top of page
Search

Cardiff, Evrópudeildin og pælingar


Fyrir tæpum tveimur vikum var dregið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Okkar menn drógust í L riðil og voru nokkuð heppnir með riðil en hann lítur svona út:


Chelsea hefði getað mætt mun sterkari andstæðingum í bæði öðrum og þriðja styrkleikaflokki en tókst að forðast lið eins og Fenerbache, Marseille, AC Milan, Leipzig og Sporting. PAOK er þokkalegt lið sem enduðu í 2. sæti í grísku Super League deildinni á síðasta tímabili, BATE Borisov þekkjum við Íslendingar ágætlega enda bæði Valur og FH spilað á móti því liði í Evrópukeppnum á undaförnum árum. Ungversku meistararnir Mol Vidi FC eru svo áhugavert lið – þar eru nýir eigendur sem hafa dælt pening í liðið og meira segja breytt um nafn! Öll þessi lið eiga samt ekki að vera erfið þraut fyrir okkar menn, jafnvel þó Sarri taki upp á því að hvíla 7-8 leikmenn í hverjum leik sem ég tel líklegt að verði raunin. Það er erfitt að spila á fimmtudögum og svo strax aftur á laugardegi eða sunnudegi því verður Sarri að nota hópinn og leyfa mönnum eins og Loftus-Cheek, Hudson-Odoi og Ampadu að spila fullt af mínútum í þessari keppni.

Fyrstu fjórir leikirnir

Byrjun Chelsea hefur verið framar björtustu vonum, ekki síst í ljósi þess að Sarri sjálfur var búinn að búa stuðningsmenn liðsins undir erfiða byrjun þar sem innleiðing á leikstíl hans gæti tekið 2-3 mánuði. Því hefur ekki verið að skipta og hefur Chelsea spilað virkilega góðan og sókndjarfan fótbolta hingað til og unnið alla sína 4 leiki. Það sem meira er, af þessum fjórum leikjum sem spilaðir hafa verið vannst aðeins einn þeirra á síðasta tímabili. Chelsea tapaði bæði fyrir Newcastle úti og Bournemouth heima og gerði jafntefli heima við Arsenal á síðustu leiktíð - þannig nú þegar er komin umtalsverð bæting m.v. árið í fyrra.

Fyrsti leikurinn gegn Huddersfield var vafalaust sá auðveldasti en Chelsea var með mikla yfirburðu í þeim leik ef undan eru skildar fyrstu 15-20 mínúturnar. Því næst kom Arsenal leikurinn sem var krefjandi – þar reyndi mikið á varnarleik Chelsea sem var oft á tíðum skrautlegur, sérstaklega seinni part fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik spilaði Chelsea mun betur sigraði leikinn sanngjarnt að mínu mati. Leikirnir gegn Bournemouth og Newcastle voru svo keimlíkir þar sem andstæðingar okkar stilltu upp í 5-4-1 og lágu mjög aftarlega á vellinum. Það þarf mikla þolinmæði í slíka leiki, sérstaklega ef okkar mönnum tekst ekki að skora snemma og brjóta þannig upp leikinn. Þetta er raunveruleiki sem Chelsea þarf núna að lifa við, lakari lið munu reyna að verjast til sigurs og í raun vera sátt við jafntefli þegar þau mæta á Stamford Bridge. Það sem ég vil sjá meira af í næstu leikjum er hraðara spil og meiri hreyfanleiki án bolta hjá fremstu þremur mönnunum og tveimur framliggjandi miðjumönnunum – Sarri hefur sjálfur talað um að vilja sjá meira tempó spilið, vonandi kemur það með tíð og tíma.

Pælingar

  • Ég er enn þá að meta Kepa Arrizabalaga. Hann er mjög góður í fótunum og á auðvelt að spyrna hárnákvæmum 25-30 metra sendingum út á bakvörð eða miðjumann, það er gaman að sjá. Hins vegar hefur ekki það mikið reynt á hann í öðrum þáttum leiksins. Persónulega fannst mér hann eiga að verja skotið frá Mkhitaryan í leiknum gegn Arsenal en fyrir utan það er erfitt að leggja mat á frammistöðuna hans. Hann er hins vegar búinn að halda hreinu tvisvar í fjórum leikjum sem er býsna gott og þetta virkar sem mjög greindur og auðmjúkur einstaklingur sem er með báða fætur á jörðinni – ekki slæmt.

