Chelsea tekur á móti Wolves í þrítugustu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar nk sunnudag. Leikurinn hefst kl 14:05 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Félagaskiptabannið
Það dró heldur betur til tíðinda síðdegis í dag þegar aganefnd FIFA tilkynnti að nefndin hefði hafnað frystingu á félagaskiptabanni Chelsea á meðan áfrýjunarferlið stæði yfir. Verði þetta loka niðurstaðan mun Chelsea ekki geta keypt leikmenn í næstu tveimur félagaskiptagluggum. Þetta kemur gríðarlega á óvart, sérstaklega í ljósi þess að spænsku liðin Barcelona, Atletico og Real Madrid fengu heimild til þess að frysta bönnin sín á meðan að áfrýjuninini stóð.
Það er hins vegar ekki öll nótt úti enn því Chelsea getur skotið þessari ákvörðun FIFA til "Court of Arbitration for Sport". CAS, eins og það er jafnan kallað, er nokkur konar yfir áfrýjunardómstóll þvert öll alþjóða íþróttasambönd. Það liggur ekki fyrir á þessari stundu hver tímaramminn er hjá Chelsea að skjóta málinu til CAS en við munum fylgjast náið með því. Fari svo að Chelsea tapi áfrýjuninni hjá CAS myndi þetta bann setja gríðarlega aukna pressu á Eden Hazard að yfirgefa ekki félagið. Það er frægt að þegar Atletico Madrid lenti í sínu banni að þá neitaði Antoine Griezmann að fara frá félaginu þrátt fyrir að Barcelona væru búnir að fá tilboð samþykkt í kappann - hann gat ekki hugsað sér að skilja við félagið á þeim forsendum að þeir gætu ekki keypt leikmann í staðinn fyrir hann. Eden Hazard elskar Chelsea, það efast enginn um það, svo mögulega gæti þetta bann hjálpað félaginu í halda honum -eins galið og það kann að hljóma. Bannið myndi líka kalla á að leikmenn eins og Loftus-Cheek, Hudso-Odoi, Ampadu og jafnvel Abraham fengu stærra hlutverk í liðinu, kannski er þetta bann bara dulin blessun eftir allt.
Wolves
Úlfarnir, eins og þeir eru jafnframt kallaðir hér á landi, eru eitt af spútník liðum deildarinnar í ár. Þeir eru nýliðar en hafa spilað frábærlega það sem af er vetri og sitja sem stendur í 7. sæti deildarinnar. Það má því segja að þeir séu "bestir af restinni" eða besta lið deildarinnar fyrir utan toppliðin sex. Ég hef séð fjölmarga leiki með Wolves í vetur og það verður að segjast eins og er að þetta er virkilega vel spilandi fótboltalið með mjög skýr gildi og hver einn og einasti leikmaður þekkir sitt hlutverk hundrað prósent.
Nuno Espírito Santo, hinn portúgalski þjálfari Wolves, er að reyna fullkomna hið krefjandi verkefni að spila fótbolta að miklu jafnvægi. Liðið spilar alltaf sinn fótbolta og hann breytir litlu þó að andstæðingurinn sé sterkur eða veikur. Það segir margt um styrkleika Wolves að liðið er það eina fyrir utan topp sex liðin sem er með markatöluna í plús (37-35). Liðið spilar alltaf 3-4-3 og má sjá mjög svipað handbragð á liðinu og hjá Chelsea undir stjórn Antonio Conte. Liðið spilar eftir ákveðnum sendingarmynstrum, pressa ekki hátt upp en pressa mjög stíft á miðjum vellinum og varnarlínan reynir að staðsetja sig í svokallaðri "mid-block" sem er ekki of aftarlega en heldur ekki of framarlega - allt mjög svipað og Conte gerði hjá Chelsea með sama leikkerfi.
Wolves hefur á að skipa mjög hæfileikaríkum leikmönum sem margir hverjir voru keyptir eða fengnir að láni fyrir tímabilið. Raul Jiménez er búinn að slá í gegn en hann hefur skorað ellefu mörk og lagt upp önnur átta - geri aðrir betur. Miðja liðsins er einnig mjög sterk og samanstendur af portúgalska tvíeykinu Ruben Neves og Joao Moutinho sem báðir geta haldið bolta gríðarlega vel innan liðsins. Eins og flestir muna vann Wolves fyrri leik liðanna 2-1, okkar menn hafa því harma að hefna en við skulum ekki gleyma því að þetta Wolves lið er virkilega sterkt.
Chelsea
Segja má að Chelsea hafi endanlega losað sig úr þessari blessuðu lægð á fimmtudagskvöld með góðum 3-0 sigri á Dynamo Kiev. Sarri róteraði aðeins í liðinu og gaf Eden Hazard og N'Golo Kánté verðskuldaða hvíld. Loftus-Cheek og Hudson-Odoi þurftu hins vegar að bíða þolinmóðir á bekknum en komu loks inn í leikinn og breyttu heldur betur gangi mála. Loftus-Cheek átti þátt í tveimur síðari mörkum Chelsea og gerði frábærlega þegar hann lagði upp loka markið fyrir Hudson-Odoi. Maður getur ekki annað en vonað að Sarri brjóti odd af oflæti sínu og fari að spila þessum tveimur leikmönnum meira.
Ég spái byrjunarliði Chelsea svona:
Christansen mun væntanlega þurfa að fara aftur á bekkinn þrátt fyrir að hafa staðið sig vel í síðustu tveimur leikjum liðsins, held að Rudiger komi aftur inn í liðið. Emerson mun líklega fá kallið aftur, ég vona það alla vega þó Alonso hafi skánað í síðustu leikjum sem hann hefur spilað. Það er spurning hver fær að vera með Jorginho og Kanté á miðjunni, ég vona innilega að það verði Loftus-Cheek. Pedro hefur verið verulega sprækur í síðustu leikjum og fær áfram traustið með Hazard og Higuain.
Spá
Eins og fyrr segir er Wolves 7. besta lið deildarinnar um þessar mundir og við erum bara einu sæti ofar en þeir. Þetta verður því mjög strembinn leikur og enn ein prófraunin fyrir okkar menn. Núna erum við búnir að ýta okkur inn í meistaradeildarbatáttuna að fullum krafti, núna er að láta slag standa og klára þessi þrjú stig. Man Utd og Arsenal mætast innbyrðis þannig við verðum að klára okkar leik.
Spái 3-1 sigri þar sem Hazard setur tvö mörk.
KTBFFH