top of page
Search

Chelsea fær besta lið Englands í heimsókn



Þau eru erfið fjöllin, þau eru brött - þannig er einhvernveginn hugarástandið á Chelsea liðinu um þessar mundir. Sjálfstraustið hefur minnkað og leikur liðsins dalað til mikilla muna. Akkurat þá neyðumst við til þess að taka á móti meisturunum í Manchester City. Leikurinn er á laugardag og hefst hann kl 17:30.

Manchester City

Það er oft sagt að það sé erfiðara að verja titil en að vinna hann. Pep Guardiola tekur greinilega ekki mikið mark á slíkum fullyrðingum og virðist vera að storma í átt að öðrum titli. Það er mitt mat að þetta lið sem Pep hefur skrúfað saman er líklega það besta í sögu Úrvalsdeildarinnar. Þeir hafa hér um bil enga veikleika en hafa að sama skapi leikmenn sem geta unnið leiki upp á eigin spýtur, þeir hafa mikla breidd og það sem er mikilvægast af öllu, þeir hafa liðsheild.

Það segir eflaust sitt að þeirra besti maður, Kevin De Bruyne er nánast ekkert búinn að spila á þessari leiktíð. Samt er liðið búið að vinna 13 af 15 leikjum sínum í deildinni og aðeins búið að gera tvö jafntefli. Jafnvægið milli sóknar og varnar er líka ógnvænlegt, þeir eru að skora 3 mörk að meðaltali í leik og fá aðeins á sig 0,5 mörk. Þetta er auðvitað sturluð tölfræði.


Þeir sem hafa lesið cfc.is í dágóðan tíma vita ég hef mikið dálæti á Pep Guardiola og hans leikstíl. Það sem gerir hann líka einstakan er að hann vinnur með leikmönnum og gerir þá betri. Honum hefur t.d. tekist að gera Raheem Sterling að einum besta leikmanni Úrvalsdeildarinnar og leikmenn eins og Stones, De Bruyne, Laporte, Otamendi og Sane hafa dýpkað leik sinn undir stjórn Guardiola.

Það eru einhver meiðsli á hrjá Man City fyrir þennan leik. Fyrir utan De Bruyne eru bæði Mendy og Aguero líklega frá í þessum leik. Einvherjir miðlar segja þó að Aguero gæti mögulega tekið þátt í leiknum en flestir gera ráð fyrir að svo verði ekki - munar þar um minna!

Chelsea

Leikurinn gegn Wolves var alveg stórfurðulegur. Eftir ágætan fyrri hálfleik þar sem Chelsea virtist vera með fína stjórn á aðstæðum buðu okkar menn upp á hreina hörmungar frammistöðu í seinni hálfleiknum. Á fjögurra mín kafla tókst Wolves að skora tvö mörk sem virtust slá allan vind úr seglum okkar. Sarri var ómyrkur í máli eftir leik, sakaði leikmenn sína um að vera einum of sjálfstraustir og var verulega óhress með að liðið skildi ekki hafa sínt neinn baráttuanda í að koma sér aftur inn í leikinn. Það hefur nefnilega verið eitt af aðalsmerkjum okkar í vetur, að skora seint og gefast ekki upp. Því var ekki að skipta í leiknum gegn Wolves.

Pressan er að aukast á Sarri og ég velti aðeins fyrir mér orðum hans í upphafi leiktíðar. Þar bað hann um tíma til þess að geta innleitt sinn leikstíl. Chelsea byrjaði tímabilið mjög vel og stigasöfnunin var framar okkar björtustu vonum. Svo hefur núna hægst verulega á öllu og frammistaðan versnað til mikilla muna. Í byrjun leiktíðar var frammistaða Chelsea fyrst og fremst knúin áfram af Eden Hazard og hans ofurmannlega formi. Við áttum líka frekar létt prógram til að byrja með. Eftir að Hazard hefur meiddist hefur hann engan veginn verið nálægt sínu besta formi og var aftur slakur gegn Wolves, hann hefur núna ekki skorað í 7 leikjum í röð. Á sama tíma eru lið að læra meira inn á Chelsea, þ.e. að sitja pressu á Jorginho og reyna að láta miðverðina okkar vera eins mikið á boltanum og hugsast getur. Allt framangreint hefur skilað sér í núverandi stöðu auk þess sem 65 milljón punda framherjinn okkar er búinn að vera gjörsamlega hörmulegur í fjölmörgum leikjum.

Svo að Chelsea fari að spila vel aftur þarf Hazard að finna sína fjöl aftur, hann er bara það mikilvægur. Einnig þurfa aðrir menn að stíga upp og taka meiri ábyrgð, einn leikmaður hefur svo sannarlega gert það, hann Loftus-Cheek, sem að sjálfsögðu "skoraði" í leiknum gegn Wolves. Fleiri þurfa að fylgja hans fordæmi, leikmenn eins og Willian, Pedro, Kovacic, David Luiz, Alonso og Barkley þurfa einfaldlega að skila betri frammistöðum og það strax.

Ég held að liðið verði svona gegn Man City:


Eins og leiðinlega og það kann að hljóma að þá held ég að Loftus-Cheek verði á bekknum í þessum leik. Hann hefur spilað mikið að undanförnu og mögulega kallar þessi leikur á meiri varnarskyldu að hálfu miðjumannanna og því líklegt að Kovacic fá traustið.

Pedro, Luiz og Giroud koma líklega allir inn í liðið og verður þetta því nokkuð hefðbundið.

Spá

Ég er ekki bjartsýnn. Guardiola er mikill aðdáandi Sarri og er það sökum þess hve djarft hann spilar, jafnvel þegar andstæðingarnir eru sterkari en hann sjálfur. Napoli, undir stjórn Sarri, lék tvisvar sinnum gegn Man City á síðasta tímabili. Man City vann báða leikina, annars vegar 2-4 og hins vegar 2-1. Leikirnir voru mjög opnir og skemmtilegir á að horfa.

Ég veit satt best að segja ekki hverju ég á von á fyrir morgundaginn, allt bendir til þess að Man City eigi eftir að taka okkur í bakaríið, þeir eru á svaka skriði á meðan við erum að ströggla. Sarri mun ekki leggjast í neinar skotgrafir og sækja að fullum krafti á vörn City. Eins fíldjarft og það hljómar að þá virðist það vera það eina sem hefur virkað gegn Man City því Lyon hafa heldur betur látið þá finna til tevatnsins í Meistaradeildinni með því að sækja á þá á fullum krafti. Lyon tókst að vinna City 2-1 á Etihad vellinum og gera svo 2-2 jafntefli í Frakklandi í tveimur frábærum fótboltaleikjum.

Okkar menn munu þurfa að kafa djúpt til þess að ná einhverju úr þessum leik. Allir þurfa að eiga stórleik og engin mistök eru leyfð. Því miður eru okkar menn ekki á þeim stað núna að geta náð fram slíkri frammistöðu.

Í fyrsta sinn á þessari leiktíð spái ég okkar mönnum tapi - Man City taka þennan leik 0-2.

KTBFFH


bottom of page