top of page
Search

Chelsea vs Man Utd - Stórleikur á Stamford Bridge

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 17. febrúar 2020 kl. 20:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Símanum Sport og Sky Sports

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Þá er þessu blessaða vetrarfríi lokið og okkar menn vonandi búnir að hlaða vel batteríin fyrir lokaátökin. Chelsea eru ennþá inni í þremur keppnum og er hart barist á öllum vígstöðum. Næsti leikur er af stærri gerðinni, heimaleikur gegn Man Utd. Með sigri í þessum leik geta okkar menn nánast bundið enda á vonir Rauðu Djöflanna um að enda í einu af fjórum efstu sætunum, því með sigri nær Chelsea níu stiga forskoti á Man Utd.


Chelsea

Lampard sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að bæði Christan Pulisic og Ruben Loftus-Cheek væru ennþá frá vegna meiðsla. Fyrir utan þá tvo væri hópurinn annars klár og meiðslalaus - Tammy Abraham finnur eitthvað örlítið fyrir meiðslunum í mjöðminni en ætti að vera leikfær. Það er þá spurning hvernig Lampard stillir upp liðinu. Það kom mörgum í opna skjöldu þegar Willy Caballero stóð á milli stanganna í síðasta leik, ég ætla að spá því að Kepa verði mættur aftur í búrið á mánudagskvöld. Fyrir framan hann verða svo Christensen og Rudiger en þeir hafa verið að ná ágætlega saman upp á síðkastið. Reece James verður vonandi hægri bakvörður, því hann er búinn að vera besti maður liðsins í undanförnum leikjum. Ég held svo að Lampard hafi Azpilicueta alltaf í liðinu í svona miklvægum leik, hann verður því vinstra megin í vörninni.Það er erfiðast að átta sig á því hvað Lampard vill gera á miðjunni. Kanté mun alltaf byrja leikinn, ef ég fengi að ráða myndi ég láta Kovacic og Mount byrja með honum. Man Utd vilja liggja aftarlega og beita skyndisóknum, eitthvað sem þeir eru býsna góðir í að framkvæma og slíkum þannig liðum er Jorginho oftast hvað berskjaldaður. Jorginho virkar best þegar Chelsea vill reyna halda í boltann og reyna spila hátt uppi á vallarhelmingi andstæðingsins - ég held að slíkt verði ekki vandamálið í leiknum annað kvöld. Ég myndi því hafa Kovacic og Mount með Kanté á miðjunni. Það er samt eitthvað sem segir mér að Jorginho byrji á kostnað Kovacic. Framlínan verður svo líklega skipuð þeim Willian, Hudson-Odoi og Tammy Abraham.


Chelsea fékk á baukinn þegar þessi lið mættust í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar sl. sumar. Okkar menn voru í raun betri aðilinn fyrstu 60. mín leiksins en tókst samt að tapa 4-0 þökk sé öflugum skyndisóknum Man United manna. Okkar menn hafa því harma að hefna.


Manchester United

Ég fékk sprelligosann og Sportrásarmanninn Orra Frey Rúnarsson til að leggja sitt mat á Man Utd fyrir þennan leik. Orri hefur áður skrifað um Man Utd inni á CFC.is enda er hann stækur United maður - gefum honum orðið.


Þá er loksins komið að því, einn af fáum leikjum sem við Man Utd stuðningsmenn hlökkum ennþá til að sjá. Í síðustu fimm leikjum liðanna hefur Man Utd unnið þrjá leiki og tveir endað með jafntefli.


Leikurinn á mánudagskvöld er augljósalega gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, alveg eins og hjá Chelsea hefur Man Utd aðeins unnið einn af síðustu fimm úrvalsdeildarleikjum. Umræðan virðist benda til þess að stór fjöldi yfirgefur Solskjær lestina eftir hvern leik undanfarið og mögulega er hann í fyrsta sinn með alvöru pressu á að ná úrslitum. Stuðningsmenn vonast þó auðvitað eftir góðum endaspretti þrátt fyrir að vera án Rashford, sú veit enginn hvernig/hvort/hvenær Pogba kemur til baka, þrátt fyrir ýmsa galla er hann jafnbesti leikmaður liðsins síðustu tímabil, sá sem skapar flestu færin og sá leikmaður sem aðrir leita til í hvert sinn sem liðið er undir pressu í leikjum. Vonandi getur Bruno Fernandes þó komið með smá sköpunarkraft inn á miðjuna.


Ólíkt Chelsea er Man Utd með alvöru markmenn (já í fleirtölu), en De Gea verður að sjálfsögðu í byrjunarliðinu. Hinir ungu Wan-Bissaka, Lindelöf, Maguire og Shaw verða í vörninni. Miðjan er meira spurningarmerki. Fred er með öruggt sæti sem og Bruno Ferndandes. Þriðji miðjumaðurinn er meira spurningarmerki. Sjálfur vonast ég þó til að McTominey sé orðinn leikfær og komi þá inn fyrir Pereira. Martial verður svo fremstur og ég reikna með James og Mata á köntunum, þó væri gaman að sjá Greenwood byrja. Svo gæti hann líka stillt upp í 5-3-2 eins og OGS hefur gert með góðum árangri undanfarið.Varðandi undirbúning Solskjær hefur hann enga ástæðu til að hræðast Chelsea, þetta eru leikirnir sem Man Utd hafa verið að fá stigin sín í vetur. Liðið er með 10 stig af 15 mögulegum gegn liðunum í topp 4. Liðið mun þvi liggja til baka og treysta á skyndisóknir, ef það er ekki að virka verður nígeríska undrið Odion Ighalo vonandi tilbúinn á bekknum.


Að mínu mati er þetta eitt lokatækifæri Man Utd til að veita Chelsea alvöru keppni um fjórða sætið. Það yrði ansi hart að þurfa að vinna upp níu stig í síðustu 12 leikjunum. Jafntefli yrði frekar vont fyrir United en þó margfalt betra en tap.


Varðandi framtíð Solskjær er ég í fyrsta sinn farinn að efast um hvort að hann hafi fullt traust stjórnarinnar. Liðið situr auðvitða í níunda sæti deildarinnar en þó er mjótt á munum í efri hlutanum. Sigur gegn Chelsea á mánudaginn galopnar baráttuna um CL-sæti. Sérstaklega í ljósi þeirra tíðinda að Man City hefur réttilega verið útilokað frá þeirri keppni næstu tvö keppnistímabilin.


Spá

Eitthvað segir mér að þessi leikur verði naglbítur. Tottenham og Sheffield United eru þegar farin að anda all hressilega ofan í hálsmálið á okkar mönnum og tapist leikurinn annað kvöld eru Man Utd komnir aftur inn í baráttuna. Það er því alvöru pressa á okkar mönnum að ná í úrslit þó að pressan sé eflaust öllu meiri á Solskjær. Í leikjum þar sem mikið er undir eru lið oft varkár og ég tel að svo verði raunin, spái okkur samt 2-1 sigri þar sem Mason Mount skorar sigurmarkið þegar skammur tími er til leiksloka.


KTBFFH

Komentarze


bottom of page