top of page
Search

Chelsea heimsækir Bournemouth

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 29. feb kl 15:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, BeIn Sport og NBC Sport Network

Upphitun eftir: Stefán Martein

Chelsea

Það er óþarfi að eyða of mörgum orðum um síðasta leik liðsins gegn Bayern s.l. þriðjudag en þar hreinlega mættum við bara ofjörlum okkar og fengum nett „reality check“ yfir hvar við nákvæmlega stöndum á evrópska sviðinu í dag. Við getum vissulega fært rök fyrir því að það vantaði sterka pósta og ég persónulega er t.d. á því að með Kanté í liðinu hefðum við í það minnsta ekki fengið á okkur 3 mörk en það er hægt að ræða svona pælingar fram og tilbaka, ef og hefði og allt þar á milli.

Síðasti leikur okkar í deild er öllu skemmtilegri en fyrri pistlar hafa farið yfir það þegar við fengum Tottenham í heimsókn og rúlluðum nokkuð örugglega í gegnum framherjalausa lærisveina Móra og fengum að sjá afhverju Giroud ætti alltaf að vera framar en Michy þegar kemur að því að velja í lið á leikdegi.

Þegar við færum okkur yfir í andstæðing dagsins A.F.C. Bournemouth þá eigum við harma að hefna frá heimsókn þeirra á Brúnna þar sem við áttum einn okkar alversta leik tímabilsins í tapi gegn ekki vængbrotnu liði Bournemouth heldur hryggbrotnu en á ótrúlegan hátt tókst okkur að láta Dan Gosling klára okkur þann dag. Ef við mætum ekki dýrvitlausir í þennan leik með það plan að svoleiðis hefna ófarana úr fyrri umferð þá verð ég illa svikinn.

Fyrir þennan leik má gera ráð fyrir því að við verðum án N'Golo Kanté, Callum Hudson-Odoi er ennþá í það minnsta tæpur, Pulisic ekki tilbúinn, Tomori hefur ekki verið með í síðustu leikjum en óvíst er hvort það sé vegna smávægilegra meiðsla eða hvort hann sé ekki í náðinni hjá Lampard. Hvort sem menn og konur muni eftir því hver Marco van Ginkel er þá er hann meiddur hvort sem þið trúið því eða ekki.


Lampard hefur haldið sig við 3-4-2-1 í síðustu tveimur leikjum með misgóðum árangri en ég gæti trúað að hann fari í 4 manna vörn aftur. Ég ætla samt að halda því fram að hann haldi sig við þetta 3-4-2-1 kerfi og við munum sjá svipað lið og í síðustu tveim leikjum.


Willy virðist búin að hirða sætið af Kepa, Rudiger-Christensen-Azpi mynda hafsentateymið, Reece James og Marcos Alonso vængbakverðir, Kovacic og Jorginho mynda miðjuna, Mount og Barkley (Willian gæti tekið stöðu Barkley) fá „Free roaming“ rullurnar fyrir aftan framherjann sem verður Olivier Giroud þar sem Tammy er einnig meiddur. Óþarfi að eyða orðum í bekkinn sérstaklega en vonandi sjáum við Ruben Loftus-Cheek á fá innkomu í leikinn.


A.F.C. Bournemouth

Ég er einn af þeim sem hefur verið svolítið skotinn í þessu liði síðan það kom upp í Úrvalsdeild 2015. Eddie Howe er líklegast einn lúðalegasti þjálfari deildarinnar en á sama tíma er ákveðin sjarmi yfir þessu öllu sem erfitt er að útskýra. Lítill klúbbur með lítinn völl að meika það í Úrvalsdeild „against all odds“ er eitthvað svo sjarmerandi og heillandi saga. Gengi þeirra á þessu tímabili hefur aftur á móti ekki verið upp á marga fiska og jafnvel gætu þeir endað í fallsæti eftir þessa umferð en þeir eru í harðri botnbaráttu og fyrir leikinn einungis með einn sigur á móti fjórum töpum í síðustu fimm og verðandi fimm töp í síðustu sex. Bournemouth hefur verið að rótera milli kerfa í síðustu leikjum en reikna má með að þeir fari í 4-3-3 gegn okkur með Ramsdale í markinu, Aké og Simon Francis mynda miðvarðapar með Adam Smith í hæri bak og Diego Rico í vinsti bak, Surman-Billing-Gosling mynda líklega þriggja manna miðju og fremstu menn verða Ryan Fraser og Wilson félagarnir Harry og Callum býst ég við.


Spá

Ég ætla ekkert að bregða útaf vananum með spánna en þetta verða örugg þrjú stig í hús. Ef leikmenn muna eftir afhroðinu úr fyrri leiknum sjá þeir til þess að við tökum þetta minnst 3-0 en ég spái þó sýningu frá okkar mönnum og við tökum þetta 4-0. Mason Mount byrjar þessa veislu snemma í fyrri hálfleik sem fær Bournemoth til að þurfa koma ofar á völlinn sem veldur því að allt opnast og Giroud mun setja knöttinn í netið sitthvoru megin við hálfleikinn áður en Reece James lokar þessu með stórglæsilegum þrumufleyg úr hægri bakverðinum. Þrjú örugg stig í hús!


KTBFFH

Comments


bottom of page