top of page
Search

Chelsea vs Grimsby: Hvernig hafa ungu leikmennirnir staðið sig?

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 25. september kl 18:45

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason

Núna er Frank Lampard búinn að stýra Chelsea skútunni í átta alvöru leikjum. Fjórir af þessum átta leikjum hafa tapast, liðið hefur gert tvö jafntefli og svo unnið tvo leiki. Undir flestum kringumstæðum myndi þetta kallast hörmuleg byrjun á mótinu og í fyrri tíð væri mögulega búið að reka stjóra Chelsea fyrir að vinna aðeins tvo af fyrstu átta leikjum liðsins. En þrátt fyrir þessa takmörkuðu byrjun á mótinu eru flest allir stuðningsmenn Chelsea glaðir og bjartsýnir fyrir framhaldinu. Ég er einn þeirra sem er glaður og bjartsýnn. Ástæðan er einföld, Lampard er að byggja upp nýjan hóp þar sem stór kjarni leikmannana eru ungir leikmenn sem hafa verið hjá Chelsea síðan þeir voru 8-9 ára gamlir – Lampard ætlar að verða fyrsti stjóri Chelsea til að reyna nýta hina gríðarlega öflugu akademíu sem Chelsea Football Club hefur byggt upp undanfarin 12-13 ár. Ekki misskilja mig, ég mun örugglega ekki verða glaður ef Chelsea heldur áfram að vera í 10. sæti deildarinnar og liðið hrynur úr Meistaradeildinni í riðlakeppninni o.s.frv. Það þarf hins vegar að skoða þessa fyrstu átta leiki í samhengi hlutanna. Chelsea eru búnir að vera óheppnir og á stundum óttalegir klaufar. Tapið gegn Man Utd er líklega furðulegasta 4-0 tap sem ég hef séð og tapið gegn Liverpool um liðna helgi var einnig ósanngjarnt m.v. spilamennsku – okkar menn áttu eitthvað skilið úr þeim leik. Hins vegar hefur liðið verið mjög klaufalegt í leikjunum gegn Sheffield Utd og Leicester – lið með meiri reynslu (og mögulega reynslumeiri þjálfara) hefði alltaf siglt þeim sigrum í hús en ekki misst leikina niður í jafntefli.


Annað sem Lampard hefur verið að glíma við eru meiðsli lykilleikmanna! Kanté og Rudiger eru líklega tveir af fjórum mikilvægustu leikmönnum liðsins og í raun binda þessir tveir saman varnarleik liðsins. Þeir hafa verið gríðarlega mikið frá auk þess sem Hudson-Odoi, Recce James og Ruben Loftus-Cheek hafa ekkert spilað. Þetta eru fimm leikmenn sem alla jafna væru pott þétt búnir að leika stórt hlutverk fyrir liðið. Góðu fréttirnir eru þær að allir þessir leikmenn eru að verða klárir í slaginn sem þýðir bara að hópurinn er að þéttast og styrkjast.


En það sem veitir mesta bjartsýni fyrir framhaldinu eru frammistöður ungu leikmannana, þeirra Tammy Abraham, Mason Mount og Fikayo Tomori. Ég hef fylgst þokkalega með þessum ungu strákum í gegnum tíðina og taldi mig hafa ágæta innsýn í það hversu góðir þeir væru í fótbolta. Þess vegna finnst mér æðsilegt að segja það hversu mikið þeir hafa komið mér á óvart og hversu tilbúnir þeir eru. Tammy er auðvitað búinn að stela fyrirsögnunum með markaflóði sínu, hann er sýna það og sanna að hann er eitt mesta efni Evrópufótboltans. Það sem hefur komið mér óvart með hann er hversu góður hann er á boltann með mann í bakinu, hið svokallaða „Hold-up play“. Í leiknum gegn Liverpool var hann reglulega með Virgil van Dijk í bakinu en náði samt að halda boltanum, snúa eða koma honum í leik – Alvaro Morata var alveg hörmulegur í þessu og í nútímafótbolta skiptir þetta gríðarlegu máli.

Sá sem hefur komið mér mest á óvart er svo Tomori! Það er greinilegt að Lampard vissi nákvæmlega hvað hanna var að gera þegar hann lét Luiz fara til Arsenal, þessi drengur virðist hafa allt, hann er mjög líkmalega sterkur, er gríðarlega snöggur, les leikinn vel og er góður á boltann. Leikstíllinn hans minnir mig á Ricci Carvalho, þá sérstaklega út af hraðanum og hvernig hann eltir menn uppi og tæklar þá – hann tók sjálfan Mo Salah og pakkaði honum saman í leiknum gegn Liverpool, geri aðrir betur!


