top of page
Search

Chelsea mætir Everton á Goodison Park

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 7. desember kl 12:30

Leikvangur: Goodison Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, BT Sport 1 & BT Sport Ultimate

Upphitun eftir: Stefán Martein Ólafsson



Chelsea

Eftir 2 tapleiki í röð í deild komumst við blessunarlega aftur á sigurbraut í síðasta leik þegar við fengum John Terry og félaga í Aston Villa í heimsókn og höfðum betur með tveimur mörkum gegn einu. Okkar eigin Ohhh – Tammy Tammy! Tammy Tammy Tammy Tammy Abraham! heldur áfram að skora mörk og bætti við einni frábærri stoðsendingu á félaga sinn úr akademíunni Mason Mount. Margt jákvætt sem við getum tekið út úr þeim leik en við óðum í færum og vorum þannig séð alltaf líklegri aðilinn en á sama tíma getur það eflaust talist til áhyggjuefnis hvað við erum ekki að drepa leikina okkar. Ef við rýnum aðeins í tölfræði liðsins þá er hægt að sjá ýmislegt áhugavert þegar kemur að færum og nýtingu en ef við tökum bara Aston Villa sem dæmi þá eigum við 17 skot í leiknum og þar af 11 á markið en skorum bara 2 mörk. Það er ekki hægt að segja að okkar menn kunna ekki að koma sér í færi en það er svolítið áhyggjuefni hversu illa við eigum það til að fara með þau.

Ef við snúum okkur að jákvæðari nótum þá er hrein unun að fylgjast með þessu liði! Það var kannski hægt að segja sér það að með ungu liði kæmu fleirri hindranir en hingað til hefur okkar mönnum tekist frábærlega vel til ef West Ham og Sheffield United leikirnir eru mögulega teknir út fyrir sviga.


Ef við förum út í hvernig ætla megi að liðið verði skipað þegar við heimsækjum stjóralausann Gylfa Þór á Goodison Park má áætla að Kepa standi í markinu með Reece James, Kurt Zouma, Fikayo Tomori og Captain Azpilicueta fyrir framan sig og standi vörð í vörninni. Jorginho, Kanté og Mount fái að ráfa um miðjuna á meðan Captain America (Christian Pulicic), Willian og Tammy Abraham fá það hlutverk að leiða línuna. Kovacic, Callum Hudson-Odoi og Michy Batshuayi fá líklega einhverjar mínútur í leiknum.

Á meiðslalista má ennþá finna Ruben Loftus-Cheek, Ross Barkley og þá má áætla að Antonio Rudiger sé einfaldlega ekki komin í stand en hann hefur þó verið að taka þátt í æfingum liðsins af fullum krafti og gæti mögulega verið í leikmannahópnum gegn Everton.


Everton

Tímabilið hjá Everton hefur farið herfilega af stað og hafa þeir verið langt undir væntingum. Bláliðar Liverpool borgar finna sig í fallsæti á stöðutöflunni þessa dagana og það fer ekki vel í Guttagarðinn en þeir mæta stjóralausir í leikinn gegn okkur en harðhausinn Duncan Ferguson er bráðabirgðastjóri á meðan stjóraleit stendur yfir. Ef það er eitthvað að fara lemja þetta lið áfram þá er það líklega Duncan Ferguson þannig það má því gera ráð fyrir hörku leik núna á laugardaginn en ætla má að Everton geri ekki ýkja margar breytingar á liðinu fyrir leikinn nema þeir fara kannski úr þriggja hafsentakerfi í fjögra manna varnarlínu og Gylfi færist framar í sína uppáhaldsstöðu í holunni fyrir aftan framherja.

Ef við förum aftur til fortíðar og skoðum síðustu viðreignir liðana á Goodison Park má sjá að okkar menn hafa átt í eilitlu brasi en á síðasta tímabili sáu Richarlison og Gylfi til þess að við töpuðum 2-0.


Spá

Í ljósi aðstæðna er hrikalega erfitt að spá fyrir um þennan leik þar sem stjóraskipti geta stundum veitt liðum auka kraft en ég hef þó trú á okkar mönnum og spái okkar mönnum sigur í skemmtilegum leik. Fantasy hjartað segir 0-4 þar sem Tammy Abraham setur þrennu og Mason Mount leggur þau upp áður en hann skorar svo fjórða en þekkjandi okkar öftustu menn má alveg gera ráð fyrir að fleirri mörk líti dagsins ljós. Loka niðurstaða í þessari spá er því 2-4 þar sem Richarlison og Seamus Coleman skora á meðan Tammy setur tvö, Mount eitt og Hudson-Odoi kemur af bekknum og lokar leiknum með fjórða.


KTBFFH!

Comments


bottom of page