top of page
Search

Bayern vs. Chelsea - Lokaleikur Chelsea á tímabilinu - eða hvað?

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: laugardaginn 8. ágúst kl. 19:00

Leikvangur: Allianz Arena

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport, Sportbarnum Ölveri og víðar

Upphitun eftir: Þór Jensen


Chelsea spilar seinni leikinn í 16. liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Bayern München á útivelli næstkomandi laugardag. Fyrri leikur liðanna endaði með 0-3 sigri Bæjara á Brúnni þar sem okkar menn sáu aldrei til sólar gegn sterku liði Þjóðverjanna. Bayern er talið sigurstranglegt til að fara alla leið og vinna Meistaradeild Evrópu þetta árið líkt og flest önnur ár, en Þjóðverjarnir eru hungraðir að lyfta Evrópudollunni í fyrsta sinn síðan 2013. Chelsea menn sátu eftir með sárt ennið gegn Arsenal í úrslitaleik FA bikarsins síðustu helgi. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig okkar menn verða gíraðir í þennan erfiða útileik, því brekkan er svo sannarlega brött.


Chelsea

Í leiknum gegn Arsenal meiddust Azpilicueta, Pulisic og Pedro, og verður enginn þeirra með gegn Bayern á laugardag. Billy Gilmoure enn að jafna sig eftir aðgerð á hné. Þá er óvissa með hvort þeir Ruben Loftus-Cheek, Willian og Kanté, sem fengu engar mínútur gegn Arsenal vegna meiðsla, verði heilir og geti spilað gegn Bayern eða ekki, en ég tel það ólíklegt. Marcos Alonso og Jorginho verða í banni í leiknum, Marcos fyrir verðskuldað rautt spjald í fyrri leiknum og Jorginho fyrir uppsöfnuð gul.

Það er því ljóst að við verðum þunnskipaðir á laugardag og líklegt að við munum sjá einhver ný andlit - allavega á bekknum. Í þessari stöðu, með alla þessa leikmenn frá vegna meiðsla eða leikbanns, og 3-0 undir gegn einu sterkasta liði í heimi, á útivelli, myndi ég vilja sjá Lampard gefa mönnum mínútur sem við höfum ekki séð áður á þessu tímabili. Það yrðu gríðarlega mikilvægar Meistaradeildarmínútur í reynslubanka þessara ungu stráka, sem þeir munu byggja á allan sinn feril. Það væri gaman að sjá ný andlit fá einhverjar mínútur, eins og Faustino Anjorin og Armando Broja, en margir leikmenn úr unglingastarfinu hafa verið að æfa með aðalliðinu í undirbúningi leiksins í Bæjaralandi. Einnig væri óskandi að sjá Tomori fá einhverjar mínútur eða jafnvel byrja leikinn, en hann hefur fengið afar fáar mínútur undanfarið.

Eftir að hafa spilað síðustu 4 leiki með 3 hafsenta, með afar misjöfnum árangri, tel ég líklegt Lampard stilli upp sama kerfi gegn Bayern, sérstaklega þar sem Willian og Pedro eru meiddir, óvissa með Kanté og Ruben og Jorginho í banni. Þá verður Mount líklega færður upp á kantinn ásamt Hudson-Odoi, Barkley kemur líklega aftur inn í liðið inn á miðjuna með Kovacic. Þá trúi ég að Kepa komi aftur inn í byrjunarliðið, þar sem hann er nú enn leikmaður Chelsea og okkar besti markvörður þrátt fyrir allt.

Svona spái ég byrjunarliðinu:


F.C. Bayern

Þýsku Bundesligunni lauk þann 27. júní s.l. og síðan þá hafa Bayern spilað aðeins 2 leiki, bikarleik gegn Leverkusen 4. júlí og æfingaleik við Marseille þann 31. júlí og unnu Bæjarar báða leiki. Hvort að þessi mikla hvíld reynist góð eða slæm fyrir leikmenn Bayern verður að koma í ljós, en það verður að teljast nokkuð ljóst að okkar leikmenn hljóta að vera í betra leikformi en Þjóðverjarnir.

Bayern rústaði Bundesligunni að vanda og enduðu með 82 stig, 13 stigum á undan Dortmund í öðru sæti. Lewandowski er að sjálfsögðu markakóngur deildarinnar með 34 mörk í 31 leik en hann hefur skorað önnur 17 mörk í öðrum deildum (11 í Meistaradeild og 6 í Þýsku bikarkeppninni) og hefur því skorað 51 mark á tímabilinu 19/20 sem er tölfræði sem að leikmenn eins og Ronaldo og Messi væru stoltir af. Leikmenn og forráðamenn Bayern voru afar ósáttir við þá ákvörðun að blása Ballon d’or verðlaunaafhendinguna af, en þeir voru vongóðir um að Lewandowski myndi taka þann titil.

Lið Bayern býr yfir gríðarlegum hraða, með leikmenn eins og Alfonso Davies (sem átti stórleik gegn Chelsea í síðasta leik og hefur stimplað sig inn sem einn allra besti vinstri bakvörður í heiminum um þessar mundir), Joshua Kimich, Serge Gnabry og Kingsley Coman, sem er reyndar tæpur fyrir leikinn og vonandi fyrir okkar menn að hann nái ekki að vera með.

Ég spái 2-2 jafntefli í skemmtilegum leik, þar sem okkar menn sýna góðan sóknarleik en lélegan varnarleik, sem hefur verið handritið af okkar tímabili. Þetta verður mögulega síðasti leikur einhverra leikmanna eins og Kepa, Emerson og mögulega Ross Barkley. Leikurinn verður vonandi góð reynsla fyrir unga leikmenn og við leggjum vonandi línurnar í það hvað Chelsea mun gera á næsta tímabili.

KTBFFH

Comentarios


bottom of page