top of page
Search

Leikmannahópur Chelsea á næsta tímabiliÞað er alltaf gaman að spá aðeins í spilin fyrir komandi tímabil og þá sérstaklega hvað gerist þegar leikmannaglugginn opnar. Chelsea eru reyndar í þeirri óvissustöðu að vita ekki hvort þeir megi kaupa leikmenn á næsta tímabili því eins og áður hefur komið fram er búið að dæma félagið í félagaskiptabann í næstu tvo leikmannaglugga. Það mál er núna í áfrýjunarferli hjá FIFA og á niðurstaða að liggja fyrir á næstu tveimur vikum (segja sumir miðlar). Fari svo að áfrýjunardómstóll FIFA staðfesti fyrri úrskurð aganefndar FIFA þá er ekki öll nótt úti enn. Chelsea getur þá áfrýjað dóminum til CAS (Court of Arbitration for Sport) sem er gæti bæði, frestað, mildað eða hreinlega snúið við dómi FIFA og yrði það þá lokaniðurstaða málsins. Leikmannaglugginn opnar formlega þann 1. júlí næstkomandi. Vonandi verður þá komin endanleg niðurstaða í þessi ósköp.

Til þess að koma með einhvera vitræna spá um það hvernig leikmannahópur Chelsea mun líta út á næsta tímabili þarf að setja dæmin upp í tvær sviðsmyndir (e. scenario planning). Sú fyrri verður sett upp m.v. þær forsendur að Chelsea þurfi að lúta dómi FIFA og fara í félagaskiptabann. Síðari sviðsmyndin er sett fram með þeim forsendum að Cheslea sleppi við félagaskiptabannið, a.m.k. næsta sumar.

Báðar þessar sviðsmyndir eru settar upp með þeim formerkjum að Eden Hazard yfirgefi Chelsea. Mér finnst það einfaldlega miklu líklegri niðurstaða en ekki. Ég vona auðvitað að það sé tóm vitleysa en það er betra að vera raunsær í svona skrifum.

Sviðsmynd 1. Félagaskiptabann

Fari svo að Chelsea megi ekki kaupa leikmenn má snúa dæminu á þann veg að núna sé gullið tækifæri til þess að gæfa ungu leikmönnum félagsins alvöru tækifæri til þess að blómstra. Það verða alltaf miklar breytingar á hópnum því leikmenn eins og Kovacic og Higuain munu snúa aftur til síns heima þar sem þeir eru á lánssamningi og ekki möguleiki á að halda þeim (sem betur fer segja sumir). Svo eru leikmenn eins og Giroud, David Luiz og Cahill samningslausir. Að lokum eru leikmenn eins og Zappacosta og Drinkwater líklega að fara frá félaginu þar sem þeir fá lítið að spila og eru langt frá því að vera nægilega góðir.

Svona myndi Komnir/Farnir taflan líta út:


Leikmannalaug (e. players pool) myndi líta svona út:


Þarna væru fimm ungir leikmenn að koma inn í hópinn, fjórir eru þegar í eigu félagsins og snúa til baka úr láni sá fjórði er svo Christan Pulisic sem Chelsea keypti í janúar sl.

Í þessu tilfelli myndi klúbburinn vera að setja mikið traust á herðar Tammy Abraham sem hefur farið hamförum með Aston Villa í Championship deildinni. Pulisic yrði þá einn af fjórum vængmönnum félagsins ásamt CHO, Willian og Pedro. Chelsea hefur þann valkost að framlengja við Giroud sem ég held að væri algerlega málið.

Á miðjunni myndi Chelsea fá inn Mason Mount sem er búinn að vera frábær undir handleiðslu Frank Lampard hjá Derby County, kappinn er ekki verri leikmaður en bæði Barkley og Kovacic og er klárlega ætlað stórt hlutverk í framtíðinni. Það er samt alveg spurning hvort það væri betra fyrir hann að fá eitt lán í viðbót hjá Úrvalsdeildarliði áður en hann byrjar að spila fyrir Chelsea.

Í vörnina kæmu svo þeir Kurt Zouma og Reece James. Zouma er búinn að eiga frábæran seinni hluta hjá Everton og er að mínu viti betri kostur en David Luiz. Reece James er svo eitt mesta efni Chelsea. Hann getur spilað bæði sem hægri bakvörður (hans besta staða) eða þá sem djúpur miðjumaður. Hann er búinn að vera besti leikmaður Wigan í vetur og sagði þjálfari liðsins að James væri búinn að vera maður leiksins hjá liðinu í öllum leikjum tímabilsins. Það kæmi mér ekki á óvart ef Reece James myndi slá Azpilicueta út úr liðinu á næsta tímabili.

Dómur: Myndi þetta ganga eftir er ljóst að Chelsea er með ungt og spennandi lið. Það er hins vegar staðreynd að þetta lið ætti ekki séns í Man City eða Liverpool. Það er mikil óvissa í framlínunni og risavaxið tómarúm sem Eden Hazard skilur eftir sig.

