top of page
Search

Chelsea vs Man Utd og nýr þáttur af Blákastinu

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 28. Setpember kl 16:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport. Ölver, Sky Sports

Upphitun eftir: Snorra Clinton



Chelsea

Byrja á því að minna á nýjan þátt af Blákastinu sem er núna kominn inn á hlaðvarpsveiturnar - einnig er hægt að hlusta á hann neðst í færslunni.


Þvílík unun sem það er að vera Chelsea maður þessa dagana!! Liðið er á gríðarlegu flugi og er að skila af sér hverri flugeldasýningunni á fætur annarri. Þegar maður hugsar um liðið og frammistöðuna fæ ég nánast sama fiðring í magann og fjörfisk í typpið og þegar ég var að kynnast konunni minni fyrir öllum þessum árum. Þrátt fyrir öll meiðslin í hópnum okkar er Fantasy böðullinn hann Tuchel búinn að skapa þannig takt og flæði í liðinu að engu máli virðist skipta ef lykilmenn detta út. Það er eins og allir leikmenn eigi sitt hlutverk sama hvert leikkerfið er og þeir kunna og skilja sitt hlutverk upp á 10.

Þegar litið er yfir hópinn okkar og hvernig liðið er að spila, þá er markaógn í öllum stöðum. Því til stuðnings er gaman að nefna að fyrir utan Mendy voru allir leikmenn byrjunarliðsins á móti Leicester búnir að skora mark fyrir klúbbinn og það í nóvember.....STURLUÐ staðreynd.


Við hjá CFC.is ræddum það í Blákastinu í fyrra þegar Bragðarefurinn tók við að það gæti tekið tíma fyrir okkur að sjá raunverulegt handbragð hans á liðinu. Vil ég meina að nú er liðið farið að spila með Tuchel DNA. Í síðasta tímabili náði liðið aðeins einu sinni að skora meira en 2 mörk i leik í öllum keppnum. Það sem af er þessu tímabili er það undantekning ef við skorum minna en 3.


Vissulega náði hann frábærum árangri á síðasta tímabili þrátt fyrir það en líklegt var aðal fókusinn hans hafi farið í að líma saman það sem var brotið í liðinu. Ef við höldum áfram að tala um sturlaðar staðreyndir þá er hér tölfræði TT í sínum fyrstu 50 leikjum sem stjóri Chelsea. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þar sem góð mynd segir meira en 1000 orð.


Fyrir viðureignina gegn Manst-eftir Utd á sunnudaginn kemur staðfesti Tuchel á blaðamannafundi að Kovacic, Kanté og Chilwell væri allir fjarri góðu gamni. Aftur á móti eru meiðsli Kanté minniháttar og gæti verið klár í leikinn þó það sé afar ólíklegt. En það sem hefur brunnið á vörum allra Chelsea manna síðustu daga eru meiðsli Chilly B. Tuchel tjáði blaðamönnum að um væri að ræða meiðsli á þessu ACL fyrirbæri (þið megið googla það sjálf, ég er ekki læknir) og næstu 6 vikur munu láta í ljós hvort hann gæti byrjað að æfa aftur þá eða fara í aðgerð. Við skulum öll krossleggja fingur og senda Chilly fingurkoss og dollu af hárgeli svo hann geti náð bata sem fyrst og litið vel út á meðan.


Byrjunarliðið

Hér held ég að eini kosturinn við meiðslalistann okkar komi í ljós. Þegar kemur að því að skjóta á byrjunarliðið. Mér líður eins og ég hafi fengið þrjár líflínur – Hringja í vin – spyrja salinn og fjarlægja 50% rangra svara. Þannig er ég er helvíti brattur fyrir þessa ágiskun.


