top of page
Search

Stórleikur á Old TraffordÁ sunnudag mun Chelsea gera sér ferð norður til Manchester til þess að etja kappi við Manchester United. Leikurinn hefst kl 15:30 og er í beinni á Stöð 2 Sport. Chelsea

Undirritaður skal glaður viðurkenna að hann hefur sjaldan eða aldrei verið jafn pirraður eftir að hafa horft á fótboltaleik eins og eftir leik Chelsea og Burnley á mánudagskvöld. Í fyrri hálfleik spiluðu Chelsea góðan sóknarleik en tókst samt að fá á sig tvö mörk úr föstum leikatriðum. Í síðari hálfleik fundu okkar menn aldrei taktinn sóknarlega og Burnley tókst að landa jafntefli með öllum tiltækum tafar-ráðum. Þessi hegðun Burnley manna fór verulega í taugarnar á okkar mönnum sem náðu ekki að halda "cool-inu" og því fór sem fór. Sarri kallinum var að lokum vísað upp í stúku og einhverjir pústrar voru á milli manna eftir leik. Eftir leikinn var Sarri ákærður af enska FA sambandinu og gekkst hann við refsingu sinni sem var 8 þúsund pund og ekkert leikbann (að mér skilst).

En þessi töpuðu stig gegn Burnley voru dýrkeypt því bæði Arsenal og Manchester United töpuðu sínum frestuðu leikjum í vikunni og hefðu Chelsea því verið í mjög góðri stöðu ef leikurinn gegn Burnley hefði unnist.

Það átti sér líka stað skelfilegt atvik í leiknum gegn Burnley er Hudson-Odoi missteig sig illa sem varð til þess að rifa kom á vinstri hásina hjá honum. Þessi meiðsli eru verulega slæm og eru allar líkur á að CHO verði frá í allt að 6-9 mánuði. Þetta er svakalega sorglegt því í þessum unga dreng höfum við arftaka Eden Hazard og var honum ætlað stórt hlutverk á næsta tímabili. Vonum bara að hann jafni sig sem allra fyrst og kroti svo undir nýjan samning í sumar.

Staðan í deildinni hjá okkar mönnum er engu að síður nokkuð góð. Chelsea er með 67 stig, stigi meira en Arsenal og þremur stigum meira en Man Utd. Ef okkar menn vinna síðustu þrjá leiki tímabilsins þá hirðum við þetta fjórða sæti - svo einfalt er það. Markatalan gæti líka ráðið úrslitum ef liðin byrja að misstíga sig en þar stendur Arsenal best að vígi með 23 mörk í plús á meðan Chelsea er með 21 mark í plús og Man Utd 13. Það er samt ekkert leyndarmál að Chelsea á erfiðasta leikjaprógramið eftir af þessum liðum og þess vegna þurfa okkar menn að sýna sínar bestu hliðar það sem eftir er af tímabilinu.


Ég ætla að að spá því að Sarri geri tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Ég held að Rudiger komi inn í vörnina á kostnað Christansen og að Willian komi inn fyrir meiddan Hudson-Odoi. Kanté þurfti að fara meiddur af velli gegn Burnley og Sarri staðfesti á blaðamannafundi að hann væri tæpur fyrir leikinn. Það er samt eitthvað sem segir mér að hann verði klár í slaginn og hvíli svo í leiknum í Evrópudeildinni gegn Frankfurt. Krossleggjum alla vega fingur og vonum að Kanté nái leiknum - hann er okkar mikilvægasti leikmaður ásamt Hazard. Ég væri persónulega alveg til í að sjá Giroud byrja en eftir markið sem Higuain skoraði gegn Burnley held ég að hann fái áfram traustið. Svo gæti Sarri aftur brugðið á það ráð að hafa "litlu" framlínuna, sem myndi þá þýða að Hazard yrði frammi og Pedro og Willian sitt hvoru megin á vængjunum.

