top of page
Search

Arsenal mæta á Stamford Bridge

Keppni: Premier league

Dag- og tímasetning: Miðvikudagur 20. Apríl kl 18:45

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. HelgasonFótboltaveislan heldur áfram og núna er það er risaleikur gegn Arsenal, þetta er frestaður leikur, sem útskýrir furðulega tímasetningu á þessum leik, það er afar sjaldgæft að svona stórir leikir séu leiknir í miðri viku. En okkar menn mæta í flottu standi inn í þennan leik eftir að hafa bókað miða í úrslitaleik FA bikarsins um liðna páskahelgi. Leikurinn gegn Palace var svo sem ekki mikið fyrir augað, þá sérstaklega fyrri hálfleikurinn. En mörk frá uppöldu leikmönnunum Ruben Loftus-Cheek og Mason Mount sigldu í höfn flottum sigri.


Mögnuð tölfræði, þetta er í fimmta sinn á síðustu sex árum þar sem Chelsea kemst í úrslitaleik FA bikarsins. Reyndar höfum við bara unnið einn af þessum fjórum síðustu og ef við töpum gegn Liverpool þann 14. maí þá verður það þriðja tapið í þessum leik í röð, eitthvað sem aldrei hefur gerst áður. En Tommi Tuchel mun ekki láta það gerast!


Að leiknum gegn Arsenal. Tuchel staðfesti á blaðamannafundi fyrir leik að Kovacic er meiddur og verður ekki með ásamt þeim Hudson-Odoi og Chilwell. Virkilega slæmt með Kovacic þar sem hann var búinn að vera okkar besti miðjumaður upp á síðkastið.


Ég held að Tuchel haldi áfram að vinna með þetta flæðandi 3-5-2 leikkerfi. Ég spái því að Reece James verði áfram í vörninni með Thiago Silva og Rudiger. Alonso verður vinstra megin og Ruben Loftus-Cheek kemur aftur í hægri vængbakvörðinn þar sem hann var stórkostlegur bæði gegn Southampton og Real Madrid.


Inn á miðri miðjunni verða svo félagarnir Kante og Jorginho. Ég held svo að Tuchel muni koma á óvart og hvíla Kai Havertz í þessum leik og spila þeim Mount, Werner og Lukaku. Hann gaf það svona örlítið í skyn á blaðamannafundinum að Lukaku ætti að fara byrja leiki en ef ekki þá verður Kai á sínum stað. Skulum heldur ekki gleyma að Havertz hefur spilað mjög mikið upp á síðkastið og var langt frá sínu besta gegn Palace.Arsenal

Mikel Arteta og hans menn koma inn í þennan leik með þrjá tapleiki á bakinu, allt gegn miðlungsliðum (Palace, Brighton og Southampton). Þeir voru búnir að koma sér í mjög góð mál og voru líklegasta liðið til að klófesta þetta fjórða meistaradeildarsæti áður en þetta skelfilega "run" þeirra fór af stað.


Fyrir mér eru Arsenal með spennandi lið. Þeir byggja liðið á ungum leikmönnum eins og Saka, Martinelli, Smith-Rowe, Odegard og Ramsdale. En að sama skapi er hópurinn þunnur og þeir þola afskaplega illa að vera án leikmanna eins og Thomas Partey og svo eru þeir í mikilli bakvarðarkrísu eftir meiðsli Tierney og Tomiyasu. Svo vantar þeim alvöru framherja eftir að Aubameyang fór í fýlu og Lacazette kallinn ekki búinn að finna sitt besta form.


Arsenal verða einfaldlega að vinna ef þeir ætla að halda sér í baráttunni, þannig að pressan er töluverð á þeim. Arteta lætur Arsenal spila fínan fótbolta, sem stundum er mögulega of krefjandi fyrir þennan tiltekna hóp. En við skulum heldur ekki gleyma að Arsenal vann báða leikina gegn okkar mönnum á síðsutu leiktíð en við rúlluðum yfir þá á Emirates í upphafi þessa tímabils.


Spá

Chelsea vélin verður í góðum gír og siglir heim 2-0 sigri. Werner og Lukaku með mörkin.


KTBFFH

- Jóhann Már Helgason

Comments


bottom of page