top of page
Search

Chelsea vs Frankfurt - Úrslitaleikur að veði!Á fimmtudagskvöld taka Chelsea á móti Eintracht Frankfurt í síðari leik félaganna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Leikurinn er síðasti leikur Chelsea á Stamford Bridge á þessu tímabili og hefst hann kl 19:00.

Chelsea

Þau gleðtíðindi áttu sér stað um síðustu helgi að Chelsea tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Á meðan að Chelsea sigraði Watford að þá töpuðu bæði Arsenal og Tottenham sínum leikjum auk þess sem Man Utd gerði jafntefli. Þetta þýddi að Chelsea voru öruggir um sæti í deild þeirra bestu og er því takmarki tímabilsins að stórum hluta náð!


Leikurinn gegn Watford var, eins og margir aðrir leikir Chelsea, leikur tveggja ólíkra hálfleika. Watford voru mikið mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var það í raun bara Kepa sem hélt okkar mönnum inni í leiknum. En Chelsea setti heldur betur í gírinn í síðari hálfleik þar sem Loftus-Cheek og David Luiz skoruðu báðir eftir hornspyrnur frá Eden Hazard. Það var svo Gonzalo "Big Mac" Higauin sem skoraði þriðja og síðasta markið í frábærum seinni hálfleik. Það var líka gaman að sjá að Chelsea fumsýndu nýja búning félagsins í þessum leik, ég verð að viðurkenna að ég var ekki hrifinn þegar ég sá hann fyrst en hann óx á mig með hverri mínútunni í leiknum - ætli ég sé ekki bara búinn að taka hann í sátt.


Á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Frankfurt staðfesti Sarri okkar versta grun um að N'Golo Kanté væri tognaður aftan í læri og mun missa af síðustu tveimur leikjum tímabilsins og mögulega úrslitaleiknum, fari svo að Chelsea komist þangað. Kanté er því þriðji leikmaðurinn sem við missum í meiðsli á stuttum tíma, hinir tveir eru að sjálfsögðu Rudiger og Hudson-Odoi.

Ég held að Sarri muni spila Emerson í vinstri bakverði, þar fyrir utan er vörnin sjálfvalin með þá Christansen, Luiz og Azpilicueta. Loftus-Cheek, og Jorginho er einnig sjálfvaldir í liðið og ég ætla að typpa á að Kovacic spili í stöðu Kanté, Króatinn átti góðan seinni hálfleik gegn Watford. Framlínan verður svo líklega skipuð þeim Hazard, Giroud og Willian. Eintracht Frankfurt

Andstæðingar okkar fengu heldur betur á baukinn um liðna helgi. Liðið mætti þá Bayer Leverkusen á útivelli í þýsku Bundesligunni. Leikurinn endaði 6-1 fyrir Leverkusen og var staðan orðin þannig í hálfleik! Frankfurt var að hvíla fullt af mönnum í þessum leik og voru greinilega með hugann við leikinn gegn Chelsea.

Frankfurt munu fá einn af sínum bestu leikmönnum aftur í liðið frá fyrri leiknum því Ante Rebic er núna búinn að taka út leikbann og er því klár í bátana. Hann hefur verið spila fyrir aftan framherjanna í þessu 3-5-2 kerfi Frankfurt. Luka Jovic sýndi einnig í síðasta leik hvers vegna Real Madrid er reiðubúið að greiða 60 milljónir evra fyrir hann - David Luiz verður að spila betri vörna á hann í seinni leiknum.

Spá

Þeir sem hafa verið að fylgjast með undanúrslitum Meistaradeildarinnar vita að allt getur gerst í þessum Evrópubolta. Chelsea sýndu í fyrri leiknum gegn Frankfurt að við erum klárlega betra lið en þeir þýsku og vorum óttalegir klaufar að vinna ekki leikinn.

Staðan er eftir sem áður bara 1-1 og mikil gæði til staðar í framlínu Frankfurt. Okkar menn þurfa því að mæta með 100% einbeitingu til leiks og mikið væri nú gaman að fá frammistöðu þar liðið leikur við hvurn sinn fingur í báðum hálfleikjum leiksins!

Chelsea mun hins vegar sakna N'Golo Kanté mikið. Hann er límið á miðjunni hjá okkur og gríðarleg orka og hlaupageta tekin úr liðinu með meiðslum hans. Þetta verður því erfiður leikur sem Chelsea mun þó sigra að lokum 2-1 eftir framlengdan leik.

Að sjálfsögðu skorar Hazard sigurmarkið.

KTBFFH


bottom of page