top of page
Search

Brighton á brúnni

Chelsea – Brighton


Keppni: Premier League

Tími og dagsetning: Laugardagur 15. apríl kl: 14.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport, Ölver og fleiri samkomustaðir

Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Það er aldrei logn í kringum Chelsea football club þessa dagana. Leitin að stjóranum heldur áfram. The Guardian segir frá því að Chelsea hafa talað við Ruben Amorim hjá Sporting, Julian Nagelsmann og Luis Enrique. Suður amerískir fjölmiðlar segja samt frá því að Marcelo Gallardo, fyrrverandi þjálfari River Plate í Argentínu hafi verið í samtalinu. Líklega eru það bara einhverjir umboðsmannapáfuglar að sperra fjaðrir, en það verður að segjast, að Gallardo lætur liðin sín spila sexý fótbolta. Hvet ykkur til að kynna ykkur Gallardo samt. Ritstjórn CFC samt áréttar það, að Luis Enrique sé rétti maðurinn á þessum tímapunkti.


Frank Lampard mátti þola sinn annan ósigur í röð sem „interim“ stjóri liðsins. Það má segja að hann stillti upp okkar sterkasta liði á pappír, þó undirritaður var nokkuð efins um leikkerfi. N‘Golo Kante kom inn á miðjuna og Faðir vor, Thiago Silva, kom í hjarta varnarinnar. Liðuppstillingin að þessu sinni var 3-5-2 með þá Raheem Sterling og Joao Felix upp á topp. Liðið fékk strax upplagt færi þar sem Felix komst í gegn á móti Courtois en allt kom fyrir ekki. Laflaust skot. Svo gerðist eiginlega ekkert meira í leiknum hjá okkur í sóknarleiknum þar til Mason Mount kom inn á í þeim seinni, og átti nokkuð hættulegt færi sem Antonio Rüdiger renndi sér fyrir á elleftu stundu og bjargaði Real Madrid fyrir horn. Fleira var ekki í fréttum í sókninni hjá Chelsea á Santiago Bernabéu.


Hinsvegar var nóg að gera hjá varnarmönnum liðsins. Vinicius Junior var eins og raketta upp vinstri kantinn sem setti Reece James og Wesley Fofana í stöðug vandræði, með þeim afleiðingum að Fofana var kominn á gult í blábyrjun leiks. Litla sem enga hjálparvörn var að fá hjá Raheem Sterling þarna, enda var hann á röltinu þegar hann missti af boltanum. Fyrir mér eru tvennskonar vandræði í gangi þarna. Í fyrsta lagi leikur Chelsea ekki eins og lið. Hvorki í vörn, né sókn. Það sést þegar menn slökkva svona á sér í varnarleiknum, sérstaklega hjá fremstu mönnum (tala nú ekki um varnarleikinn í seinna marki Real).


Varðandi sóknarleikinn, þá kemur það mjög oft fyrir að menn reyni of erfiða hluti, sóli sig í gegn, en eru stöðvaðir (Kai, Pulisic og Sterling sérstaklega slæmir að þessu leyti) eða menn taka barnalegar ákvaðarnir, sérstaklega Joao Felix. Hann gerist oft sekur um að skjóta úr vonlausu færi. Líkt og hann væri í bumbubolta í íþróttahúsi Snælandsskóla. Síðan var engin kemistría á milli Joao Felix og Sterling. Ákvarðanir inn á leikvelli við að dúndra boltanum úr öftustu línu á dvergana tvo frammi, bar auðvitað engan árangur. Það lagaðist örlítið þegar Kai kom inná, til þess að geta fært liðið upp, en okkur varð lítið ágengt. Leikurinn við Real Madríd endaði 2-0 og Chilwell fékk rautt spjald. Koulibaly meiddist og verður frá í nokkrar vikur. Vörnin var því komin í hallæri. Þetta verður því algjör brekka fyrir seinni leikinn – meira um það síðar.


