top of page
Search

AC Milan - Chelsea á San Siro

Keppni: Meistaradeild evrópu


Tími - dagsetning: Þriðjudagur 11. október 2022 kl: 19.00


Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay og betri sportbarir landsins


Leikvangur: San Siro


Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson




Jæja gott fólk ! Nú er komið að seinni leik okkar heittelskuðu gegn AC Milan í riðlakeppni meistaradeildarinnar. Rétt vika er liðin frá fyrri leiknum sem við sigruðum með talsverðum yfirburðum, en "il Rossoneri" voru jú í miklum meiðslavandræðum, og við á okkar frábæra heimavelli, en samt verður það ekki tekið af okkar mönnum, að þeir spiluðu vel og sigurinn fullkomlega verðskuldaður. Okkar nýjasti varnarmaður, hinn ungi og bráðefnilegi Wesley Fofana, opnaði hinn fræga markareikning og kom Chelsea í foystu á 24 mínútu. En hann fagnaði stutt þar sem hann þurfti að yfirgefa völlinn meiddur á þeirri 38. Það var svo glæsimennið frá Gabon sem aflétti að ég held endanlega álögunum á níunni hjá Chelsea með fínu marki á 56. mínútu og skjóti köggullinn okkar, hann Reece James, rak svo endahnútinn á þetta með fínu marki á 61. mínútu og var svo valinn maður leiksins að auki.


Augljós batamerki sáust á leik okkar manna og virðist sem Mr. Potter hafi fundið leið til að virkja svolitla gleði og áræðni. Menn virtust vera mun öruggari með sig og það eru sannarlega góð tíðindi. Lið AC Milan var reyndar vængbrotið og vantaði marga kanónuna, m.a. Simon Kjær, Theo Hernández og Zlatan Ibrahimovic ,og ekki nóg með það, en sjálfur Messías var fjarri góðu gamni en fjári hlýtur að vera gott að hafa hann í sínu liði. Mér þykir það ekki skrítið að Mr. Potter vilji klófesta Rafael Leao frá AC Milan, en drengurinn er fáránlega ógnandi og yrði frábær viðbót við sóknarlínuna hjá Chelsea. Okkar besti Olivier Giroud reyndi hvað hann gat, en varð ekki ágengt gegn varnarlínu bláliða. Það er alveg á hreinu að annað verður uppi á teningnum í leiknum á morgun, AC Milan mun endurheimta nokkra lykilmenn á morgun og teflir fram sterku liði og koma Theo Hernandez og títtnefndur Messias inn í liðið. Fikayo Tomori mun byrja og Giroud og Leao verða á sínum stað. Ekki er ólíklegt að San Siro verði uppfullur af 80.000 gjörsamlega sturluðum Ítölum, svo okkar menn verða að hrista sig vel saman, ná sínum besta leik og hirða stigin þrjú og efsta sæti riðilsins. Bæði Chelsea og AC Milan eru með fjögur stig fyrir leikinn, einu stigi minna en RB Salzburg.





Chelsea


Staðan hefur stundum verið betri á leikmönnum Chelsea, en þó ætti að vera komið í mannskapinn allnokkuð sjálfstraust eftir síðustu leiki. Ólíklegt verður að segjast að síðasti leikur liðsins hafi tekið mikla orku. Við fengum Wolves í heimsókn og sýndum þeim öngva gestrisni og hirtum stigin þrjú með þriggja marka sigri. Þar sem Kai byrjaði og fannst ómögulegt annað en að fara marki yfir í hálfleik, en teygði sig fullangt inn í seinni og skoraði fínt mark á 3. mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks. Captain America skoraði svo mark á 54. mínútu og Mason Mount sá um að fóðra þá félaga á þessum mörkum. Talandi um Pulisic, þá hefði hann líklega getað skorað 3-4 mörk í leiknum. Hann gjörsamlega óð í færum en var fyrirmunað að nýta þau að fullu. Það var svo Albaninn Armando Broja sem kláraði dæmið með flottu marki á 89 mín. Flottur leikur hjá okkar mönnum og mér fannst ég sjá gleði, áræðni og ástríðu hjá liðinu og er það jákvætt. Graham okkar Potter er búinn að gefa það út að N'Golo Kante sé ekki enn leikfær og Fofana verður frá í allavega 4 vikur. Hakim Ziyech er með hálsbólgu og fær frí, en að öðru leyti held ég að sé talsverður kraftur og eftirvænting í okkar mönnum varðandi leikinn. Það er krafa að menn taki á honum stóra sínum og sýni okkur allar sínar bestu hliðar og haldi uppteknum hætti.


AC Milan


Hvað skal segja? Þetta lið hefur sýnt það og sannað að þeir eru til alls líklegir, og væri fásinna að ætla að vanmeta þá og miða seinni leikinn við þann fyrri. Það verður einfaldlega allt annað uppi á teningnum á San Siro og nánast örugglega uppselt á leikinn, þannig að róðurinn verður erfiður, en þeim mun meiri ástæða til fyrir okkar menn að berja sér á brjóst, gúffa í sig vel af pasta og hjóla í þá. Margir af lykilmönnum liðsins koma inn í liðið hjá AC Milan en Leao og Giroud verða fremstir í flokki og Theo Hernández kemur inn ásamt Messias. Tomori fær sénsinn aftur þó ekki hafi hann nú sýnt neina afburða takta í fyrri leiknum. Liðið átti leik við Juventus um liðna helgi, þar sem Theo var kominn aftur í liðið, og unnu þeir gömlu konuna frá Tórínó nokkuð örugglega, 2-0.


Byrjunarlið


Potter virðist vera svolítið í því að rótera og prufa en held að hann fari öruggu leiðina að þessu sinni. Kepa byrjar leikinn á milli stanganna, ætla að veðja á 3-4-2-1 og aftastir verða þeir Koulibaly, Silva og Chalobah og treysti á að liðið tapi ekki þar sem það hefur aldrei gerst þegar Chalobah byrjar. Vinstri wingback verður Chilwell og í miðju Kova þá Loftus Cheek og Reece James eignar sér hægri kantinn. þar fyrir framan lóna þeir Mason Mount og Kai Havertz og Auba mun dominera fremstur.




Spá


Þetta verður snúið og erfitt en endar held ég vel. Ég ætla að leyfa mér að spá okkur sigri 1-3 þar sem Mason mun setja eitt og ég held að Auba komi með 2 og jarði þessi álög níunnar fyrir fullt og allt. Mjöðmin segir mér að Leao muni klóra í bakkann fyrir AC Milan en lengra komist þeir ekki að þessu sinni. Gæti orðið brekka til að byrja með en svo opnast gáttirnar.



Góða skemmtun!


Commenti


bottom of page