top of page
Search

Chelsea heimsækir Englandsmeistarana

Keppni: Enska Úrvalsdeildin.

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 23. nóvember 2019, kl.17:30.

Leikvangur: Etihad Stadium í Manchester.

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports Main Event, Sky Sports Premiere League, NBCSN o.fl. (sjá nánar: https://www.livesoccertv.com/match/3328994/manchester-city-vs-chelsea/).

Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.

Chelsea

Frábært að enski sé að byrja aftur eftir frekar slappt landsleikjahlé af okkar hálfu. Annað er þó uppi á teningnum hjá ensku strákunum í bláu treyjunum en Mason Mount skoraði sitt fyrsta mark fyrir England gegn Kosovo. Þá skoraði Tammy Abraham í fyrri leik Englands gegn Svartfjallalandi, Mason skoraði reyndar einnig í þeim leik en það mark var dæmt af vegna rangstöðu. CHO spilaði rúmar 80 mínútur í leik Englands gegn Kosovo og Tomori fékk einnig nokkrar mínútur í lok þess leiks.

En þeir bláu leikmenn sem voru í landsliðshóp fyrir undankeppni EM 2020 voru Batshuayi, Kovacic, Christensen, Kante, Giroud, Zouma, Jorginho, Emerson og Kepa. Billly Gilmour var valinn í U21-landslið Skota sem tapaði gegn Grikkjum. Reece James var ekki valinn í sama landsliðshóp og Tammy, Mount, CHO og Tomori en hann spilaði með U21 landsliði Englands ásamt nokkrum bláum félögum sínum. Þeir James, Guehi og Conor Gallagher spiluðu allir í þriggja marka sigri gegn Albaníu. Gallagher skoraði gullfallegt mark í leiknum en hann er á láni hjá Charlton þetta tímabilið. Þar hefur hann spilað 16 leiki, skorað fimm mörk og fengið mikið hrós frá stjóra Charlton fyrir frammistöðuna.

En að seinasta leik Chelsea sem var gegn Crystal Palace og okkar gamla félaga Gary Cahill. Þrátt fyrir að mörkin hafi aðeins verið tvö skorti ekki skotfærin í leiknum, allavega af okkar hálfu. Þar átti Cahill eina neyðarvörslu og átti, ásamt markmanni Palace, stóran þátt í að það var markalaust í hálfleik. Það var sérlega ánægjulegt að Lampard skyldi gefa Reece James tækifæri í byrjunarliðinu og sett Azpilicueta á bekkinn. Það var unun að fylgjast með James og hvernig hann hafði Zaha bókstaflega í vasanum allan leikinn. Skemmtilegar skopmyndir hafa verið birtar af því tilefni sem hafa kallað fram bros á vörum stuðningsmanna Chelsea – og líklega fleirum.

Meiðslalistinn hjá okkur styttist svo alltaf, Loftus-Cheek og Rudiger eru enn frá og þá gætu Barkley og Pulisic enn verið að jafna sig á sínum meiðslum. Ég mun því ekki gera ráð fyrir þeim í leikmannahópnum en reikna auðvitað með því að Jorginho verði þar eftir að hafa verið í banni gegn Crystal Palace. Ég stilli væntanlegu byrjunarliði svona upp: Kepa í markinu, James í hægri bakverði, Azpi og Tomori í miðverði og Emerson í vinstri bak. Kante, Jorginho og Mount á miðjunni. Odoi og Willian á köntunum og Abraham frammi.


Manchester City:

Ég fann því miður engan City stuðningsmann enda stutt síðan þeir fóru að vinna titla í röðum. Þar áður unnu þeir einhvern Evróputitil í kringum 1960. Þannig að stuðningsmannahópurinn gæti hafa þynnst verulega á fæðingarárum þeirra sem ég umgengst.


Gengi Manchester City hefur ekki verið alveg eins smurt og margur hélt fyrir leiktíðina (t.a.m. pistlahöfundur). Þeir hafa engu að síður ekki verið að standa sig illa en hafa þó tapað einum leik í hverjum mánuði, núna seinast fyrir Liverpool fyrir landsleikjahléið. Þeir gerðu svo jafntefli í leiknum þar á undan en það var gegn Atalanta í Meistaradeildinni. Særindin eftir tvo sigurlausa leiki í röð hljóta að hvetja þá áfram sem og sú staðreynd að tapi þeir nú detta þeir fjórum stigum aftur fyrir okkur en verða áfram öruggir í fjórða sæti deildarinnar.


Leikmannahópur City er nokkuð heill. Ederson er að jafna sig á smávægilegum meiðslum og er væntanlegur aftur í leikmannahópinn á laugardag. Þá eru Laporte og Sane enn meiddir. Ég velti fyrir mér hvort Sterling verði í byrjunarliðinu eftir að hafa orðið ansi reiður við Joe Gomez leikmann Liverpool. Það er heppilegt fyrir okkur að Bernardo Silva tekur út leikbann og verður því ekki með á laugardaginn en hann hefur spilað vel í þeim 11 leikjum sem hann hefur tekið þátt í. Í þeim hefur hann skorað fimm mörk og átt tvær stoðsendingar. Það vekur athygli að City er aðeins með tvo heila miðverði í liðinu, Otamendi og Stones. Fernandinho hefur spilað við hlið Stones í hjarta varnarinnar hjá City og vekur það upp spurningar hvort Guardiola treysti Otamendi ekki í verkið. Guardiola getur fáum um kennt nema sjálfum sér þar sem honum fannst ekki þörf á að styrkja miðvarðahópinn þegar Kompany fór frá City. En samstarf Stones og Otamendi í miðverðinum undir Guardiola hefur getið af sér 25 mörk. Seinast spiluðu þeir saman gegn Norwich en City tapaði óvænt þeim leik. Þrátt fyrir að varnarleikur City sé vafasamur þá er ekki hægt að segja það sama um sóknarleikinn en hann kunna þeir upp á 10. Til marks um það er City með bestu markatöluna í deildinni, 35 mörk skoruð og aðeins fengið á sig 13 mörk, þar af eru þrjú frá seinasta leik þeirra gegn Liverpool. Það er þó vert að taka það fram að leikjaplan Manchester City hefur einkennst af viðureignum við lið sem teljast til minni liða í ensku deildinni. Þeir gerðu jafntefli við Spurs og áttu svo leik gegn Liverpool í síðustu umferð. Framundan hjá þeim eru svo leikir gegn United, Arsenal og Leicester. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeim reiðir af í þessari lotu sem er framundan hjá þeim.


Spá

Við eigum harma að hefna á Etihad-vellinum en Manchester City fóru illa með okkur þar í febrúar sl. þegar þeir rústuðu okkur 6-0. City er ekki óvinnandi andstæðingur, það má vel nýta sér veikleika þeirra í vörninni og keyra á skyndisóknum. Ég reikna fastlega með því að þeir Morris og Lampard séu komnir með gott plan fyrir leikinn og munu að sjálfsögðu spila til sigurs. Hraði Abraham, Mount og Willian gæti gert vörn City erfitt fyrir og vonandi mun það skila okkur sigri. Ég spái því að leikurinn endi 2-2, Abraham með fyrra mark okkar og Willian skorar eitt gullfallegt úr aukaspyrnu.

Comments


bottom of page