Ef ég ætti hins vegar að velja besta leikmann Chelsea það sem af er, þá er yrði það Mason Mount. Mikilvægi Mount fyrir Chelsea sást bersýnilega í leiknum gegn Valencia. Þegar kauði þurfti að yfirgefa völlinn var eins og allur neistinn hafi hreinlega horfið úr sóknarleik Chelsea. Ég skora á alla að fylgjast náið með Mount á vellinum, allar hans aðgerðir eru sóknfjarfar. Hann gefur boltann nánast alltaf fram á við eða ber sjálfur upp boltann, hann fer sjaldan öruggu leiðina eða gefur til baka. Hann þorir að taka sénsa og er með leikskilning sem er á pari við þá bestu í heimi. Það sem er ennþá merkilegra við þetta allt saman er sú staðreynd að hann er ekki að spila „sína“ stöðu, Mount er og verður miðjumaður, en hefur verið spila mikið úti vinstra megin. Ég held að þetta muni breytast þegar Kanté er kominn á fullt ásamt Hudson-Odoi og Pulisic.


Allir þessir ungu leikmenn munu halda áfram að vaxa undir stjórn Lampard. Í því liggur bjartsýni mín fyrir þessu tímabili. Það er mitt mat að Chelsea eigi að setja sér það markmið að ná þriðja sætinu í deildinni. Man City og Liverpool eru of sterk fyrir okkur, það er bara staðreynd, en Chelsea er ekki lakara lið en Spurs, Arsenal og Man Utd – öll þessi lið eru að hiksta, rétt eins og okkar menn.


Næstu sex leikirnir í deildinni eru gegn liðum sem við eigum að vinna, ef við höldum rétt á spilunum þá gætum við farið á smá „run“ núna og tengt saman sigurleiki – það myndi gefa þessu liði (og Lampard sjálfum) heilan helling.


Leikurinn gegn Grimsby

Eitt er víst að Lampard mun rótera liðinu eins mikið og hann mögulega getur. Vonir standa til að bæði Reece James og Hudson-Odoi geti tekið þátt sem er gerir þennan leik ennþá áhugaverðari. Ég held að Willy Caballero standi á milli stanganna og Tomori og Zouma verði í miðvörðunum þar sem þeir eru einu meiðslalausu miðverðirnir okkar. Reece James verður vonandi hægra megin í vörninni, svo er spurning hvort Lampard gefi hinum unga Ian Maatsen sinn fyrsta leik í vinstri bakverðinum eða hvort Alonso taki þennan leik.

Helstu vandræði Lampard eru svo á miðjunni, bæði Kovacic og Jorginho hafa spilað mikið auk þess sem Mount verður pott þétt hvíldur til að jafna sig á meiðslunum. Kanté eru svo aldrei að fara spila þennan leik. Það er alveg spurning hvort Billy Gilmour fái tækifærið en ég held að hann verði amk á bekknum. Ég tel að Barkley og Jorginho verði á miðjunni og svo Hudson-Odoi og Pulisic á vængjunum og Pedro í holunni. Framlínan væri svo í höndum Batshuahyi þar sem Giroud er ekki orðinn 100%.


Grimsby Town

Anstæðingar okkar að þessu sinni spila í hinni krefjandi League Two deild. Grimsby menn hafa farið ágætlega af stað, sitja í 9. sæti deildarinnar með fjóra sigra og þrjú jafntefli úr fyrstu tíu leikjunum. Þeir virðast skora töluvert af mörkum, eru með 16 mörk í þessum tíu leikjum sem er það þriðja mesta af öllum liðum í deildinni. Þjálfari liðsins er hinn 42 ára gamli Michael Jolley en hans eina aðalþjálfarastarf var í Svíþjóð hjá AFC Eskiltuna árið 2017. Chelsea og Grimsby hafa mæst 43 sinnum áður, síðast árið 1996 er Chelsea vann 4-1 sigur í FA bikarnum. Chelsea hefur unnið 21 af þessum 43 leikjum, Grimsby unnið 14 og 8 leikjum hefur lyktað með jafntefli.


Skv. hinni áreiðanlegu heimasíðu Transfermarkt er hinn 22 ára gamli miðjumaður Ethan Robson þeirra verðmætasti leikmaður ásamt Svíanum Sebastian Ring. Þeirra besti maður á tímabilinu hefur hins vegar verið enski framherjinn James Hanson, hann er kominn með fimm mörk í sjö leikjum ásamt því að leggja upp önnur þrjú. Hanson er 31 árs er heilir 193 cm á hæð, greinilegt að við þurfum að hafa góðar gætur á honum.


Spá

Chelsea á auvðitað rúlla þessu Grimsby liði upp og það auðveldlega. Það má samt aldrei vanmeta Davíð litla í viðureigninni við Golíat – leikmenn Grimsby munu mæta dýrvitlausir til leiks og munu líklega flestir ekki spila stærri leik en þetta á ferlinum. Okkar menn þurfa því að bera virðingu fyrir þessum leik og mæta með hausinn rétt á skrúfaðan. Ef við náum inn marki snemma, þá gæti þetta orðið markaveisla en að sama skapi mun sjálfstraust leikmanna Grimsby aukast með hverri mínútunni sem líður.


Spái 4-0 sigri – Hudson-Odoi setur eitt, Barkley eitt og Batsman tvö.


KTBFFH

bottom of page