top of page
Search

Vestur LundúnaslagurEftir frábæran sigur á Tottenham á miðvikudagskvöld gera Chelsea sér stutta ferð yfir á Craven Cottage þar sem okkar menn mæta Fulham. Leikurinn er á sunnudag og hefst hann kl 14:05.

Síðasti leikur


Heimasigurinn gegn Spurs á miðvikudagskvöld var bæði kærkominn og mikilvægur, sérstaklega fyrir Maurizio Sarri. Aftur voru okkar menn agaðir og vorum við ekki með neina bullandi hápressu á Spurs. Chelsea var minna með boltann í leiknum (46%) og segir það ýmislegt um að Sarri er örlítið að þróa og breyta leikskipulagi Chelsea. Hin frábæra vefsíða whoscored.com tekur saman skemmtilega tölfræði um alla leiki ensku Úrvalsdeildarinnar. Á myndinni hér til hliðar er yfirlit yfir meðal leikstöður hvers leikmanns á vellinum (average position). Það sem er verulega áhugavert að sú vinnsla sem Pedro og Kanté eru að skila hægra megin á vellinum en þeir eru hreinlega með sömu meðalstöðu!

Annað sem er athyglisvert er að sjá hversu aftarlega Luiz og Rudiger spiluðu, ég skoða þessa tölfræði eftir hvern einasta leik og yfirleitt eru þeir mun framar. Þetta er til marks um það að leikur liðsins er að þróast, sérstaklega í þessum stóru leikjum.

Annað sem vakti athygli í þessum leik var að Sarri ákvað að standa með sjálfum sér og taka Kepa Arrizabalaga út úr liðinu eftir uppistandið á Wembley um síðustu helgi. Mér fannst þetta frábær ákvörðun og myndi jafnvel styðja það að Willie Caballero tæki annan leik milli stanganna, held samt að svo verði ekki.

Bestu leikmenn Chelsea í leiknum voru Pedro, N'Golo Kanté, Alonso og svo miðverðirnir báðir. Ég verð að segja að Kanté er farinn að líta alveg svakalega vel út í sínu nýja hlutverki, boltinn flýtur betur í gegnum hann og svo er hann algerlega óstöðvandi í varnarleiknum hjá okkur, eltir upp alla bolta og lokar svæðum betur en nokkur annar með sinni ótrúlegu hlaupagetu. Hvað sem menn segja um stöðuna sem Kanté spilar, að þá er eitt á hreinu, Sarri er búinn að gera Kanté að betri leikmanni.

Andstæðingurinn

Okkar eini sanni Claudio Ranieri fékk sparkið í gær (fimmtudag) eftir verulega dapurt gengi undanfarnar vikur. Fulham hafa aðeins unnið einn leik á árinu 2019 og það í átta tilraunum. Er þetta annar þjálfarinn sem Fulham reka á þessu tímabili því Slavisa Jokanovich fékk sparkið fyrr á tímabilinu. Við starfinu tekur Scott Parker en það ansi merkilegt að allir þjálfarar Fulham á tímabilinu hafa sterka Chelsea tengingu og var það Ranieri sem keypti Parker til Chelsea á sínum tíma.


Parker býður ansi erfitt verk fyrir höndum, Fulham er í næst neðsta dæti deildarinnar með 17 stig í 28 leikjum, 10 stigum frá öruggu sæti. Eru það gríðarleg vonbrigði fyrir lið sem ætlaði sér að enda í topp tíu efstu sætunum þegar tímabilið hófst. Liðið eyddi yfir 100 milljónum punda í nýja leikmenn sl. sumar. Mörg þekkt nöfn komu til Fulham, leikmenn eins og Jean Seri, Andre Schurrle og Alfie Mawson, allir eiga þessir leikmenn það sameiginlegt að hafa valdið töluverðum vonbrigðum.

Helsti höfuðverkur Fulham á tímabilinu hefur verið afleiddur varnarleikur, liðið er með langverstu vörnina og hafa fengið á sig 63 (!) mörk það sem af er tímabili. Þeir hafa ekki fundið neinn stöðugleika í vörninni og hafa t.d. þrír markmenn varið mark liðsins á þessu tímabili. Fram á við er liðið ágætlega hættulegt með leikmenn eins og Mitrovic og Ryan Babel. Það flækir klárlega undirbúning Chelsea að þetta er fyrsti leikur Scott Parker með liðið og hefur Sarri því lítið að styðjast við í greiningu sinni á andstæðingnum.

Chelsea

Okkar menn hafa verið í miklu leikjaálagi undanfarna daga og því er mikilvægt að Sarri róteri vel í liðinu. Það eru allar líkur á því að Sarri verði íhaldssamur sem aldrei fyrr en ég ætla þó að vona að liðið verði eitthvað í þessa átt.


Emerson á skilið að koma aftur inn í liðið á kostnað Alonso, mér finnst mjög líklegt að Barkley fari beint í liðið en vonast til þess að Loftus-Cheek fái traustið. Svo vona ég innilega að Hudson-Odoi fái að byrja þennan leik með Hazard og Higuain frammi, þá væru Willian og Pedro ferskir fyrir leikinn gegn Dynamo Kiev. Það er hreinlega spurning hvort ég vilji ekki sjá Giroud í byrjunarliðinu en finnst líklegt að Higuain fái áfram traustið, þrátt fyrir daprar frammistöður undanfarið.

Spá

Það er þekkt fyrirbæri í fótbolta að leikmenn finni einhverja orku og ákveðinn núllpunkt þegar nýr þjálfari tekur við liði, það klárlega flækir þennan Fulham leik fyrir okkar mönnum. Hins vegar er þetta lið með afskaplega lítið sjálfstraust og ef Chelsea tekst að skora snemma gætu Fulham menn brotnað ansi illa. Chelsea mega því ekki sýna neina miskunn og keyra mjög fast á Fulham frá fyrstu mínútu. Ég vona innilega að bæði Hudson-Odoi og Hazard verði í byrjunarliðinu, þannig værum við með leikmenn sem gætu keyrt á þessa Fulham vörn af fullum krafti.

Spái 1-2 sigri í leik sem verður erfiðari en margir halda.

KTBFFH


bottom of page