Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 8. mars kl. 14:00
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Ölver Sportbar og Sky Sports
Upphitun eftir: Þór Jensen
Síðasti leikur
Þessi vika hefur heldur betur verið skemmtileg fyrir okkur Chelsea menn. Alla vikuna höfum við getað nuddað frábærum sigri Chelsea á Liverpool framan í meðlimi Liverpool Samfélagsins, kominn tími til!
Okkar menn spiluðu frábæran fótbolta gegn sterku liði Liverpool í bikarnum á þriðjudaginn, að mínu mati einn besti leikur tímabilsins hjá okkar mönnum að Tottenham leikjunum tveimur og Ajax leiknum á útivelli undanskildum. Chelsea menn pressuðu Liverpool frá fyrstu mínutu og vinnusemin var stórkostleg hjá öllum leikmönnum liðsins. Liverpool, sem byrjuði með leikmenn eins og Van Dijk, Robertson, Gomez, Fabinho og Sadio Mané inn á, höndluðu pressu Chelsea illa og okkar menn litu einfaldlega út fyrir að vilja þetta meira og vera með meira á tankinum, sem er áhugavert þar sem Liverpool hvíldi mun fleiri leikmenn í leiknum og Chelsea gat ekki róterað mikið vegna meiðsla lykilmanna. Enginn annar en Ross Barkley jók forystuna á 64. mínútu með marki sem að Eden nokkur Hazard yrði stolltur af. Eftir markið urðum við enn betri, héldum boltanum ágætlega, vörðumst vel og spiluðum skipulagðan og agaðann bolta. Ef eitthvað er vorum við nær því að auka muninn í 3 mörk heldur en þeir að minnka muninn.
Förum yfir frammistöður lykilmanna í leiknum:
Kepa: Kepa Arrizabalaga átti mjög góðan leik, átti rosalega þrefalda markvörslu þar sem hann varði þrisvar í röð af stuttum færum Liverpool manna, var fljótur á fætur í öll skiptin og virkilega einbeittur. Hann var öruggur í öllum sínum aðgerðum, góðar sendingar, góð útspörk og góður í loftinu. Hann virtist ná betur til varnarmannanna og virtist vera rólegri í samskiptum við þá, hélt hreinu laki og steig vart feilspor. Þessi frammistaða hlýtur að skila honum byrjunarliðssætinu að nýju, ef ekki þá verður hann seldur í sumar, bókað mál.
Alonso: Marcos Alonso sýndi það í þessum leik að hann er ekki bara væng-bakvörður, heldur getur hann líka spilað bakvarðarstöðuna vel ef hann vill það. Hann varðist vel (aldrei þessu vant) og gerði ekki mikið af mistökum, var á tánum og hljóp mikið. Góð vinnusemi í honum og langt síðan maður sá hann spila svona vel í 4 manna varnarlínu.
Billy Gilmoure: Maður leiksins. Óaðfinnanleg frammistaða hjá unga Skotanum. Menn hafa verið að reyna að bera hann saman við hina og þessa leikmenn en satt best að segja er hann engum líkur. Frábær í vörn og sókn, vann boltann af mönnum, sólaði leikmenn, færði boltann á milli kannta, keyrði boltann upp völlinn, losaði boltann vel frá sér undir pressu, gaf eitraðar stungusendingar og hljóp eins og djöfullinn. Hann fær 10 frá mér fyrir þessa frammistöðu og hefur verið lofaður hrósi af stórum nöfnum í fótboltaheiminum síðan á þriðjudag. Vonandi nær hann hausnum niður fyrir leikinn gegn Everton eftir þennan draumaleik, því við þurfum á hans hæfileikum að halda í þeim leik.
Barkley: Sýndi loksins afhverju hann var talinn einn efnilegasti leikmaður Evrópu á sínum tíma þegar hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi, hljóp með hann einn upp að vítateig og bombaði honum í markið. Hann klikkaði að vísu oft á einföldum sendingum í leiknum og var nokkrum sinnum of lengi að hlutunum í skyndisóknum, en þetta mark gefur honum vonandi sjálfstraust til að standa sig vel á móti sínum gömlu félögum í Everton.
Pedro: Átti sinn besta leik fyrir Chelsea í langan tíma. Vinnusemin í honum var til fyrirmyndar og ungu leikmenn liðsins geta litið upp til þessarar frammistöðu. Hann spilar nú á kostnað meiddra leikmanna og á móti Liverpool nýtti hann tækifærið vel. Sjaldan hef ég séð Pedro skila annari eins varnarframmistöðu, hann var magnaður í að vinna boltann af Liverpool mönnum og koma honum í spil. Spurning hvort að staða hans á vellinum sé að breytast, kannski mun Lampard færa hann aftar á völlinn eftir þennan leik.
Giroud: Var frábær á þriðjudag, þó svo að frammistaða hans hafi kannski ekki fengið jafn mikla athygli og frammistaða Gilmoure, Kepa og Pedro. Hann vann marga skallabolta og ef hann vann þá ekki þá truflaði hann Van Dijk og Gomez þannig að skallar þeirra enduðu oftar en ekki útaf eða hjá bláklæddum leikmanni. Hann skapaði mikið pláss í kringum sig og opnaði svæði fyrir kantmenn til að hlaupa inn í. Góður leikur hjá Giroud sem að verður vonandi áfram í Chelsea á næsta tímabili.
