top of page
Search

Chelsea vs Liverpool - fyrsti leikur tímabils

Keppni: Premier League

Tími og dagsetning: Sunnudagur 13 ágúst kl: 15.30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir: Þráinn BrjánssonLoksins loksins!! Gott sumarfrí er á enda og nú fer boltinn að rúlla. Óhætt er að segja að vonir og væntingar hafa sjaldan verið meiri, en einmitt nú eftir síðasta martraðartímabil sem allir vilja gleyma. Nú blasir við okkur flunkuný sviðsmynd enda margir leikmenn horfnir á braut, en nýjir og áhugaverðir komnir í staðinn. Býsna gott undirbúningstímabil er að baki sem sannarlega vekur góðar vonir. Sú hreinsun sem hefur átt sér stað hjá klúbbnum var tímabær þó eftirsjá sé í nokkrum af þeim leikmönnum sem farnir. Kante, Havertz, Kovacic, Azpi, Mount, Aubmeyang og Koulibaly eru á meðal þeirra sem hafa leitað annað en maður kemur í manns stað. Nicholas Jackson, Nkunku, Malo Gusto og fleiri hafa komið í staðinn og væri það til að æra óstöðugan að telja upp allar þær róteringar undanfarin misseri.


Nýráðinn þjálfari, hinn argentíski Pochettino, virðist vera með nokkuð ákveðnar hugmyndir um framtíðina, og náði að finna góðan takt í liðið, sem undirbjó sig undir komandi átök í undirbúningstímabili í Bandaríkjunum. Liðið tapaði ekki leik og sýndi flotta hluti, þó endirinn hafi ekki alveg ásættanlegur, þar sem Nkunku okkar bjartasta von meiddist á hné, og verður frá fyrri hluta tímabilsins. Annar lykilmaður og meiðslapési, hann Wesley Fofana er frá út tímabilið vegna hnémeiðsla en félagið keypti annan franskan varnarmann frá Monaco, Axel Disasi sem kemur til með að leysa landa sinn af. Á móti kemur að ungir og efnilegir leikmenn stíga þá upp og við eigum klárlega eitthvað til af þeim. Ég verð þó að segja að pistlaskrif í miðju “silly season” er ekki ákjósanlegt, en eina klukkustundina virðist sem allt sé að gerast, en hina er alger þögn.
Aðalmálið er að þessar klukkustundirnar eru væntanleg viðskipti með ekvadorska miðjumanninn Moises Caicedo. Það eru okkar menn og Liverpool sem skiptast á að vera í bílstjórasætinu og hlutirnir breytast skjótt og raunar engin leið að átta sig á hvernig þessi mál standa. Það er þó víst að hann verður hvorki í hóp hjá Chelsea né Liverpool á sunnudaginn kemur. Nú þegar þetta er ritað berast þær fregnir að Chelsea sé að ganga frá kaupum á Belganum Romeo Lavia frá Southampton á um 50 milljónir punda. Það verður þá að teljast mikið spursmál hvort Caicedo komi þar sem ólíklegt er að klúbburinn ætli að eyða 160-170 milljónum punda á miðsvæðið, ásamt því að þurfa einnig að eyða talsverðum pening í framherja í stað Nkunku. Poch hefur sagt að hann vilji fá mann sem skili liðinu einhverju strax og þeir framherjar sem hafa þann eiginleika kosta sitt. Klúbburinn er efalaust kominn í vandræði vegna fjármálareglna. Einnig var áhugi fyrir Tyler Adams frá Leeds og voru þau kaup nánast frágengin, þar til allt fór í baklás. Hann kom meiddur í læknisskoðun og féll þar af leiðandi á því prófi og gengu kaupin til baka.

Þar að auki hyggst nú Kepa hugsa sér til hreyfings og hefur víst einna helst áhuga á að fara heim til Spánar og taka stöðu Courtois hjá Real Madrid. Courtois sleit krossband á æfingu og verður lengi frá, en ekkert virðist vera klappað og klárt í þeim efnum frekar en öðrum. Ég held að ég láti þetta gott heita af fyrirhuguðum leikmannaskiptum og hrókeringum þar sem ekki nokkur leið er að festa hönd á nokkrum hlut.


