top of page
Search

Engin fótbolti til 4. apríl hið minnsta vegna Covid 19 – Leikmenn Chelsea í sóttkvíHlutirnir eru að gerast hratt þessa dagana. Samkomubönn, frestanir og sóttkví eru þau orð sem heyrast hvað mest í samfélaginu þessa dagana. Kórónaveiran Covid19 er að hafa fordæmalausar afleiðingar um alla heimsbyggðina og er knattspyrnuheimurinn þar engin undantekning. Enska Úrvalsdeildin reyndi hvað hún gat til þess að spila leiki um komandi helgi og sendi m.a. frá sér yfirlýsingu um kl 21:00 í gærkvöldi þar sem ítrekað var að allir leikir helgarinnar myndu fara fram með óbreyttu sniði, þ.e. ekki spilað fyrir lokuðum dyrum eða neitt slíkt. Aðeins klukkustund eftir þessa tilkynningu bárust fréttir af mögulegum veikindum í leikmannahópi Leicester og svo strax í kjölfarið staðfesti Arsenal að þjálfari þeirra, Mikel Arteta, hefði greinst jákvæður fyrir Covid19. Þetta var til þess að enska Knattspyrnusambandið fundaði í morgun (föstudag) og gaf það út að enska Úrvalsdeildin væri komin í hlé þar til 4. apríl hið minnsta. Hið sama gildir um Meistaradeildina og Evrópudeildina. Svo bárust einnig þær fréttir í morgun að Callum Hudson-Odoi hafi einnig greinst með Covid19 veiruna sem útskýrir þá hvers vegna Chelsea æfði ekkert í gær og er núna allur leikmannahópur Chelsea kominn tveggja vikna sóttkví.Hvað gerist næst?

Þetta er milljón dollara spurningin. The Athletic reyndi að svara þessari spurningu í langri grein sem britist á vefmiðlinum í gær. Niðurstaðan var sú að það ríkir í raun fullkomin óvissa enda er ekki fyrirséð hvort að þessi frestun til 4. apríl sé nægilega langur tími fyrir veiruna að ganga yfir – líklega er það ekki raunin. Í raun eru bara tveir kostir í stöðunni, þ.e. að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar faraldurinn er genginn yfir og spila langt inn í sumarið. Eða þá að aflýsa núverandi keppnistímabili alfarið. Hvorugur kosturinn er gallalaus og sitt sýnist hverjum. Ef tímabilið yrði klárað á komandi sumri er nokkuð augljóst að Evrópumeistaramótinu verður frestað (sem líklega verður raunin hvort sem er) en þá þarf mögulega að hefja næsta tímabil seinna og þá erum við komin í vítahring sem erfitt er að komast upp úr – því það er spilað mjög þétt í þessum efstu deildum. Ef þetta tímabil yrði svo bara afskrifað þá færu allskonar lagaflækjur í gang um fallbaráttu, meistaradeildarsæti og auðvitað færi Liverpool-samfélagið á hliðina.


Það eina sem er öuggt er að engin veit hvað gerist næst. Heilsa fólk og almannaheill er og verður í efsta sæti og fyrirbæri eins og fótbolti verður einhvernveginn mjög lítið í aðstæðum sem þessum. Allir þurfa að leggjast á eitt, sápa og spritta og reyna að hindra útbreiðsluna sem mest. Þá vonandi getum við farið að tala aftur um hvað Billy Gimour er efnilegur, hvort Kepa eigi framtíð á Stamford Bridge og hvaða leikmenn Frank Lampard á að kaupa næsta sumar.


Þangað til, hugsið vel um hvort annað.


KTBFFH

ความคิดเห็น


bottom of page