top of page
Search

FA Bikarinn: Leicester vs Chelsea

Keppni: FA bikarinn

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 28. júní, kl. 15:00

Leikvangur: King Power Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Sport 2 og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason

Chelsea

Síðasti leikur Chelsea var líklega einn sá besti á tímabilinu. Okkar menn gerðu sér þá lítið fyrir og lögðu Manchester City í frábærum fótboltaleik á Stamford Bridge. Lampard kom flestum á óvart og gaf Ross Barkley traustið á miðjunni ásamt þeim Mason Mount og N‘Golo Kanté. Þetta þýddi að bæði Mateo Kovacic og Jorginho máttu þola sæti á bekknum. Chelsea var aðeins 35% með boltann gegn City en við vorum þrátt fyrir það gríðarlega hættulegir fram á við þar sem bæði Christan Pulisic og Willian ógnuðu með eitruðum hlaupum inn fyrir vörn Man City. Vinnslan í liðinu var frábær og varnarleikur liðsins algerlega framúrskarandi, sérstaklega hjá Andreas Christensen, sem líklega átti sinn besta leik fyrir Chelsea. Mörkin komu frá Pulisic og Willian en heilt yfir hefðu okkar menn geta bætt við 1-2 mörkum í viðbót. Það segir eflaust sitt að tölfræðin „x-G“ sem stendur fyrir „expected goals“ sem segir til um hversu mörg mörk liðin „hefðu“ átt að skora í leiknum fór 4,2 gegn 0,69 fyrir Chelsea. Sigurinn var því verðskuldaður! Þessi sigur gerði það að verkum að Liverpool urðu „sófameistarar“ – skulum ekki eyða fleiri orðum í það!


Vindum okkur þá í leikinn gegn Leicester City. Þetta eru 8.liða úrslit í FA bikarkeppninni – þeirri elstu og virtustu – eins og menn vilja jafnan kalla þá keppni. Það er engin aukaleikur, þannig á morgun er leikið til þrautar. Sé mið tekið af þessum tveimur fyrstu leikjum eftir Covid pásuna virðist Lampard vera búinn að ákveða að Christensen og Rudiger séu hans fyrsta miðvarðarpar, að sama skapi virðis Alonso ríghalda í vinstri bakvarðarstöðuna og Azpilicueta er búinn að vera frábær hægra megin. Ég held samt að Lampard vilji rótera liðinu í bikarnum, sérstaklega þar sem það er gríðarlega þétt leikið. Ég ætla því að tippa á að Reece James komi inn í liði á kostnað Alonso og Azpi fari í vinstri bakvörðinn.

Á miðjunni ætla ég að vera svo brattur að spá innkomu bæði Billy Gilmour og Mateo Kovacic inn í liðið á kostnað Kanté og Barkley. Ég veit að það er óðs manns æði að hvíla Kanté, en ég held að m.v. öll meiðslin sem hann hefur mátt þola að þá verður að stýra álaginu á honum eins vel og kostur er. Ég held svo að bæði Pedro og Tammy Abraham komi inn í liði á kostnað Giroud og Willian.

Leicester City

Eins og allir muna voru Leicester stórkostlegir framan af móti og léku frábæran fótbolta, sem líklega náði hámarki þegar þeir kjöldrógu Southampton á þeirra eigin heimavelli 0-9 í október. En lærisveinar Brendan Rogers eru búnir að vera ískaldir á árinu 2020. Þeir hafa aðeins unnið tvo leiki í ensku Úrvalsdeildinni síðan í janúar og gert tvö jafntefli í deildinni eftir Covid pásuna. Í 16. liða úrslitum FA bikarsins slógu þeir svo út B-deildar lið Birmingham. En þrátt fyrir að gengi Leicester hafi ekki verið upp á marga fiska upp á síðkastið að þá er þetta lið stútfullt af gæðum sem geta á sínum degi leikið frábæran fótbolta.

Leikmenn eins og Youri Tielemans, James Maddison, Caglar Söyuncu, Harvey Barnes og Wilfred Ndidi eru allt spilarar á frábærum aldri með mikil gæði. Svo hafa þeir líka reynsluboltana Kasper Schmeichel, Johnny Evans og Jamier Vardy, sem hefur verið frábær á þessu tímabili. Þeir hafa líka vinstri bakvörðinn Ben Chilwell, sem þrálátlega hefur verið orðaður við Chelsea undanfarin misseri. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur inn í þennan leik, enda verða mörg augu á honum.


Spá

Báðir leikir þessara liða í deildinni enduðu með jafntefli. Ég á einhvernveginn von á svipuðum leik, þar sem mikið jafnræði verður með liðunum. Brendan Rogers er klókur þjáfari sem getur aðlagað lið sín vel að andstæðingnum. Að sama skapi eru okkar menn á blússandi siglingu og fullir sjálfstraust eftir sigur á Man City. Ég ætla að spá okkur 1-2 sigri í maraþon leik, þar sem varamaðurinn Loftus-Cheek tryggir okkur sigurinn í framlengingu.

KTBFFH

Comments


bottom of page