top of page
Search

Deildarbikarinn á móti City

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 9. Nóvember 2022 kl 20:00

Leikvangur: Etihad Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport og betri sportbarir landsins

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason
Chelsea:

Þá er komið að Enska deildarbikarnum, eða Carabao Cup, eða EFL, hvað sem fólk kýs að kalla þessa keppni. Mig langar til þess að byrja þessa upphitun á því að fara aðeins yfir mál okkar manna eftir gengi okkar undanfarið. Staðan er sú, eftir seinasta leik sérstaklega, að margir kalla eftir alvöru viðbrögðum frá okkar manni Graham Potter. Þessi bráðsnjalli og hámenntaði félagsfræðingur hefur sýnt okkur tvær hliðar frá sér. Hann elskar leikmennina sína og vill gera allt sem hann getur til að vernda þá, hvernig sem það sýnir sig í hegðun hans. Hins vegar er eitt við hann sem ég er sjálfur enn að reyna átta mig á. Það er hvernig kúltúr hann vill skapa í félaginu okkar þegar hann er við stjórnvölinn? Ef við horfum á þjálfara eins og Antonio Conte og hans leiðir á undirbúningstímabili, Klopp og hans leiðir í viðtölum og fjölmiðlum, Pep og hans leiðir í klefanum, eða hvern sem þið viljið taka sem dæmi, að þá eru allir þjálfarar á hæsta stigi með það sameiginlegt að þeir ákveða þann kúltúr sem þeir vilja á sínum vinnustað og stjórna því algjörlega eftir sínum venjum, sínum markmiðum og sínu hugarfari. Ég vil sjá meira svona frá Mr. Potter. Gengi Potter með okkur sýnir einnig tvær hliðar. Frá því að hann tók við, höfum við unnið 7 leiki, tapað 2 og gert 3 jafntefli. Þetta er nú alls ekki hræðileg tölfræði, ekki satt? Þessi tölfræði getur hins vegar blekkt mann aðeins þar sem við höfum fengið á okkur 8 mörk í síðustu 5 leikjum, og skorað aðeins 6 á móti því.


Það sem ég hef helst tekið eftir er andrúmsloftið inn á vellinum. Leiksskipulagið, metnaðurinn, ástríðan og krafturinn virðist hafa horfið með Reece James og hans meiðslum, eða hvað sem það var sem hrifsaði þennan lífskraft úr okkur. Frammistaðan gegn Arsenal, okkar erkifjendum, á heimavelli, var ekkert minna en vandræðaleg. Skammarleg frammistaða sem á sér nánast enga líka, og á alls ekki að koma til greina í félagi eins og okkar! Að sjálfsögðu tapast einhverjir leikir, á heimavelli eða á útivelli, en tapið sjálft er ekki það sem særði mann, heldur var það það sem okkar menn færðu okkur inn á vellinum. Havertz, Aubameyang, Sterling og já, minn uppáhalds knattspyrnumaður Mount, voru allir það lélegir gegn Arsenal, að maður fór nánast að efast um getu þeirra í þessari íþrótt. Aubameyang einhvern veginn afrekaði það sem maður gjörsamlega HRAUNAÐI yfir Lukaku fyrir að gera, og það var fyrir aðeins 8 snertingar á þeim tíma sem hann var inn á. Aðalframherji félags eins og Chelsea á aldrei að komast upp með svona frammistöðu nema fá alvöru drullu til baka. Nú þurfa menn heldur betur að rífa sig upp, taka sig til í andlitinu og drullast til þess að klára þennan leik. Það sem ég kalla eftir í þessum leik eru róteringar. Ég vil sjá aðra menn í byrjunarliðinu en voru gegn Arsenal. Ég vil bekkjarsetu á þá sem mættu ekki til leiks í síðustu umferð og gjörsamlega steinlágu á sinni grundu gegn sínum erkifjendum. Svona spái ég, eða svona vil ég, að byrjunarliðið okkar verði:

Sumir gætu sagt að þetta sé ekki okkar “sterkasta” byrjunarlið, en þar sem meiðslalistinn okkar inniheldur Chilwell, Chukwuemeka, Kepa, Kante, James og Fofana, þá eru nú valkostirnir ekki jafn margir, og sérstaklega í vörninni. Ég vil mest sjá róteringar á sóknarleiknum


Manchester City:

Þá eru það andstæðingarnir. Þetta Manchester City lið er búið að rífa klúbbinn upp á þær hæðir að þeir eru að öllum líkindum sterkasta knattspyrnulið í heimi í dag. Einn besti þjálfari allra tíma, einn besti miðjumaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, einn besti miðvörður í heimi, einn besti markmaður í heimi og að sjálfsögðu besti framherji fótboltans, Erling Haaland. Þeir eru að koma úr naumum sigri gegn nýliðum Fulham, þar sem Haaland skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 95. mínútu. Þar sem þeir sitja í öðru sæti deildarinnar og eru komnir í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar, þar sem þeir mæta RB Leipzig og okkar manni Timo Werner, að þá er vel hægt að áætla að Guardiola muni hvíla stór nöfn í þessum leik. Vonandi heldur hann samt einhverju alvöru liði á vellinum þannig þetta verði ekkert “minni” sigur. Þeirra seinasti leikur fyrir HM verður gegn Brentford á heimavelli, þannig miklar líkur eru á því að einhverjir séu nú þegar komnir með hugann við landsliðin. Í deildinni eru þeir með 3 mörk að meðaltali í leik skoruð og aðeins 0.9 fengin á sig, á meðan við sitjum í 1.3 mark skorað per leik en 1.2 mörk fengin á okkur. Við erum að fá á okkur nánast jafn mörg mörk og við skorum, annað en hin stórliðin í deildinni. Þeir eru með betra sendingarhlutfall sem og að þeir halda boltanum meira en við.


Lið City í þessari viðureign gegn okkur verður alvöru, í bland við unglinga. Ég ætla gera ráð fyrir að byrjunarlið þeirra gæti litið einhvern veginn svona út:


GK - Carson

RB - Cancelo

CB - Akanji

CB - Laporte

LB - Ake

CM - Sergio Gomez

CM - De Bruyne

CM - Gundogan

LW - Grealish

ST - Alvarez

RW - Mahrez


Menn á borð við Haaland, Ruben Dias, Ederson, John Stones, Foden, Rodri og Bernardo Silva finnst mér allir líklegir til þess að fá hvíld í þessum leik, ásamt því að Kyle Walker og Kalvin Phillips eru báðir á meiðslalista þeirra.


Spá:

Eins og alltaf, þá fer ég inn í Chelsea leiki með það í huga að við förum með sigur af hólmi. Sem stuðningsmaður CFC finnst mér ekkert annað koma til greina. Sama hvaða uppbygging er í gangi, sama hvað gengið hefur verið undanfarið og sama hvaða hlutir eru að gerast á bakvið tjöldin, að þá eiga Chelsea ALLTAF að krefjast sigurs. Ég spái því að þetta verði leikurinn þar sem Graham nokkur Potter mun sýna okkur nákvæmlega af hverju hann var ráðinn, og það er með sigri á Etihad. 1-2 sigur mun verða lokaniðurstaðan, þar sem Broja og Pulisic skora sitthvort markið, áður en Alvarez klórar í bakkann fyrir City. KTBFFH!

Comments


bottom of page