Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 3. febrúar kl 20:00
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Óhætt er að segja að það er alltaf eitthvað frétta í kringum Chelsea FC. Núna þegar við þreyjum þorrann, eru meiddir leikmenn að komast smátt og smátt nær vellinum. Nýjir leikmenn eru komnir og einn er farinn. Það verður að segjast, að stjórn félagsins hefur gert róttækar breytingar á félaginu á undanförnu ári. Nýir eigendur, ný stjórn, nýjir millistjórnendur og nánast nýtt lið! Í janúar komu níu leikmenn til félagsins. Þessir stjórnendur kalla ekki allt ömmu sína, og eru þau flestöll sannkallaðir úlfar frá Wall Street. Í krafti langtímasamninga við nýja leikmenn, hefur afskriftarverð í bókhaldinu orðið þess valdandi, að liðið hefur nú eytt einhverjum sex hundruðum milljónum punda í nýja leikmenn í tveimur viðskiptagluggum. Eðli málsins samkvæmt, þá heyrum við grátur og gnístan tanna frá nágrönnum okkar í Arsenal og stuðningsmönnum þeirra. Þeir voru sannarlega mjög spenntir fyrir Mikhaylo Mudryk, en þegar við buðum betur, og fengum hann að lokum, var hann ekkert neitt sérstakur lengur, í þeirra augum. Þetta bara gömul saga og ný. Gömul saga í þeim skilningi, að þetta er dæmisaga gríska heimspekingsins Ésóps um refinn og vínberin. Sama hvað refurinn reyndi, þá náði hann ekki til þeirra. Hann hætti við að lokum. Berin eru hvort eð er súr, sagði refurinn. Þennan tón má heyra í mörgum stuðningsmanna Arsenal, "Mudryk er ekkert það góður hvort eð er". Holdgervingur minnimáttarkenndarinnar, Piers Morgan, hefur farið hvað mest í þessu á twitter, og lenti nýlega í orðaskaki við John Terry. Hvet ykkur öll til að lesa það og brosa í kampinn.
Arsenal enduðu á því að kaupa Trossard frá Brighton í staðinn, og svo buðu þeir óvænt ágætt tilboð í Jorginho. Hlutirnir gerðust hratt, og var það fyrir tilstilli Mikel Arteta, að kaupverð var samþykkt upp á ca. 12 milljónir punda. Í ljósi þess, að Jorginho var að renna út á samningi, er óhætt að segja, að liðið fékk gott verð. Ég hef nú ekki miklu að kvarta yfir Jorginho. Hann skilaði fínni þjónustu fyrir klúbbinn. Aldrei meiddur, en gat alltaf tekið boltann og látið uppspilið tikka, ásamt því að vera býsna örugg vítaskytta. Hann bætist þá í hóp frægra manna eins og William Gallas, Willian, David Luiz ofl sem hafa farið frá Chelsea til Arsenal. Brottför Jorginho þýddi í raun að núna fóru hlutirnir að rúlla með kaupin á Enzo Fernandez. Behdad Eghbali sýndi þá og sannaði að hann er grjótharður við samningaborðið. Samkvæmt heimildum, þá stóðu viðræðurnar við Rui Costa og félaga í Benfica í um tólf klukkustundir við að koma Enzo til Chelsea. Það tókst að semja um að borga þessar 105 milljónir punda í nokkrum greiðslum. Eitthvað sem Benfica vildu fá í eingreiðslu, en allt kom fyrir ekki. Við sem klúbbur, máttum prísa okkur sæla með Marínu Granovskaia, en ég held að þessi ágæti Írani sé jafnvel enn betri! Á meðan hann var upptekinn að læsa dílnum við Rui Costa, áttu Hakim Ziyech og Omari Hutchinson að fara frá félaginu á láni. Omari átti að fara til West Brom, en Ziyech var mættur til PSG. Eitthvað klikkaði í pappírsvinnunni. Rangir pappírar voru sendir fyrir einhvern misskilning eða vankunnáttu. Kannski var Ross Barkley kominn til starfa á ný? Þetta er klúbbnum til vansa. Stjórnarmen PSG og Hakim Ziyech eru æfir. Það er ekkert sérstaklega gott, að ná ekki að losa um óánægða leikmenn.
Það er líklega ein helsta áhættan sem gæti steðjað að liðinu. Heyrst hefur að nokkrir leikmenn séu á „the chopping block“. Blaðamaðurinn Nizaar Kinsella hjá Evening Standard, hefur nefnt að Christian Pulisic, Hakim Ziyech, Eduoard Mendy, Ruben Loftus-Cheek, Conor Gallgher, Callum Hudson-Odoi, Pierre Emerick Aubameyang og Kalidou Koulibaly gætu verið seldir næsta sumar. Mason Mount fer líka bráðum að renna út á samning, og hann verður einfaldlega að standa sig betur ef hann á að fá þann launatékka sem hann óskar eftir. En eins og með allan annan fyrirtækjarekstur, þá verður óþægum starfsmönnum hent út við fyrsta tækifæri. Það má búast við sumarútsölu á Stamford Bridge.
En nóg um allt þetta! Núna kemur að því leik við Fulham. Á blaðamannafundinum í dag tilkynnti Potter að Ben Chilwell, Reece James, Raheem Sterling og Ruben Loftus-Cheek yrðu í hópnum. Þeir eru ekki klárir í 90 mínútur en munu líklega koma eitthvað við sögu. Wesley Fofana er byrjaður að æfa en verður ekki klár fyrr en í næstu viku. Pulisic, Kovacic, N‘Golo Kante og Broja eru meiddir. Það var ekki sérstaklega minnst á Edouard Mendy né Denis Zakaria, en líkast til voru þeir byrjaðir að æfa fyrir einhverju síðan. Það verður að teljast ólíklegt að Ziyech spili í ljósi þeirra skrítnu uppákomu varðandi vistaskiptin hans til Parísar. En aftur að leiknum. Við vorum grátlega lélegir á Craven Cottage, en verandi á heimavelli með nýju spennandi leikmennina okkar ættum við klárlega að gera tilkall til sigurs núna. Þrátt fyrir að það sé nánast ómögulegt að giska á liðsuppstillingu eða byrjunarlið hjá Potter, þá reikna ég fastlega með því að Kepa verði í markinu. Miðað við að Jorginho sé farinn og Kovacic sé meiddur, þá verður líklega þriggja manna varnarlína. Skjótum á Badiashile, Thiago Silva og Koulibaly (ef hann byrjar ekki – þá spilar votturinn og KK getur farið í frí til Senegal út leiktíðina). Cucurella í vinstri vængbakverði og Azpiluceuta í hægri vængbakverði. Enzo og Denis Zakaria verða á miðjunni. Mudryk og Mason Mount framarlega og Kai Havertz á topp.
Mín spá: Trúi ekki öðru en að við vinnum Fulham á heimavelli 2-0. Mudryk með bæði mörkin!
Að lokum vil ég svo minna sérstaklega á Blákastið. Nýr þáttur er væntanlegur í kvöld og þar verður kafað djúpt ofan í mál líðandi stundar. Nálgist á öllum helstu podcastveitum.
KTBFHH!!!
Comments