidd skot úr slökum færum sem Pope hló að. Fékk svo alvöru færi en tókst þá að skjóta í sjálfan sig. Það er nákvæmlega ekkert sjálfstraust hjá Turbo Timo.


Mount - 8,5: Frábær leikur hjá Mount sem ætlar að sýna sig og sanna fyrir nýjum þjálfara. Líklega er Mount búinn að vera okkar besti leikmaður heilt yfir og mikilvægi hans í liðinu alltaf að aukast.


Abraham - 5,5: Ekki góður dagur á skrifstofunni hjá Tammy sem var tekinn út af í hálfleik.


Pulisic - 7: Góð innkoma hjá Captain America. Lagði upp mark og var hreyfanlegur í fremstu víglínu með Werner. Mun líklega byrja næsta leik.


R. James - 7: Kom inn í leikinn fyrir frábæran Hudson-Odoi og hélt uppteknum hætti við að hrella Burnley vörnina. Átti marga góða krossa og var mjög góður á boltanum.


Havertz - Spilaði of lítið til að fá einkunn.


KTBFFH

- Jóhann Már





bottom of page