Manchester United

Eftir að okkar maður, Jose Mourinho, fékk reisupassann frá Man Utd tók Ole Gunnar Solskjær við liðinu og fór strax á mikið flug. Ole vann hvern leikinn á fætur öðrum og sló einnig Chelsea og Arnseal út úr bikarkeppninni. Stærsta afrekið var svo klárlega þegar Man Utd sló PSG út úr Meistaradeildinni eftir lygilega endurkomu í seinni leiknum. Skömmu eftir kraftaverkið í París fékk Solskjær svo fastráðningu. Síðan þá hefur liðið strögglað verulega og draugar fyrri part tímabilsins aftur farnir að gera vart við sig. Paul Pogba virðist vera farinn aftur í fýlu og vill fara til Real Madrid, David De Gea er að eiga sínu verstu leiki í treyju Man Utd og svo hefur slokknað á leikmönnum eins og Rashford og Martial. Liðinu vantar svo sárlega leiðtoga í vörnina eins og Mourinho var búinn að kortleggja svo vel síðasta sumar. Allt ofantalið hefur gert það að verkum að Man Utd er búið að tapa sjö af síðustu níu leikjum sínum. Versta tapið var þó líklega á sjálfan Páskadag þegar Everton tók þá í kennslustund í Guttagarði og kjöldrógu Rauðu djöflana með fjórum mörkum gegn engu.

Á einu augabragði er komin pressa á Solskjær.

Ég hef séð nokkra leiki með Man Utd eftir að Ole Gunnar tók við liðinu og eitt er víst, liðið er gríðarlega óútreiknanlegt. Ekki bara andlega heldur hefur Solskjær verið duglegur að hræra vel í leikkerfum og leikaðferðum. Stundum pressa þeir andstæðinginn alveg í tætlur, stundum spila þeir mjög djúpt og verjast aftarlega. Stundum eru þeir með þrjá miðverði og stundum spila þeir meira að segja með tígul-miðju. Líklega er Norðmaðurinn að þróa sig áfram og reyna finna einhverja festu í leik sinna manna en þetta sífellda rót þýðir að liðinu skortir tilfinnanlega sitt einkenni (e. football identity).

Eitt er þó víst, það verða miklar breytingar á leikmannahóp Man Utd næsta sumar og eru næstum því allir leikmenn liðsins að spila upp á framtíð sína hjá klúbbnum.

Pælingar um leikinn og spá

Þrátt fyrir afleitt gengi Man Utd í undanförnum leikjum er ég ekkert alltof bjartsýnn. Rauðu djöflarnir eru búnir að tapa núna þremur leikjum í röð og ég efast um að leikmenn liðsins leyfi því að gerast að tapa þeim fjórða á Old Trafford. Man Utd munu mæta dýrvitlausir til leiks. Útivallarform Chelsea hefur líka verið afleitt á þessu ári, slíkt veitir manni ekki bjartsýni. Jafntefli væru ekki galin úrslit fyrir Chelsea, svo framarlega sem Arsenal myndi gera jafntefli í einum sínum síðustu leikjum (eiga erfiðan leik gegn Leicester um helgina) þá myndi okkar mönnum duga að sigra síðustu tvo leikina til að landa fjórða sætinu.

Sarri hefur nú þegar tapað fyrir Solskjær einu sinni og það á Stamford Bridge. Það þarf að sýna þessu Man Utd liði ákveðna virðingu, þeir eru með leikmenn sem geta galdrað fram mörk með einstaklingsframtökum á einu augabragði. Það versta sem getur gerst er að Man Utd skori snemma og geti svo leyft sér að liggja til baka og sækja hratt með Rashford upp á topp. Ég vil sjá Sarri verjast aðeins aftar en vanalega, líkt og hann gerði gegn Liverpool, Man City og Spurs. Ef Chelsea kemst yfir, þá líklega þarf Ole Gunnar að breyta sinni leikáætlun og byrja að hræra aftur í liðinu - það er eitthvað sem við viljum.

Ég ætla að spá 1-1 jafntefli í hörkuleik. Willian skorar fyrir Chelsea.

KTBFFH


bottom of page