Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 14. ágúst 2022
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport
Upphitun eftir: Finn Marinó Þráinsson
Þá er komið að fyrsta stórleik tímabilsinns. Lúðarnir frá Norður-London mæta á Stamford Bridge með von í hjarta eftir fínan leik á móti Southampton í síðustu umferð. Staðreyndin er samt sú að Tottenham Hotspur hafa unnið einn leik á Stamford Bridge síðan árið 1990. Við erum að tala um einn sigur síðustu 32 ár.
Antonio Conte og félagar áttu ágætis undirbúningstímabil í asíu þar sem þeir tóku á móti liðum eins og Sevilla, Roma og Rangers. Af leikmannakaupum að frétta ber einna helst að nefna nöfn á við Ivan Perisic, Yves Bissouma og Richarlison. Kulusevski er einnig mættur á láni frá Juventus og átti stórleik síðustu helgi. Nýlega bárust fréttir af því að hárþunni þjálfarinn frá Ítalíu hafi bannað fjórum leikmönnum liðsins að æfa með aðalliðinu og að þeir eigi ekki aftur snúið. Þessir leikmenn eru Ndombele (sem er nálægt því að ganga í raðir Napoli), Harry Winks, Sergio Reguilon (sem átti að vera 100 sinnum betri en Chilwell samkvæmt veikum stuðningsmönnum Spurs) og Giovani Lo Celso.
Hafsteinn fór ítarlega í okkar undirbúningstímabil og leikmannakaup í síðasta pistli og því ætla ég ekki að ræða það frekar.
Ef ég spái í byrjunarlið Tottenham þá held ég að þeir haldi sig nokkurn veginn við sama 3-4-3 kerfi og síðustu helgi. Hugo Lloris verður í markinu með Eric Dier, Cristian Romero og Ben Davies fyrir framan sig. Ég held reyndar að Perisic byrji vinstra meginn yfir Sessegnon. Hægra meginn verður Emerson Royal og Hojberg og Bissouma á miðjunni. Svo er það þessi fjandans framlína. Ekkert eðlilega ógnvænleg á blaði. Son-Kane-Kulusevski.
Það er frekar erfitt að segja til um hvort að við stillum upp í 4-2-2-2 eða 3-4-3. Við unnum alla leikina þrjá við Tottenham í janúar með 4-2-2-2 og því gæti vel hugsast að Tommi reyni það aftur. Aftur á móti reyndum við að spila þetta kerfi á undirbúningstímabilinu með skelfilegum afleiðingum. Við byrjuðum leikinn á móti Arsenal í 4-2-2-2 og við vorum vægast sagt ÖMURLEGIR sem endaði með því að Tommi skipti yfir í öryggisteppið sitt í seinni hálfleiki. Ekki að það hafi orðið mikið skárra eftir það. Ég held persónulega að Tómas treysti fjögurra manna línunni ekki nógu vel í bili og hendi í 3-4-3.
Rýnum aðeins í mögulegt byrjunarlið!
Okkar eigin Mendy byrjar í markinu með Koulibaly, Thiago Silva og Azpilicueta fyrir framan sig. Ég ætla að skjóta á það að Cucurella byrji þennan leik. Innkoma hans á móti Everton var alveg geggjuð og hárið hans gæti farið í taugarnar á Conte. Reece James verður hægra meginn og miðjan samanstendur af Jorginho og Kante. Kovacic er víst enn tæpur í hné og því miður ekki klár. Fremstu menn verða Sterling, Mount og………. Armando Broja. Það gæti vel verið að þetta sé óskhyggja frekar en eitthvað raunsæi en innkoma hans á móti Everton sýndi það að gæjinn vill spila fyrir Chelsea. Þetta var líka einhver slakasti leikur sem ég hef séð hjá mínum manni Kai Havertz og mér finnst að það megi alveg láta á þetta reyna. Ef hann byrjar ekki þá verður hann allavega að fá einhverjar mínútur í þessum leik.
Ég var gríðarlega ánægður að heyra að Blákastbræður voru í sömu hugleiðingum með Broja í síðasta þætti. Hvet ykkur öll til þess að smella heyrnatólum í eyrun og hlusta á þáttinn.
Þá að úrslitum. Ég býst ekki við neinu öðru en að við höldum uppteknum hætti og töpum ekki. Ég er pínu hræddur við það að þetta endi jafntefli ef að framlínan okkar fer ekki að rífa sig í gang. Það er hundleiðinleg tölfræði að Tottenham hefur skorað flest mörk allra liða í ensku deildinni árið 2022. 51 stykki. Við það má bæta að Kane, Son og Kulusevski hafa skorað jafn mörg mörk í ár og allt Chelsea liðið til samans eða 34 mörk. Það er náttúrulega ekki hægt.
Ég er samt bjartsýnn og spái þessu 2-1 fyrir okkur. Loksins fær ‘immigrant mentality’-ið hjá Broja að skína í gegn og hann skorar eitt mark. Sterling skorar eitt og Son setur eitt fyrir lúðana.
Comments