top of page
Search

Chelsea vs Leicester City - úrslitaleikur FA Bikarsins!

Keppni: Enski FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 15. maí kl 16:15

Leikvangur: Wembley

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport2

Upphitun eftir Jóhann M. Helgason


Á laugardag geta sveinar Thomas Tuchel tryggt Chelsea níunda FA Bikarinn í sögu félagsins! Chelsea er gríðarlega mikið bikarlið, leikurinn gegn Leicester City verður tíundi úrslitaleikur Chelsea í FA Bikarnum frá aldarmótum. Síðast vorum við í úrslitum í fyrra þar sem við töpuðum gegn Arsenal.


Núna er sagan önnur. Liðið er betra, betur þjálfað, skipulagðara og þéttara fyrir.


Leikurinn gegn Arsenal á miðvikudagskvöld var vonbrigði en það þýðir ekki að velta sér upp úr þeim leiðindum. Eins og Tuchel sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að þá á Chelsea eftir að spila fjóra leiki á þessu tímabili og hver einn og einasti þeirra er úrslitaleikur.


Þær ánægjulegu fréttir bárust af blaðamannafundimum að Mateo Kovcic er heill og klár í slaginn gegn Leicester City. Sömu sögu er að segja af þeim Christensen, Rudiger og síðast en ekki síst, N'Golo Kanté. Þannig Tuchel getur valið sitt sterkasta lið.


Það er alltaf sami kvíðahnúturinn að reyna geta sér til um byrjunarliðið hjá Bragðarefnum Tuchel. Breiddin er það mikil að maður getur prísað sig sælan að ná 5-6 réttum. En eitt liðsval er staðfest, Kepa mun byrja í markinu, Tuchel tilkynnti það á blaðamannafundinum. Í vörnina ætla ég að setja Thiago Silva, Azpilicueta og Rudiger. Zouma var slakur gegn Arsenal og Christensen er að stíga upp úr meiðslum þannig öftustu þrír velja sig mögulega sjálfir.


Mig grunar að Marcos Alonso byrji í vinstri vængbakverðinum og Reece James verði í þeim hægri. Þetta er bara einhver "gut-feeling" hjá mér varðandi Alonso, það gæti vel farið svo að Chilwell haldi sinni stöðu gegn sínum gömlu félögum.


Á miðri miðjunni geri ég ráð fyrir að Jorginho verði með Kanté. Kovacic er vissulega heill heilsu en hefur ekki spilað leik í einhverja 4-5 vikur svo mögulega þarf hann að byrja á bekknum.


Framlínan er að vanda hvað erfiðust að geta sér til um. Mason Mount hlýtur að byrja og eitthvað segir mér að Timo Werner fái aftur kallið eftir að hafa hvílt gegn Arsenal. Ég held að Tuchel gefi Hakim Ziyech traustið enda er hann "maður stóru leikjanna" og skoraði einmitt á Wembley gegn Man City. Pulisic, Havertz, Hudson-Odoi, Giroud og jafnvel Tammy koma allir til greina svo ekki skortir valkostina!Leicester City

Þetta er í fimmta sinn sem Leicester kemst í úrslitaleik "þeirrar elstu og virtustu". Og merkilegt nokk eru Leicester það lið sem hefur oftast komist í úrslitaleikinn án þess að vinna keppnina - ansi vafasamur heiður. Síðast komust þeir í úrslitaleikinn árið 1969 og töpuðu þá gegn Man City með einu marki gegn engu, þannig biðin eftir öðrum úrslitaleik hefur verið ansi löng.


Mér finnst Brendan Rodgers búinn að vinna frábært starf hjá Leicester undanfarin tvö og hálft tímabil. Það er mikið jafnvægi í leik þeirra, þeir geta spilað flottann hápressu-bolta en geta líka fallið aftar á völlinn og beitt frábærum skyndisóknum með leikmönum eins og Jamie Vardy, James Maddison og Harvey Barnes.


Þeirra besti leikmaður undanfarna mánuði hefur klárlega verið Kelechi Iheanacho. Þessi nígeríski sóknarmaður hefur stigið verulega upp og skorað 18 mörk í 36 leikjum á tímabilinu. Á sama tíma hefur slokknað á Vardy sem er núna meira í því að leggja upp en að skora sjálfur.


Eftir að Leicester fóru að gefa eftir í deildinni brá Rodgers á það ráð breyta leikkerfinu hjá þeim, þeir spila núna leikkerfið 3-5-2 þar sem Vardy og Iheanacho eru saman frammi.


Skv. fjölmiðlum er þetta hér líklegt byrjunarlið hjá Refunum, það er spurning hvort miðvörðurinn Johnny Evans verði klár í slaginn en við skulum amk reikna með því þangað til annað kemur í ljós.Spá

Tuchel talaði um að hann hefði fundið ákveðna værukærð á liðinu í aðdraganda Arsenal leiksins, það sást bersýnilega á spilamennsku liðsins. Þessi leikur kemur því á hárréttum tíma til þess að stilla miðið aftur og ná upp þeirri flottu spilamennsku sem við sáum gegn Real Madrid og Man City.


Spái 1-0 sigri í spennandi leik þar sem Ziyech setur markið og tryggir okkur níunda FA Bikarinn með stæl!


K O M A S V O !


KTBFFH

- Jóhann Már

Comments


bottom of page