Þetta lið myndi áfram vera í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni - ekkert meira en það.

Sviðsmynd 2. Ekkert félagaskiptabann

Eins og ég kom inn á í fyrri sviðsmyndinni mun fullt af leikmönnum yfirgefa Chelsea á næsta tímabili. En ef Chelsea gæti keypt leikmenn þá ættu hirslurnar svo sannarlega að vera fullar af peningum hjá okkur mönnum eins og sést í Komnir/Farnir töflunni.

Chelsea þarf að byrja að eyða skynsamlega, það er miklu betra að kaupa einn heimsklassa 60 milljón punda mann í staðinn fyrir þrjá miðlungsmenn á 20 milljónir. Zappacosta, Emerson, Barkley, Drinkwater og Bakayoko eru allt dæmi um leikmenn sem eru miðlungsmenn og í raun keyptir til þess að sitja mest megnis á bekknum.

Í sumarglugganum er tækifæri til þess að losa sig við þessa slöku leikmenn og kaupa nokkra hágæða leikmenn og fylla upp í hópinn með ungum og efnilegum leikmönnum sem fá sín tækifæri.

Komnir/Farnir taflan myndi líta svona út:


Leikmannalaugin:


Eins og sést væri Chelsea að kaupa þarna fimm leikmenn og taka tvo til baka úr láni. Ég er að reyna vera mjög raunsær í þessum kaupum, því það er alveg gefið að Chelsea er ekki lengur sá klúbbur sem berst um allra stærstu nöfnin - því miður.

Þá á að vera í forgangi að kaupa framherja sem er "proven" markaskorari. Icardi hefur áður verið orðaður við framherjastöðu Chelsea ásamt Luka Jovic. Það þykir hins vegar líklegt að Jovic fari til Real Madrid. Icardi væri hins vegar frábær kaup, hann er ekki ósvipaður leikmaður og Diego Costa og hefur raðað inn mörkum hjá Inter á undanförnum árum. Hann lenti upp á kant við stjórn og stjóra Inter í vetur og eru allar líkur á að hann verði seldur. Chelsea er aldrei að fara kaupa leikmann sem er jafn hæfileikaríkur og Eden Hazard en við getum keypt leikmann sem skorar jafnmikið eða meira en hann - þess vegna er Icardi forgangsatriði. Tammy Abraham myndi svo veita honum góða samkeppni.

Samuel Umtiti er varnarmaður Barcelona og franska landsliðsins. Hann lék t.d. alla leiki Frakklands á HM og skoraði meira að segja sigurmarkið í undanúrslitum gegn Belgum. Eftir frábæra HM keppni meiddist Umtiti og missti sæti sitt í byrjunarliði Barcelona til Clement Lenglet. Það sem gerir það að verkum að Barcelona myndi líklega vilja selja Umtiti er sú staðreynd að liðið mun að öllum líkindum festa kaup á efnilegasta varnarmanni heims, Matthijs de Ligt. Þá væri Umtiti orðinn fjórði kostur, eitthvað sem hann mun aldrei sætta sig við.

Hinir leikmennirnir eru svo Nabil Fekir, Nicolas Pepe ásamt fyrrnefndum Pulisic. Ef Chelsea myndi ná að klófesta Nabil Fekir þá værum við komin með þennan stóra X factor á miðjuna. Ég veit vel að margir vilja sjá Loftus-Cheek spila alla leiki og blómstra en Chelsea verður að hafa breidd og gæði til að slást við lið eins og Man City og Liverpool. Man City hafa t.d. fimm frábæra miðjumenn - Chelsea spilar hátt í 60 leiki á tímabili og þess vegna þarf breiddin að vera í lagi.

Nicolas Pepe er svo leikmaður sem hefur slegið í gegn hjá Lille. Hann væri að mínu mati bara uppfærsla á Willian og gæti veitt Pulisic harða samkeppni um hægri vængmannastöðuna. Með CHO, Pulisic, Pedro og Pepe í vægnmannastöðunum og Icardi og Abraham sem framherja værum við komnir með alvöru vopnabúr fram á við - tala nú ekki um þegar menn eins og Loftus-Cheek og Fekir eru að spila á miðjunni!

Dómur: Þetta lið myndi líklega verða það þriðja besta í deildinni og gæti alla vega gert heiðarlega tilraun til þess að elta Man City og Liverpool í gæðum. Við myndum ekki sakna Hazard eins mikið því Icardi, Pulisic, Pepe og Fekir koma allir með gæði og mörk inn í liðið. Við myndum líka fá leiðtoga eins og Umtiti í vörnina sem veit hvað þarf til að vinna titla.

Ef Chelsea fær að kaupa leikmenn í sumar og heldur rétt á spilunum er ég sannfærður um að liðið fari aftur að berjast um stóru titlana.

KTBFFH


bottom of page