top of page
Search

Heimsókn á Selhurst ParkChelesa heimsækir nágranna sína í Crystal Palace í hádeginu á sunnudag og hefst leikurinn kl. 12.00 á hádegi og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Við unnum mjög góðan sigur gegn Watford á erfiðum útivelli á þriðjudag, þar sem Hazard sá í raun um að innbyrða sigurinn fyrir okkur. Hann átti mjög góðan leik í þessari nýju stöðu sinni sem "fölsk nía" á meðan Oliver Giroud sat allan tímann á bekknum og Morata var ekki einu sinni valinn í hópinn þrátt fyrir að vera búinn að ná sér af meiðslunum. Liðið var óbreytt frá tapleiknum gegn Leicester og kom það nokkuð á óvart, en mjög mikilvægur sigur vannst gegn liði sem hefur verið á ágætu skriði í deildinni. Það er ljóst að það verða breytingar á sunnudag því Pedro meiddist í leiknum og verður ekki í leikmannahópnum og einnig meiddist Hudson-Odoi sem leysti hann af hólmi, báðir með tognun aftan í læri. Meiðsli Odoi eru þó minni háttar og einhverjar líkur eru á að hann verði í hóp.


Þá kemur Loftus-Cheek aftur inn í hópinn en hann missti af Watford leiknum vegna smávægilegra meiðsla. Sarri sat fyrir svörum á blaðamannafundinum í dag og gaf þar sterklega í skyn að Hazard myndi áfram leika sem fremsti maður, hefði spilað þar 4 leiki, skorað í þeim 3 mörk og lagt upp 2 og hann væri hæst ánægður með hans frammistöðu. Flestir fjölmiðlar höfðu gert ráð fyrir að Giroud komi aftur inn í liðið þar sem Pedro er meiddur og Hazard færi í sína fyrri stöðu á kantinum. Það er þó ólíklegt. Sem sagt ein breyting til komin vegna meiðsla. Perónulega hefði ég viljað sjá Giroud frammi og Loftus-Cheek inni á miðjunni og gefa Jorghino frí, en hann hefur verið fremur slakur í síðustu leikjum.

Crystal Palace En þá að lærisveinum King Roy. Þeir sitja í 14. sæti deildarinnar með 19 stig. Þeir unnu frábæran sigur á meisturum Man. City á útivelli fyrir jól, en gerðu síðan marklaust jafntefli við Cardiff á heimavelli núna á miðvikudag. Chelsea vann fyrri leikinn gegn þeim á Brúnni í nóvember 3-1 þar sem Morata skoraði 2 mörk og hefur held í ég ekki skorað í deildinni síðan. Hann verður vonandi á bekknum á sunnudag og fær kannski tækifæri. Selhurst Park hefur oft reynst Chelsea erfiður völlur. Í fyrra töpuðum við þarna 2-1 en það var fyrsti leikur King Roy með liðið sem þá hafði tapað 7 leikjum í röð og ekki skorað mark. Liðið er skipað mörgum sterkum leikmönnum, þar er fremstur Wilfried Zaha sem er Palace jafn mikilvægur og Hazard okkur. Verðum að hafa góðar gætur á honum. Flestur leikmenn liðisins eru klárir að undanskyldum Cristian Benteke sem er í langtímameiðslum eins og venjulega.

Í lokin er rétt að fara aðeins yfir umræðuna um félagaskiptagluggann sem opnast eftir 4 daga. Tveir leikmenn hafa einkum verið í umræðunni, Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain lánsmaður AC Milan og Frakkinn Nabil Fekir. Ef þessir leikmenn eru fáanlegir er það engin spurning í mínum huga að þeir myndu báðir styrkja liðið mikið. Higuain er markaskorari af guðs náð, er að vísu orðinn 31 árs en ég held að hann myndi nýtast okkur mjög vel. Um hinn eru flestir sammála, mjög sterkur leikmaður á besta aldri 25 ára, en hann mun væntanlega kosta skildinginn. Svo ba´rust fréttir seint í gærkvöldi frá miðlinum Bild í Þýskalandi að Chelsea hefði náð samkomulagi við Christian Pulisic um kaup á leikmanninum næsta sumar. Aðrir miðlar birta svo fréttir af því að Pulisic vilji frekar fara til Liverpool - þetta er mjög óljóst. Spáin: Ætla að spá okkur 0-1 sigri í erfiðum leik. Finnst kominn tími til að halda einu sinni hreinu og þá dugar eitt stykki. Eigum við ekki bara að segja að Morata komi af bekknum og setji þetta eina.

Come on you blues!


bottom of page