Heimakletturinn er alltaf í búrinu. Þriggja manna línan fyrir framan þá eru þeir kumpánar Rudiger, Faðir Vor og Danski prinsinn. Reese James verður alltaf á sínum stað hægri megin og Loréal módelið hann Alonso dettur inn í liðið vinstra megin. Á miðjunni verður Ítalska spagettí ninjan hann Jorginho með vini sínum Ruben Loftus Cheek. Nú aftur á móti vandast málin, fremstu þrír. Ég trúi því að þar sjáum við Callum Hudson Odoi – Timo Werner og Hakim Ziyech. Fun fact, ef Chelsea vinnur þennan leik þá hafa jöfnum við Utd í sigrum í deildinni í þessari rimmu, þ.e.a.s. bæði lið með 12 sigra móti hvor öðru. Þó sel ég þetta ekki dýrari en ég googlaði það.


Manchester Utd

Mótherjar okkar að þessu sinni eru heldur betur að upplifa myrkur og mannaskít þessa dagana. Hvert tapið á fætur öðru, mórallinn í mínus og þjálfarinn rekinn. Liðið er í leit af bráðabirgðastjóra til að stýra þessari skútu út tímabilið. Allt lítur út fyrir að Ralf Rangnick sé að taka við klúbbnum út tímabilið og muni svo taka við starfi sem tæknilegur ráðgjafi í tvö ár eftir það.


Rangnick er athyglisverður fugl og gæti verið akkúrat það sem Man Utd þarf á að halda núna. Hann er kallaður Guðfaðir Gegenpressen og hefur hann átt virkan hlut í framþróun bæði Tuchel og Klopp. Spurningin er hversu vel nær hann að stimpla sína hugmyndafræði inn í leikmenn það sem eftir er tímabils? Ef ég er spurður finnst mér þessi ráðning ekki meika neitt sense ef Pottechino er skotmark Utd í sumar þar sem leikstíll Ralf og Poch eru frekar ólíkir að mínu viti. Finnst mér þetta frekar vera vísbending í það að Ten Hag sé þeirra maður.


Þetta er líka fyrsti og eini úrvalsdeildarleikurinn sem Carrick fær að stýra liðinu og eitthvað segir mér að hann vilji bara sækja stig. Það er líklega afar ólíklegt að hann reyni að blása í einhverja sýningu þegar hann er að fara heimsækja hættulegasta liðið í Evrópu. Chelsea er einfaldlega ALLTOF stór biti fyrir mann sem er ekki kominn lengra í sínum þjálfaraferli.


Ég spái að Carrick stilli liðinu upp á eftirfarandi máta:

DeGea í markinu, Knoll og Tott í miðverðinum, Halli og Laddi í bakvarðarstöðunum. Á miðjunni verða McTominay, Bruna Fernandes og Van De Beek. Fremstu þrír eru svo auto þ.e.a.s. Rashford, Ronaldo og Sancho.



Spá

Nú hef ég aldrei þóst vera mikill spekingur sem getur neglt niður hvernig leikir spilast eða hvaða leikkerfi verða notuð. Það má segja að ég geri það sama fyrir sparkspekings-stéttina og klámmyndaleikarar gera fyrir leiklistastéttina. Ekki mikið af hæfileikum en virkilega gaman (fyrir suma) að hlusta og horfa á. Ég hafði áhyggjur fyrir leikina á móti Leicester og Juventus, ég blessunarlega fékk það beint í andlitið. Þetta gerir það að verkum að ég er sultu slakur fyrir þennan leik, sérstaklega þegar miðverðir Utd spila vörn eins og þessir tveir smíða hús.


Ég skammast mín þá ekkert fyrir að spá þessum leik 3-1 fyrir okkar mönnum. Ziyech rífur múrinn og leggur upp annað á Timo. Faðir vor setur svo þriðja og geirneglir þar með framlengingu á samningnum sínum um eitt tímabil í viðbót.


Það er löngu kominn tími á að við flengjum þetta lið í deildinni því síðasti sigur þar kom 2017 þegar Alvaro Morata skallaði hann í mark eftir frábæra fyrirgjöf frá Azpi. Þannig opnið ykkur einn kaldann, náið í hjálm og haldið fast í sokkanna því þetta verður veisla.


KTBFFH

- Snorri Clinton


bottom of page