Chelsea er áfram í undanúrslit FA Cup. Við mætum Leicester í næsta leik og ljóst að við munum ekki fara auðvelda leið að þessum titli, það mun aðeins gera hann enn sætari fyrir vikið.
Everton
Everton hefur verið á ágætu skriði undanfarnar vikur og ljóst er að við eigum ekki auðvelt verkefni fyrir höndum á Brúnni. Þeir sitja sem stendur í 11. sæti með 37 stig, aðeins 5 stigum frá Manchester United og Tottenham í 5. og 6. sæti. Ég efa það ekki að okkar fyrrum stjóri Ancelotti væri meira en til í að landa Evrópudeildarsæti með Everton á sínu fyrsta tímabili. Everton mun líklega byrja leik sinn með sama eða mjög svipað byrjunarlið og þeir gerðu í 1-1 jafnteflinu gegn Manchester United í síðustu umferð, í leik sem Everton var sterkari aðilinn í og átti fyllilega skilið að vinna. André Gomes er kominn aftur í byrjunarliðið ótrúlega snemma eftir skelfileg meiðsli og eru það gleðifréttir fyrir Everton menn. Fyrir vikið hefur Gylfa verið ýtt út á kanntinn, sem er kannski það eina jákvæða fyrir okkur við endurkomu André Gomes, því í þeirri stöðu hefur Gylfi ekki verið að spila neitt sérstaklega vel. Markahrókurinn nýkrýndi, Dominic Calvert-Lewin verður svo líklega uppi á topp ásamt Richarlison.
Í meiðslum er þetta helst: Ruben Loftus-Cheek og Christian Pulisic spiluðu “in house game” eða æfingaleik innan félagsins í vikunni, svo það styttist í endurkomu þeirra beggja. Líklega verður RLC á bekknum eins og í síðustu leikjum og vonandi fær hann mínútur. Callum Hudson-Odoi er enn meiddur aftan á læri og ekki er vitað hvenær hann kemur til baka, meiðsli hans eru erfið. Tammy Abraham er enn meiddur og er ekki enn farinn að æfa með aðalliðinu eftir meiðslin sem hann varð fyrir gegn Bayern. Kanté er enn meiddur og Kovacic meiddist á hásin í leiknum gegn Liverpool og verður ekki með gegn Everton. Óvíst er með Willian, en hann gæti verið tilbúinn fyrir leikinn um helgina, en það verður metið á leikdegi. Ég vona að ég sé ekki að gleyma neinum, en þetta er orðið ansi þreytandi hvað við höfum verið óheppnir með meiðsli allt frá byrjun tímabils og líklega ekkert lið í toppbaráttunni jafn óheppið með meiðsli og við á þessu tímabili, þó svo að lítið sé fjallað um það í fjölmiðlum.
Það er erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið í þetta sinn sökum meiðsla, en ég mun reyna. Kovacic og Kanté eru meiddir og Jorginho er í leikbanni vegna uppsafnaðra gulra spjalda, sem þýðir að miðjumennirnir sem við eigum eftir eru Ross Barkley, Billy Gilmoure og Mason Mount. RLC byrjar líklega á bekknum en einnig gætum við séð Reece James spila á miðjunni í þessum leik líkt og hann gerði með Wigan á síðustu leiktíð. Einnig gæti Lampard spilað Christansen sem djúpum á miðjunni en hann hefur áður spilað þá stöðu.
Hvernig Lampard stillir liðinu upp á sunnudag veltur á ýmsum þáttum, t.d. hvort við spilum 4-3-3 líkt og gegn Liverpool eða hvort hann fari aftur í 3-4-3. Ef að Willian er heill og getur byrjað leikinn, þá hugsa ég að Lampard haldi sig við 4-3-3 sem að gekk svo vel gegn Liverpool og spili með Barkley, Mount og Billy Gilmoure á miðjunni. Ef að Willian er ekki leikfær þá munu líklega annað hvort Reece James eða Christiansen byrja á miðjunni ásamt Barkley og Gilmoure og Mount verður með Pedro á könntunum. Ég spái því að fjögurra manna varnarlína verði Azpilicueta - Rüdiger - Zouma - Reece James (ef að James verður ekki á miðjunni) en annars kæmi Alonso inn í vinstri og Azpi færi í hægri bakvörð. Ef við spilum 3-4-3 byrjar Alonso auðvitað inn á og hafsentarnir verða Azpi - Rüdiger - Zouma. Nú er ég alveg búinn að marg-tryggja mig en ég spái byrjunarliðinu svona:
Ég spái okkar mönnum 2-1 sigri í erfiðum heimaleik gegn sterku Everton liði. Giroud skorar fyrsta markið og Zouma skorar seinna markið eftir skelfileg mistök Pickfort í markinu. Richarlison skorar mark gestanna úr föstu leikatriði.
Comentarios