Chelsea mætir Everton á morgun á Goodison Park í Liverpool borg. Leikurinn er afskaplega þýðingarmikill fyrir okkar menn í baráttunni um Meistaradeildarsætið. Herlegheitin hefjast klukkan 16:30 og eru í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Chelsea
Á föstudag var dregið í 8. liða úrslit Evrópudeildarinnar og verður að segjast að Chelsea hafi dottið örlítið í lukkupottinn. Við drógumst gegn Slavia Prag sem að vísu slógu út sterkt lið Sevilla í síðustu umferð. Við sluppum hins vegar við að mæta liðum eins og Napoli og Arsenal og munum ekki mæta þeim fyrr en í úrslitunum því Chelsea mætir annað hvort Eintract Frankfurt eða Benfica í undanúrslitunum fari svo að við vinnum Slavia Prag.
Okkar menn gerðu virkilega góða ferð til Kiev á fimmtudagskvöld þar sem við gjörsamlega kjöldrógum heimamenn 5-0 í leik þar sem Olivier Giroud skoraði þrennu. Sarri róteraði mikið í leiknum og fengu leikmenn eins og Hudson-Odoi og Loftus-Cheek að spila allar 90 mínúturnar. Það má því fastlega gera ráð fyrir því að Sarri muni halda áfram að nýta hópinn til hins ýtrasta enda mikilvægt að dreifa álaginu á þessum tímapunkti tímabilsins.
Ég tel að Sarri muni gera sjö breytingar fyrir leikinn á morgun. Azpilicueta, David Luiz, Emerson, Barkley, Jorginho, Pedro og Hazard komi allir inn í liðið. Ég vona hins vegar innilega að ég hafi rangt fyrir mér og að Loftus-Cheek haldi sæti sínu í liðinu enda er miðjan mikið mun hættulegri með hann inni á vellinum í stað Barkley eða Kovacic. Sarri er hins vegar Sarri og hann mun að öllum líkindum byrja með Barkley. Það væri svo auðvitað skandall ef Giroud myndi missa sætið sitt eftir þrennuna gegn Dynamo Kiev, auk þess sem Higuain hefur verið að glíma við veikindi.
Andstæðingurinn
Everton hafa valdið vonbrigðum í vetur. Eftir brottreksturinn á Sam Allardyce var umtalsverð bjartsýni í herbúðum stuðningsmanna Everton. Þeir höfðu loksins fengið "sinn" mann til þess að taka við liðinu í hinum portúgalska Marco Silva. Þrátt fyrir háan launakostnað og mikið bruðl á leikmannamarkaðnum hefur Everton einfaldlega ekki náð að sýna þann stöðugleika sem ætlast til var af liðinu.
Sem stendur eru Everton í 12. sæti sem er langt frá þeirra markmiði um að enda í 7. sæti og reyna að berjast um Evrópusæti við eitthvað af stóru sex liðunum. Everton eru aukin heldur á slæmu skriði, hafa einungis unnið einn leik af síðustu fimm og töpuðu illa gegn Newcastle um síðustu helgi 3-2 eftir að hafa komist í 2-0 stöðu.
Okkar eini sanni Gylfi Sigurðsson er alger lykilmaður í liði Everton og hefur verið að draga vagninn fyrir þá í vetur, þrátt fyrir að hafa einnig fengið sinn skerf af gagnrýni. Gylfi og franski bakvörðurinn Lucas Digne hafa verið bestu menn Everton ásamt Idrissa Gueye sem er milill baráttumaður á miðsvæðinu. Þeir hafa svo einnig hinn brasilíska Richarlison sem getur verið algerlega frábær á sínum degi en dottið illa niður inn á milli.
Spá
Everton getur á sínum degi spilað hörku góðan fórbolta og Marco Silva er virkilega góður í að undirbúa sitt lið gegn stóru liði. Við sáum það síðast gegn Liverpool þar sem Salah, Mane og Co. tókst ekki að skora og einnig þegar við mættum þeim í fyrri leik liðanna í nóvember. Í leiknum á Stamford Bridge voru Gylfi og Richarlison að skiptast á að dekka Jorginho og vörðust mjög djúpt á vellinum. Leiknum lauk með markalausu jafntefli. Við megum líklega eiga von á svipaðir taktík á morgun og erfiðum leik.
Að lokum er svo vert að minnast á þá staðreynd að Chelsea er ekki með gott sigurhlutfall á leikjum í Úrvalsdeildinni eftir að hafa spilað í á fimmtudegi í Evrópu., aðeins einn sigur í fjórum leikjum.
Ég ætla að spá naumum 0-1 sigri þar sem Hazard nær að troða inn einu marki og vörnin að halda haus.
KTBFFH