top of page
Search

Risaslagur á Anfield



Chelsea mætir Liverpool á Anfield nk. sunnudag, leikurinn hefst klukkan 15:30. Þetta er sannkallaður risaslagur sem er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og má því búast við háu spennustigi og miklum látum.

Liverpool

Til að gefa þessari upphitun meiri vigt ákvað ég að fá einn grjótharðan stuðningsmann Liverpool til þess að fjalla um Rauða herinn. Sá heitir Vignir Örn Hafþórsson, ég gef honum hér með orðið:

Stærsti leikur tímabilsins að mínu mati framundan. Ef Liverpool vinnur þennan leik mun ég í fyrsta skipti á ævinni leggja pening undir á að Liverpool verði meistari. Það eru þó vondar minningar frá heimsókn Chelsea á Anfield í titilbaráttu, en síðast þegar Liverpool var í baráttunni mætti Móri ekki með rútu heldur flugmóðuskip á Anfield og kölski sjálfur greip um fætur Gerrard, það þarf ekkert að rifja þann leik meira upp fyrir lesendum þessarar síðu.

Þessi leikur á eftir að verða erfiður, engin spurning, Liverpool hefur ekki unnið Chelsea á Anfield síðan í maí 2012 þegar Jonjo Shelvey var meðal markaskorara. En þetta er líka besta Liverpool lið sem Chelsea hefur heimsótt í áratug. Klopp hefur í leikjum gegn stærstu liðinum verið að spila Wijnaldum, Hendo og Milner. Leikmenn sem pressa og verjast mjög vel en skapa ekki mikið fram á við kannski. Ég spái og vona flott spilamennska Fabinho tryggi honum byrjunarliðssæti með þá Wijnaldum og Henderson. Henderson hefur verið að koma vel inn í liðið framar á vellinum og myndi auka hættuna frá miðju til muna.


Restin af liðinu velur sig sjálf fyrir utan hvort Matip eða Lovren spili. Það verður þá besta bakvarðapar veraldar Trent og Andy, Van Dijk og Lovren í miðverðinum, Wijnaldum, Fabinho og Hendo á miðjunni. Mané og Bobby hvíldinni ríkari og svo auðvitað egypski konungurinn sem vill örugglega stinga snuði upp í ræflana sem urðu sér til skammar í Tékklandi.

Klopp var klárlega með hugann við þennan leik í meistaradeildinni en hann skipti Mané og Firmino út af í góðri stöðu á móti Porto til að gefa þeim smá hvíld. Liverpool á leik aftur í Portúgal á miðvikudag, en staðan í þeirri rimmu er þó þægileg og mun Klopp örugglega ekki hugsa mikið til þess leiks á sunnudag.

Ég þekki ekki alveg sveigjanleika stigið á Sarri en séð nokkra leiki með Chelsea í vetur. Lið hafa verið að reyna að spila 3-5-2 á móti Liverpool og hefur Chelsea spilað vel í því kerfi undir öðrum þjálfara og eru með góða miðverði. Ef þeir fara þá leið tel ég að leikurinn verði þungur og erfiður fyrir bæði lið og jafnvel endað 0-0. Ef Chelsea lætur vaða á Liverpool sem ég vona, gæti þetta orðið skemmtilegur leikur en einstaklings gæði Liverpool vonandi það meiri að sigur næst 2-0. Að meðaltali spái ég því að leikurinn fari 1-0 í leik þar sem Luiz verður á forsíðum blaðanna, einhverra hluta vegna.

Chelsea

Leikurinn gegn Slavia Prague á fimmtudagskvöld var verulega slakur. Segja má að sá leikur hafi endanlega sannað að Barkley, Kovacic og Jorginho geti ekki spilað saman á miðjunni og að Pedro og Willian skapa einfaldlega ekki nægilega mikla hættu án Hazard. Okkar menn voru gríðarlega flatir sóknarlega og vörnin var líka hálf tæp. En sigur vannst að lokum sem þýðir að okkar menn eru í frábærum málum fyrir seinni leikinn.

Sarri var augljóslega með hugann við Liverpool leikinn þegar hann stillti upp liðinu í Prag. Hazard, Kanté, Loftus-Cheek, Hudson-Odoi, David Luiz, Higuain og Emerson voru allir hvíldir og ættu því að vera ferskir í leiknum á sunnudag. Ég reikna með að allir þessir leikmenn komi inn í liðið, stærsta spurningin er hvort Higuain eða Giroud fái traustið, ég ætla að giska á að það verði Higuain þó ég vonist eftir því að það verði Giroud sem hefji leikinn.


Chelsea og Liverpool hafa þegar mæst tvisvar sinnum á þessari leiktíð. Fyrst vann Chelsea frækinn 2-1 sigur á Anfield í Carabao deildarbikarnum þar sem Eden Hazard skoraði magnað sigurmark og svo þremur dögum síðar á Stamford Bridge í deildinni þar sem Sturridge jafnaði með undramarki í uppbótartíma. Chelsea hafa því staðið sig vel í þessum tveimur leikjum gegn Liverpool og hafa báðir leikir verið mjög jafnir.

Ég á von á því að Sarri fari sömu leið og hann gerði í úrslitaleik deildarbikarsins gegn Man City. Ég held að hann láti liðið sitt verjast örlítið aftar en vanalega enda hefur kallinn vítin að varast eftir niðurlæginguna á Etihad vellinum fyrr í vetur. Fari svo að Sarri stilli upp okkar besta byrjunarliði með Loftus-Cheek og Hudson-Odoi fremsta í flokki ásamt Eden Hazard er ég handviss um að Chelsea geti veitt Liverpool skráveifu og mögulega unnið leikinn. Frammistöðurnar í leikjunum gegn Brighton og West Ham hafa sýnt að Sarri er á góðri leið með að finna réttu blönduna af leikmönnum til að spila kerfið sitt.

Það þarf samt að hafa í huga að þetta Liverpool lið hefur spilað sextán heimaleiki í deildinni og unnið fjórtán þeirra og gert tvö jafntefli. Með öðrum orðum þeir hafa ekki tapað leik á Anfield í deildinni og aðeins tapað 4 stigum af 48 mögulegum. Það er svakaleg tölfræði. Það þarf því akkurat allt að ganga upp hjá okkar mönnum ef Chelsea á að vinna þennan leik á sunnudag.

Spá

Ég er bjartsýnn á að Chelsea sýni góða frammistöðu en ég er ekki viss um hvort það muni duga til sigurs. Jafntefli væru alls ekki slæm úrslit þó Chelsea þurfi öll stigin þrjú í hinni erfiðu baráttu um sæti í Meistaradeildinni. Það er líka staðreynd að okkar mönnum gengur mjög illa í deildinni eftir að hafa spilað útileik í Evrópudeildinni, aðeins einn sigur í fimm slíkum leikjum. Ég ætla því að spá leiknum jafntefli.

Jói: 1-1 jafntefli.

Vignir: 1-0 sigur Liverpool manna.

KTBFFH


bottom of page