top of page
Search

Crystal Palace vs. Chelsea - Baráttan heldur áfram

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 7. júlí, kl. 17:00

Leikvangur: Selhurst Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports, Ölver í Glæsibæ.

Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.


Chelsea

Fjórir sigrar og eitt tap eftir að deild og bikar fóru aftur af stað. Ég held að það hljóti nú að teljast ágætis árangur – svo lengi sem ekki er rýnt of mikið í tapleikinn gegn West Ham. Annars verð ég að viðurkenna að liðið kom betur úr Covid-hléinu en ég hafði þorað að vona. Ég bjóst eiginlega frekar við andstæðunni. Virkilega ánægjulegt að ég hafði rangt fyrir mér. Seinasti leikur okkar gegn Watford var óhemju skemmtilegur, fyrir okkur Chelsea mennina. Við sýndum yfirburði allan tímann og skoruðum einnig mörkin sem fylgja oftast þannig leikjum. Ég ætla því frekar að ræða nokkra leikmenn frekar en frammistöðu liðsins í leiknum, sem var mjög góð.


Vörnin: Varnarlínan átti góðan leik. Zouma fékk að byrja í vörnina og sýndi það að hann á skilið að njóta meira trausts. Ég var reyndar að sjá slúður um að PSG vilji kaupa hann. Erfitt að ætla að halda honum til að sitja á bekknum hálft tímabilið. Ég var ekki alveg nógu ánægð með frammistöðu James – kannski eru það þessar miklu væntingarnar sem ég hef til hans? En eitt af fjölmörgum frábærum andartökum í leiknum er t.d. þetta hér með James:

Kepa, greyið, hefur verið betri/skárri í síðustu leikjum. Ég ætla að vera alveg hreinskilin með það ég er með „soft spot“ fyrir markvörðum og skrifast það líklega á að ég spilaði þá stöðu þegar ég var í boltanum (fyrir löngu) og kenndi mér um öll mörk sem ég fékk á mig.


Miðjan: Mér fannst miðjan vera góð í leiknum en einn þeirra bar af: Barkley. Hann hefur verið að koma mér á óvart með frammistöðu sinni, mér hefur fundist hann sýna meiri stöðugleika undanfarið og meiri „liðsanda“ – ef maður tekur mið af því hvernig hann var þegar hann tók víti fyrir liðið fyrri hluta tímabilsins. Hann er að sjálfsögðu engan veginn fullkominn og mér finnst hann eiga það til að skjóta á markið þegar hann ætti frekar að gefa en á ekki alltaf að enda sóknir með skoti, frekar en að missa boltann frá sér.


Sóknin: Pulisic! VÁ! Þvílíkur leikmaður, þvílíkir hæfileikar. Þegar hann fer af stað galar hjartað „USA – USA – USA“ af þvílíkum móði að Trump-stuðningsmaður fengi tár í augun. Gamlingjarnir í sókninni hjá okkur, Giroud (33) og Willian (31), halda áfram að spila eins og þeir séu 25 ára. Það er ekki að sjá að þeir séu að detta á ellilífeyrisaldurinn í fótboltaárum.


Varamenn: Loftus-Cheek, minn maður, mættur aftur. Ég vona heitt og innilega að hann sé búinn að ná sér 100% af meiðslum og nái að leika næstu árin án alvarlegra meiðsla. Hann átti góða innkomu í leikinn, sýndi mikið öryggi og í raun fannst mér ekki að sjá að hann hafi verið meiddur í rúmt ár síðan hann spilaði sinn fyrsta leik í lok júní (gegn Aston Villa).

Aðrir varamenn voru einnig flottir í leiknum, vil þó kannski sérstaklega nefna Billy Gilmour sem, þrátt fyrir að virka frekar lítill og væskilslegur, gefur aldrei neitt eftir. Hann er virkilega hæfileikaríkur og þegar hann nær líkamlegum þroska gæti hann orðið betri en Lampard var á sínum tíma.

Byrjunarliðsspá mín fyrir Palace leikinn er svona:Crystal Palace

Gamla lánslið RLC og núverandi lið okkar gamla varnarmanns, Gary Cahill. Roy Hodgson stýrir Crystal Palace í dag en við Íslendingar munum að sjálfsögðu eftir honum, er það ekki? Hann missti vinnuna sína eftir hinn sögulega sigur Íslands á Englandi á EM 2016.

Crystal Palace situr í 14. sæti deildarinnar með 42 stig og er liðið nánast öruggt með sæti sitt í deildinni, það eru 15 stig í pottinum og munar 15 stigum á CP og efsta fallsæti deildarinnar.

Gengi Crystal Palace hefur ekki verið neitt alltof gott frá því að deildin byrjaði aftur: Þeir unnu fyrsta leikinn eftir hlé gegn Bournemouth 2-0 en hafa svo tapað þremur leikjum í röð gegn Liverpool, Burnley og Leicester. Þeir hafa því fengið á sig 8 mörk í síðustu þremur leikjum án þess að skora mark. Ég vona að sjálfsögðu að þetta slaka gengi þeirra haldi áfram í leiknum gegn okkur.

Hvað ber að varast gegn Crystal Palace? Sóknarmaðurinn Wilfried Zaha er aðalmaðurinn í liðinu og hafa sögusagnir um að hann skipti yfir í annað lið verið ansi háværar sl. ár enda frammistaða hans verið góð. Hodgson er allavega viss um að félagið fái tilboð í leikmanninn og vonar að liðið geti haldið honum áfram. Þá hefur Hodgson áhyggjur af mögulegum áhuga á varnarmanninum Sakho.

Spá

Ég veit ekki alveg við hverju á að búast frá Palace, nema bara að þeir mæti til leiks ákveðnir í að sigra. Ég ætla þó rétt að vona að við vinnum þennan leik, sérstaklega miðað við gengi andstæðingsins sl. mánuð. Þar sem pistlahöfundur er kominn í sumarfrí, kæruleysið orðið allsráðandi og sumarveður fyrir utan gluggann þá skýt ég á 5-1 sigur, Gary Cahill með mark CP og mörkin okkar fimm skiptast á milli Odoi, Tammy, Pulisic (2) og Giroud.


KTBFFH

Comments


bottom of page