En þá að liðinu og holningunni sem þeir sýndu okkur á undirbúningstímabilinu. Það var vel sjáanlegt að Poch hefur náð að kveikja áhuga og metnað hjá liðinu og var liðið að spila mjög flottan bolta. Menn eru auðvitað að þreifa fyrir sér og sýna sig fyrir nýjum þjálfara. Ungir leikmenn sýndu hvað þeir gátu og þar komu sterkir inn þeir Ian Maatsen og Levi Colwill. Þeir klárlega framtíðarmenn auk þeirra Andrey Santos og Angelo Gabriel sem farinn er á lánssamning til Strasbourg út tímabilið. Nicholas Jackson og Christopher Nkunku voru magnaðir á undirbúningstímabilinu og vonbrigðin því ákaflega mikil þegar Nkunku meiddist í lokaleik undirbúningstímabilsins. Hann verður frá allengi og fer maður óhjákvæmilega að spyrja sig hvort þetta verði raunin með hann þar sem hann á sér ansi slæma meiðslasögu. En þar fyrir utan sýndi liðið miklar framfarir og er ekki nein ástæða til annars en að vera bjartsýnn á komandi tímabil. Ekki síst ef góðir leikmenn eiga eftir að koma, þar sem nóg er eftir af viðskiptaglugganum. Ég hef allavega ekki mikklar áhyggjur, það er alveg á hreinu að vonbrigðin og hörmungarnar á síðasta tímabili geta ekki orðið verri, og með þennan mannskap og vel peppaðan þjálfara getur allt gerst!Liverpool


Það þarf svosem ekkert að fara mörgum orðum um þetta lið en Klopp og hans menn eru ógnarsterkir og eru sennilega ekki hættir að versla fyrir næsta tímabil. Þeir fengu heimsmeistarann MacAllister og eru örugglega ekki hættir þar sem þeir hafa verið að togast á við Chelsea um Caicedo og enginn veit hvernig það fer. Af einhverjum ástæðum þó höfum við oft náð mjög fínum úrslitum á móti Púllurunum og verðum við ekki bara að vona að við hittum á góðan dag.Liðsuppstilling og spá

Þetta verður spennandi og skemmtilegur leikur. Það gæti verið að liðin yrðu varkár fyrsta hálftímann, á meðan leikmenn eru að finna og taka inn stemmninguna. Þó væri nú gaman að sjá þá koma vel tjúnaða til leiks og keyra almennilega á þá rauðklæddu og sjá Poch sturlaðann á hliðarlínunni. Hvaða leikkerfi notar hann? Held að hann breyti ekkert mikið um stíl hvað það varðar og keyri þetta á 4-2-3-1.

Hvort sem Kepa er á leiðinni burt eða ekki þá held ég að hann verði á milli stanganna. Fyrir framan hann verður nýji kapteinninn okkar hann Reece, bróðir hennar Lauren James. Thiago Silva verður honum til fulltingis og ungstirnið Levi Colwill og Ben Chilwell verða á sínum stað. Miðjunni stýra þeir Enzo Fernandez, Conor Gallagher og Carney Chukwuemeka og framlínuna sjá þeir um í bróðerni þeir Raheem Sterling sem kemur inn fyrir Nkunku, Mykhailo Mudryk og hinn franski Nicolas Jackson sem fór á kostum í Ameríku. Maður er hóflega bjartsýnn en ég ætla þó að fara fram á mörk og ætla mér að spá okkar ástsælu sigri 2-1 og er í raun alveg sama hver skorar. Þetta er fyrsti leikur tímabilsins og ekki ástæða til að spá einhverri flugeldasýningu en vil þó sjá ákveðni, vilja og metnað til að gera sitt besta. Ég vona að þið fjölmennið á þá staði sem sýna leikinn og takið þátt í fjörinu af öllum lífs og sálarkröftum!


Góða skemmtun og “ Áfram Chelsea!!”


Comments


bottom of page