Keppni: Sambandsdeildin
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 6. mars 2025 kl: 17.45
Leikvangur: Parken, Kaupmannahöfn, Danmörk
Dómari: Georgi Kabakov (Búlgaría)
Hvar sýndur: Viaplay Ísland
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson

Þá er komið að því að heimsækja norðurlöndin og kóngsins Kaupmannahöfn verður fyrir valinu hjá okkar mönnum í þetta skiptið. Nú mætum við FC Kaupmannahöfn í Sambandsdeildinni. Þessi keppni er líklega eini möguleiki okkar manna á að næla sér í dollu þar sem árangurinn í öðrum keppnum hefur verið ansi brokkgengur upp á síðkastið. Það væri sannarlega sárabót að ná hér markverðum úrslitum og full ástæða til bjartsýni. FC Kaupmannahöfn hafa reyndar oft sýnt að þeir geta verið harðir í horn að taka og hafa sannarlega heimavöllinn með sér. Það þýðir lítið fyrir þá bláklæddu að fara í leikinn í einhverjum hálfkæringi. Jacob Neestrup og hans menn ætla sér efalaust að sýna hvað í þeim býr og hef ég trú á að Parken verði stappfullur af snarvitlausum Dönum sem styðja sína menn fram í rauðann dauðann, enda eru um 20.000 manns skráðir í aðdáendaklúbbinn sem standa þétt við bakið á FCK eins og þeir eru gjarnan kallaðir. Þeir hafa gert allar götur síðan klúbburinn var stofnaður formlega árið 1992 þegar þrjú félög voru sameinuð í eitt. Danirnir hafa kannski ekki átt neitt sérstaklega gott mót í Sambandsdeildinni hingað til, en ekki skal vanmeta þá. Leikir í þessum deildum spilast gjarnan öðruvísi og geta og hafa oft orðið hin besta skemmtun og er engin ástæða til að búast við öðru á fimmtudaginn. Maður setur kannski spurningamerki við hvernig Maresca ætlar að stilla drengjunum upp fyrir leikinn, en margar spurningar hafa jú vaknað í úrvalsdeildinni í vetur og þeim hefur ekki alltaf verið auðsvarað. Ég verð að viðurkenna að ég er enginn sérfræðingur í danskri knattspyrnu og þekki ekki lið FCK það vel til að vera með einhverjar vangaveltur en klárlega er þetta besta lið danskrar knattspyrnu um þessar mundir og reyndar stórveldi á þeirra vísu. En sjáum til og vonum einfaldlega það besta og Chelsea er mun betra lið í bókunum og þetta ætti samkvæmt öllu að verða “gönguferð í garðinum” en spyrjum að leikslokum.
Chelsea
Það er ýmislegt hægt að segja um liðið okkar og spilamennskuna undanfarið en góður 4-0 sigur á Southhampton í síðasta leik hleypti vonandi blóði í okkar menn. Það var þó auðvitað skyldusigur á neðsta liði deildarinnar og hefði annað verið skandall. Við fengum skell á móti Brighton í einum skelfilegasta leik liðsins í vetur um miðjan febrúar og töpuðum svo fyrir lánlausum Aston Villa mönnum. Uppskriftin sem liðið okkar virðist detta í endalaust og grallararnir eru farnir að teikna upp hljóðar einhvernveginn svona:
Chelsea skorar snemma leiks
Chelsea gleymir svo hvernig á að spila fótbolta
Andstæðingurinn jafnar
Andstæðingurinn kemst yfir
Andstæðingurinn vinnur leikinn.
Ég geri mér fulla grein fyrir að þetta eru ekki jákvæð skrif, en lífið er ekki alltaf eintómar rækjur og rjómi. Það er staðreynd að liðið okkar hefur fengið allt of mörg dauðafæri til að komast nær liðum sem ofar sitja á töflunni, en þegar á reynir þá vantar alltaf eitthvað uppá, og alltof oft er uppskriftin að leikjunum eins og sú hér fyrr í skrifunum. Það hefur hvarflað að manni að Maresca sé bara ekki tilbúinn fyrir stóra sviðið, en auðvitað er þetta ekki búið, en margt getur gerst og maður missir ekki vonina fyrr en í fulla hnefana. Hvað einstaka leikmenn varðar þá er okkar einstaki Cole Palmer eitthvað utan gátta þessa dagana, en Maresca hefur engar áhyggjur og segir að Palmer brosi ennþá. Ég er viss um að eitt eða tvö mörk á móti FCK myndu kveikja eldinn aftur og sparka honum í gang. Jackson er fjarri góðu gamni ennþá og neyðumst við þá sennilega til að nota Nkunku í fremstu víglínu, en mér virðist eins og hann sé með hausinn einhverstaðar allt annarsstaðar, en vona að það sé rangt lesið hjá mér. Það er full ástæða til að nota ungliðahreyfinguna meira, en margir kornungir strákar eru að koma upp í liðið og margir spennandi kostir þar. Það er full ástæða að nefna Pedro Neto sem er að koma sterkur inn og svo er bara ekki annað hægt en að minnast á Cucurella en þó að kannski sé hægt að segja að hann sé ekki besti knattspyrnumaður heims þá er vinnusemin slík að ekki er annað en hægt að dást að honum. Hann er furðu dýrmætur fyrir liðið þó fæturnir (og skórnir) geti stundum flækst fyrir honum. Ég held einhverveginn að Reece James sé og verði ekki til stórræðana, því miður, þar sem eftir lifir tímabils og hann er enn einungis skugginn af sjálfum sér. Aðrir leikmenn eru í sæmilegu formi utan hefðbundna meiðslapésa eins og Lavia, Fofana og fleiri sem skipa langtímameiðslalistann. En með fullt af kornungum strákum að banka á dyrnar og það hjá yngsta liði ensku úrvalsdeildarinnar er framtíðin björt og engin ástæða til annars en bjartsýni. Það styttist í vorið og allt á uppleið og ég er sannfærður um að okkar menn taki síðasta hlutann af tímabilinu með miklum stæl og klári þetta með sóma.
Áfram Chelsea !!!
Comments