top of page
Search

Chelsea heimsækja Frank Lampard

Keppni: Premier league

Dag- og tímasetning: fimmtudagur 1. maí kl 13:00

Leikvangur: Goodison Park (Guttagarður)

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Stefán Marteinn




Góðan og margblessaðan!


Það eru nýjar vendingar í málum okkar blessaða félags þar sem eigendamálin virðast loks vera að taka á sig mynd. Todd Boehly og félagar virðast vera landa þessu giggi þrátt fyrir tilraun Jim Radcliffe til þess að stela þessu á elleftu stundu. Línurnar virðast því vera að skýrast í þeim efnum en nóg um það í bili…


Það var leikhús draumana sem hýsti okkar menn í síðustu umferð þegar við heimsóttum heimamenn í Manchester United. Okkar menn gátu með sigri haldið hæfilegri fjarlægð við fjórða sætið þegar 5 umferðir væru eftir af deildinni en með hreinum ólíkindum tókst okkur að fá einungis eitt stig úr þessum leik. Það er engu logið þegar ég segi að okkar menn hefðu átt skilið að fá meira úr þessum leik en því miður var það ekki í fyrsta sinn sem sóknarleikurinn okkar varð okkur að falli. Kai Havertz sem átti stórkostlegan Mars mánuð hefur aðeins verið að gefa eftir í Apríl átti sín færi í þessum leik sem hefðu mátt vera betur útfærð en við gefum honum þó prik fyrir að flikka boltanum til Marcos Alonso sem er einhver sérkennilegasti fótboltamaður síðari ára.


Alonso er langt á undan sinni samtíð en í nútímafótbolta er talað um að bakverðirnir séu að verða nokkurskonar tíur á vellinum með áhrifum frá Pep Guardiola og Jurgen Klopp. Ef við gefum þessu nokkur ár verða bakverðir sennilega frekari sókarmenn og þá fyrst verður talað um Marcos Alonso sem guðfaðirinn í þeim fræðum. Hvernig sá maður er ekki bara búin að gefa upp vinstri bakvörðinn og orðin framherji er mér hulinn ráðgáta. Michail Antonio var sælla minninga hægri bakvörður í tíð Slaven Bilic með West Ham en David Moyes sá ljósið og færði hann fremst á völlinn og því hálf ótrúlegt að Marcos Alonso með sitt markanef hefur ekki fengið færsluna.


Við erum komin langt útfyrir efnið svo til að gera þennan leik upp þá jafnaði Cristiano Ronaldo nokkrum mín seinna og þar við sat. Reece James var langbesti maður vallarins og Ngolo Kanté minnti á að hann getur þetta ennþá.


Okkar bíður verðugt verkefni núna næst þar sem við heimsækjum okkar ástsæla Frank Lampard og félaga í Guttagarðinn. Everton hafa verið ekkert minna en ömurlegir á þessu tímabili og eru í raunverulegri hættu á að falla. Þeir sitja í fallsæti sem stendur og þurfa nauðsynlega á stigum að halda í sinni baráttu. Gengi Everton manna hefur ekki verið gott en þeir hafa sótt sigra gegn Manchester United og Newcastle í síðustu sex leikjum, gert jafntefli við Leicester og tapað fyrir West Ham, Burnley og Liverpool.


Fyrir þennan leik virðast vera rosalegar blendnar tilfiningar. Við viljum öll sjá Frank Lampard vegna vel í sínu starfi og forðast fall en á sama tíma viljum við spyrna okkur frá fjórða sætinu og halda fjarlægð við það.


Ég sé ekki fyrir mér neinar breytingar í markinu og að Edouard Mendy muni standa þar á sínum stað í rammanum. Miðverðirnir okkar þrír verða Azpilicueta, Thiago Silva og Rudiger. Vængbakverðir verða Reece James og Marcos Alonso. Jorginho og Kanté verða á miðsvæðinu. Fremstu þrír gætu fengið róteringu. Mason Mount byrjar, miðað við orðræðu Tuchel eftir leikinn gegn Man Utd þá vill hann sjá viðbrögð frá Kai Havertz svo hann leiðir línuna og eins mikið og mig langar að hafa Timo Werner þarna í púllínunni þá held ég að Christian Pulisic komi til með að koma inn fyrir hann í þessum leik.



Spá

Ég spái því að þetta verði erfiður leikur þar sem Everton mun liggja til baka og reyna virða stigið og treysta á skyndisóknir frá Anthony Gordon, Demarai Gray og Richarlison. Við munum koma til með að ligga svolítið á þeim en vonandi þurfum við ekki að bíða lengi eftir að brjóta ísinn. Reece James skorar fyrsta markið og ef það kemur snemma þá fylgja önnur tvö til þrjú og við vinnum sannfærandi en ef Everton þrjóskast áfram og nær að halda lengur en 60 mínútur í núllið þá skorum við líklega ekki mikið meira en eitt í viðbót.

Ég ætla því að tvítryggja sigurinn 4-0 eða 2-0.

Comments


bottom of page