Gangur leiksins
Þessi leikur vannst með þolinmæði og mikilli vinnu. Sheffield voru sprækir framan af leiknum. Þeir pressuðu ágætlega út um allan völl og var greinilega mikill baráttuandi í þeim. Á sama tíma virtust okkar menn ekki alveg vera vaknaðir eftir síðdegisblund sem þeir hljóta að hafa tekið rétt fyrir leik. Neisti Sheffield skilaði þeim marki eftir hornspyrnu á 9. mínútu. Hornspyrnan var tekin stutt og í hlaupunum sem áttu sér svo stað hjá okkar mönnum enduðu tveir leikmenn Sheffield óvaldaðir við vítateigspunktinn hjá okkur, annar þeirra fékk boltann og gaf hann á McGoldrick sem tók hælspyrnu með bakið í markið og skoraði. Sverðin komin yfir. Fyrir þennan leik hafði Sheffield lengst haldið forystu í 28 mínútur á þessu tímabili. Þeim tókst ekki að bæta þann tíma því 14 mínútum síðar jafnaði Abraham eftir stoðsendingu frá Kovacic. Á 34. mínútu kom Chilwell okkur yfir eftir háa fyrirgjöf frá Ziyech. Þannig var staðan í hálfleik.
Eftir kraftmikla byrjun virtist blaðran sprungin hjá Sheffield en þeir voru þéttir í varnarleik sínum og erfitt að finna smugur framhjá. Það var ekki fyrr en vel var liðið á síðari hálfleik sem þeir bláu bættu við, á 77. mínútu átti Silva fallegan skalla í mark Sheffield eftir aukaspyrnu frá Ziyech. Þremur mínútum síðar skaust boltinn af Kante fram eftir samstuð við Sheffield mann. Boltinn endaði sem stungusending fyrir Werner því hann náði boltanum við vítateigspunkt Sheffield og skoraði örugglega framhjá Aaron Ramsdale, markmanni Sheffield. Staðan orðin 4-1 og þannig enduðu leikar. Það var viðbúið að Chelsea yrði sterkari aðilinn i leiknum og komu yfirburðir liðsins í leiknum því ekki á óvart. Þeir bláu áttu 20 skot í leiknum en Sheffield aðeins sex, þar af aðeins eitt í síðari hálfleik. Engu að síður finnst mér Sheffield Utd. eiga hrós skilið fyrir sína frammistöðu, sér í lagi í fyrri hálfleik.
Pælingar
Mark á okkur eftir fast leikatriði, er nokkuð tilefni til að hafa áhyggjur?
Enginn Hudson-Odoi, hvers vegna ætli hann fái ekki meiri spilatíma?
Gaman að sjá Thiago Silva skora og kóróna flottan leik sinn - fjórða.
Hakim Ziyech er rammgöldróttur með boltann og þessar fyrirfjarfir hans eru einstakar - þvílík gæði!
Er Reece James alfarið búinn að slá Azpilicueta út úr liðinu?
Lampard ennþá að spila 4-3-3; Kovacic og Mount saman á miðjunni og Kanté áfram sem djúpur - virkaði vel.
Það virðist vera góð stemming í hópnum, menn að tengjast og virðast vera reiðubúnir að fórna sér fyrir hvorn annan.
Einkunnagjöf
Mendy – 7 Þrátt fyrir að hafa fengið á sig eitt mark var hann mjög solid í markmannshlutverkinu. Það var lítið að gera hjá honum en hann fékk samt þó nokkuð af sendingum frá varnarmönnum okkar og stóð sig vel í að koma boltanum aftur til samherja. Annars var frekar rólegt hjá honum.
James – 8 Tók mikinn þátt í sóknarleiknum og var þetta megin leið okkar að marki Sheffield, þ.e. hægra megin. Hann var einnig solid í varnarleiknum. Góð frammistaða.
Zouma – 8 Zouma sýndi einnig fína frammistöðu í miðverðinum. Samstarf þeirra Silva er gjöf sem heldur áfram að gefa.
Silva – 8,5 Silva hélt áfram að stýra varnarleiknum okkar og skoraði sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn.
Chilwell – 8 Hann var duglegur í bæði varnar- og sóknarleik, ég held þó að heppni hafi átt stærstan þátt í markinu hans. Engu að síður verðskuldað.
Kovacic – 8 Átti mjög góðan leik og auðvitað stoðsendinguna sem leiddi til jöfnunarmarksins. Það var leiðinlegt að sjá á eftir honum. Honum var skipt út af á 70. mínútu en það hafði verið stigið á hann aðeins fyrr og mögulega sneri hann aðeins á sér ökklann.
Kanté – 8,5 Stal nokkrum boltum, var duglegur og minnti oftar en ekki á „gamla“ Kanté. Frábært að hann sé líklega að komast í fyrra form.
Mount – 8,5 Mikilvægur leikmaður, virðist alltaf spila með hjartanu og leggur allt í sölurnar fyrir liðið. Hann átti góða frammistöðu í dag eins og restin af sóknarlínunni.
Ziyech – 9 Þvílíkar fyrirgjafir! Skapaði einna mest, átti tvær stoðsendingar, skapaði þó nokkur marktækifæri, átti þrjú skot og sex lykilsendingar. Klárlega maður leiksins.
Abraham – 8,5 Hann var partur af skapandi sóknarleik hjá okkur og kom okkur auðvitað á beinu brautina með jöfnunarmarkinu, kveikti almennilega í mannsskapnum.
Werner – 8,5 Hann spilaði mikilvægt hlutverk í sóknarleik okkar, virðist eiga endalausa orku þessi leikmaður.
Varamenn :
Jorginho – 7 (71.mín.) Hann fyllti skarð Kovacic mjög vel, náið m.a.s. að sleppa því að fá gult spjald.
Giroud - 6 (87.mín) Kom inn á fyrir Werner, fékk ekki mörg tækifæri í sókninni enda aðeins sex mínútur eftir af spilatíma (með uppbótartímanum).
KTBFFH
- Elsa Ófeigsdóttir
Comments