top of page
Search

Allt undir hjá Lampard gegn Fulham - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 16. Janúar kl 17:30 Leikvangur: Craven Cottage Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason

Knattspyrnuþjálfarar um allan heim notast oft við þann gamla frasa að næsti leikur sé alltaf sá mikilvægasti, jafnvel þótt allir vita að það sé endilega ekki raunin. Þegar Frank Lampard fékk leikjaniðurröðunina í hendurnar fyrir komandi tímabil er ég t.d. nokkuð viss um að hann hafi ekki pælt neitt sérstaklega í því hvenær Chelsea myndi spila gegn grönnum okkar í Fulham. En núna er þessi leikur líklega mikilvægasti leikur hans sem stjóri Chelsea. Því ef Super Frank tapar þessum leik, þá eru góðar líkur á því að hann verði hreinlega rekinn úr starfi - það er því allt undir hjá honum og liðinu.


Gengið hjá okkar mönnum er skelfilegt. Aðeins einn sigur í síðustu fimm leikjum í ensku Úrvalsdeildinni og 4 stig af 15 mögulegum segja sína sögu. Skyldusigurinn gegn fjórðu deildarliðinu Morecambe létti okkur örlítið lundina en betur má ef duga skal. Núna þarf liðið að byggja ofan á þann sigur.


Frank Lampard sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að allir leikmenn liðsins væru heilir heilsu en liðið verður þó án N'Golo Kante sem tekur út leikbann. Þannig það er úr mörgum leikmönnum að velja!


Ég geri fastlega ráð fyrir því að Mendy endurheimti sæti sitt í liðinu þrátt fyrir ágætis frammistöðu Kepa gegn Morecambe. Ég spái því að Reece James komi aftur inn í liðið og að Chilwell verði sömuleiðis í stöðu vinstri bakvarðar. Miðverðirnir verða svo Thiago Silva og Kurt Zouma - ekkert óvænt hérna.


Miðjan er aðeins flóknara viðfangsefni. Við vitum öll að Mason Mount mun byrja leikinn, það er gefið. En það er spurning hver leysir Kante af hólmi. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Billy Gilmour haldi sæti sínu í liðinu og skjóti þar með Jorginho ref fyrir rass. Ég reikna svo með að Kai Havertz verði svo þriðji maðurinn á miðjunni. Hann hefur verið að skána mjög upp á síðkastið og var flottur gegn Morecambe og átti einnig mjög góða innkomu gegn Man City.



Í framlínunni vil ég svo sjá Lampard vera samkvæman sjálfum sér. Callum Hudson-Odoi er líklega búinn að vera okkar sprækasti leikmaður undanfarnar vikur og hefur t.d. skorað 2 mörk og lagt upp önnur 2 í síðustu 4 leikjum. Hakim Ziyech á svo að byrja hægra megin og Ollie Giroud á að fá að byrja þennan leik. Christan Pulisic, Tammy Abraham og Timo Werner verða bara að sætta sig við bekkjarsetu í þessum leik og Lampard verður að þora að setja þá á bekkinn. Þó svo að Timo Werner hafi skorað gegn Morecambe fannst mér sú frammistaða ekki réttlæta byrjunarliðssæti á kostnað Giroud.


Fulham

Ég skal viðurkenna það að ég held pínulítið með Fulham og vonast til þess að þeir bjargi sér. Scott Parker er auðvitað með sterka Chelsea tengingu og svo er Loftus-Cheek auðvitað á láni hjá félaginu að ógleymdum Ola Aina sem er uppalinn í herbúðum Chelsea.


Vitandi að ég væri að fara skrifa þessa upphitun ákvað ég að horfa vel á leik Spurs vs Fulham þar sem sveinar Parker nældu sér í verðskuldað jafntefli. Ég skal bara viðurkenna það að Fulham heilluðu mig upp úr skónum og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Það er mikill kraftur í þessu liði en líka alvöru hæfileikar sem vert er að gefa góðan gaum. Mér fannst t.d. André Anguissa leika frábærlega á miðjunni og var að tengja vel við Loftus-Cheek. Þeir hafa svo frábæran markmann í Areloa.


Helsti styrkleiki þeirra undanfarnar vikur hefur hins vegar verið þessi taktíska breyting sem Scott Parker gerði á liðinu eftir mjög tapra byrjun á tímabilinu. Hann fór úr því að spila 4-2-3-1 yfir í að spila einhvernskonar 5-4-1/3-4-3 leikkerfi sem hefur bætt þá heilmikið varnarlega. Í þeirri breytingu tók Parker mjög stóra ákvörðun og setti varafyrirliða liðsins, Aleksandar Mitrović á bekkinn og byrjaði að spila Ivan Cavaleiro í fremstu víglínu. Fulham verða að sjálfsögðu án Loftus-Cheek þar sem hann má ekki leika gegn Chelsea og verða einnig án Tom Cairney sem er meiddur.


Spá

Fulham hefur núna gert fimm(!) jafntefli í röð og það gegn hörku góðum liðum eins og Liverpool, Spurs og Southampton. Þannig að þetta verður erfiður leikur gegn liði sem er þrjóskt og hefur ekki verið að leka mikið af mörkum. Ég hef samt trú á því að okkar menn rífi sig í gang og landi 2-1 sigri í spennuþrungnum leik þar sem Giroud og Ziyech skora sitt hvort markið.


KTBFFH

- Jóhann Már

bottom of page