Undirritaður er búinn að fá nóg af Raheem Sterling. Hann kom til liðsins, sem fyrstu kaup Todd Boehly að beiðni Thomas Tuchel. Sóknarleikurinn átti að vera einhverinar róteríng á fremstu þrem mjög flæðandi og spennandi. En því miður var Tuchel rekinn eftir fimm leiki, eða hvað það var. Sterling lítið getað gert síðan þá. Hann hefur þó fengið fullt af mínútum en ekkert sýnt af neinu ráði. Raheem Sterling kaupin minna mig eiginlega mest á eitt. Þegar West Ham undir stjórn Eggerts Magnússonar, fengu til sín Freddie Ljungberg, á sennilega alltof háum launum og líkega mjög saddan leikmann. Sterling er ekki gamall, en hann er með marga kílómetra á tankinum og er kannski ef til vill nokkuð saddur. Þetta eru hugrenningatengslin sem ég sé þegar Sterling labbar um völlinn og horfir á andstæðingin spila sig í gegnum miðjuna okkar. Núna er liðinn nógu langur tími frá kaupum, að við getum dæmt og eiginlega sagt að kaupin á Sterling voru flopp rétt eins og Ljungberg kaupin hjá West Ham voru flopp.


Framundan er leikur gegn Brighton. Síðustu viðureignir gegn þeim síðustu misseri hafa verið jafntefli og síðan þessi löðrungur þegar heimsóttum þá síðast. Sá leikur fór 4-1 – þar sem Roberto De Zerbi gjörsamlega pakkaði Graham Potter saman. Þrátt fyrir vera minna með boltann náðu Brighton 19 skotum að marki þar sem 15 þeirra voru innan okkar vítateigs. Roberto De Zerbi hefur fengið mikið lof frá öðrum knattspyrnustjórum, þar á meðal Pep Guardiola að undanförnu, fyrir góðan árangur og skemmtilegan fótbolta. Þeir sem þekkja ekki til, ættu að kynna sér feril De Zerbi, er hann bjó til Evrópulið úr litla Sassuolo á Ítalíu. Leikmenn Sassuolo urðu svo síðar burðarásar í liði Ítala sem unnu EM 2020 sælla minnninga. En líklega, til allrar hamingju, verður De Zerbi í banni í leiknum okkar. Brighton sitja í sjöunda sæti, reyndar með tvo leiki til góða. Ef þeir vinna þá leiki – þá eru þeir komnir í eltingaleik um fjórða sætið við Tottenham, Man Utd og Newcastle. Í síðasta leik gegn Tottenham voru þeir beinlínis rændir stigum af skelfilegri dómgæslu. Fyndið að hugsa til þess að Tottenham hafa grætt tvívegis á dómaraskandal á þessu tímabili, gegn okkur og núna Brighton.


Það er mjög erfitt að lesa í hvað Lampard gerir. Chukwuemeka, Koulibaly og Broja eru meiddir. Heldur hann við þriggja manna línu eða fer hann í fjögra manna línu? Spilar hann Mendy? Spilar hann Badiashile? Satt best að segja hef ég ekki hugmynd, en ég held ég þori að fullyrða, að farsælasta leikuppstilling Chelsea á þessu tímabili er 3-4-3. Allar tilraunir með 3-5-2, 4-2-3-1 eða 4-3-3 eru dæmdar til að mistakast. Ég hugsa að einhverjir leikmenn verða hvíldir fyrir seinni leikinn gegn Real Madrid. Þannig að í þetta skiptið ætlar undirritaður að stilla liðinu upp. Við erum íhaldssamir og veljum 3-4-3.
Í markinu verður Kepa. Reece James og Ben Chilwell verða í hægri vængbakvörðum. Í miðvörðum verða Badiashile, Thiago Silva og Azpilicueta (Chalobah kemur svo inná fyrir Reece James í seinni). Enzo verður áfram í liðinu, því hann virðist ekki þreytast. Með honum á miðjunni verður Mason Mount. Frammi verða Mudryk, Kai Havertz og Christian Pulisic. Reyndar finnst mér alveg líklegt að Aubameyang og Hakim Ziyech gætu fengið mínútur – þar sem Lampard þarf í raun að prófa allan hópinn hvort eðer.Ég er ekki sérstaklega bjartsýnn á nein stig hérna, en býst við því að þetta verði erfiður leikur. 1-1 verður líklega niðurstaðan. Mason Mount með markið.


Áfram Chelsea samt...

Comments


bottom of page