  • Alvaro Morata er búinn að vera vonbrigði. Ef frá er talinn leikurinn gegn Arsenal er hann búinn að vera virkilega slakur. 1 mark í 4 leikjum segir sína sögu. Hann þarf að vera hreyfanlegri í fremstu víglínu og þora að kljást svolítið við varnarmennina. Það er erfitt að að spila einn á móti þremur miðvörðum í litlu svæði en bestu framherjar heims finna lausnir við slíkum aðstæðum og skapa amk usla meðal miðvarðanna.

  • Oliver Giroud á að mínu mati að fá traustið í næsta leik. Hann lætur alltaf finna fyrir sér og þó hann sé ekki að negla inn mörkunum að þá skapar hann meiri hættu en Morata hefur verið að gera. Mögulega myndi líka henta Morata betur að koma inn í leiki undir lokin þegar leikurinn er farinn að opnast.

  • Marcos Alonso er búinn að vera okkar besti leikmaður. Hann er búinn að fiska tvær vítaspyrnur, skora tvö sigurmörk gegn Arsenal og Newcastle (mér finnst þetta klárlega vera hans mark – hlusta ekki á eitthvað sjálfsmark bull 😊) og leggja upp eitt til viðbótar. Sóknarlega er hann okkar hættulegasta vopn ásamt Hazard og er samleikur þeirra á vinstri kantinum stórkostlegur. Margir hafa sett út á varnarleik hans og er það að mögu leiti réttmæt gagnrýni en þó varla við Marcos sjálfan að sakast. Sarri vill að hann keyri svona upp völlinn og er þetta því partur af leikstíl liðsins. Alonso mun alltaf skilja eftir sig pláss í vörninni sem andstæðingar ættu að geta nýtt sér en þá reynir á þéttleika liðsins og skynsemi Jorginho og miðvarðanna að veita honum „cover“ á vængnum.

  • Talandi um veikleika varnarlega að þá hef ég enn áhyggjur af David Luiz. Fyrir mér ætti Christensen að fá fleiri mínútur og ég vonast til þess að Daninn ungir nýti sénsinn þegar leikjaálagið eykst.

  • Rudiger er búinn að vera mjög góður. Enginn annar varnarmaður er búinn að vinna boltann jafn oft og hann skv. Opta tölfræðinni – það segir sitt. Hann hefur líka þennan óstjórnlega sigurvilja sem svo gaman er að sjá í leikstíl og líkamstjáningu hans.


Cardiff

Ég ætla að koma með spá. Í leiknum gegn Cardiff á laugardaginn mun Chelsea slá metið yfir það hversu eitt lið hefur haldið boltanum mikið innan liðsins í einum leik í ensku Úrvalsdeildinni. Ástæðan fyrir þessu er þjálfari Cardiff, Neil Warnock en hann er heiðursforseti „Gamla skólans“. Það er makalaus staðreynd að Cardiff var eitt besta lið Championship deildairnnar í fyrra og enduðu í 2.sæti. Þrátt fyrir toppbaráttu voru þeir með eina lægstu „posession“ prósentu af öllum liðum deildarinnar. Með öðrum orðum þeir vilja helst ekki hafa boltann, jafnvel þó andstæðingurinn sé lakari en þeir sjálfir. Warnock var engu að síður brattur í viðtali í vikunni og talaði um að mögulega myndi hann bara blása til sóknar á Stamford Bridge - ég trúi því þegar ég sé það.

Leikstíllinn hjá Cardiff er einfaldur, liðið liggur mjög aftarlega og freistar þess að vinna boltann og sparka honum eins hratt fram og kostur er. Í framlínunni er líkamlega sterkur leikmaður sem reynir að halda boltanum uppi og koma honum á samherja sem heldur skyndisókninni áfram á fyrsta tempói þar sem vængmenn og amk einn miðjumaður fylgir með í sóknina. Mjög beinskeytt og mjög áhrifaríkt þegar þetta er gert vel – dæmin sanna það.

Flesir spá Cardiff City falli og kannski skiljanlega. Neil Warnock hefur fimm sinnum náð að fara með lið upp í ensku Úrvalsdeildina en aldrei hefur honum tekist að halda liðinu í deild þeirra bestu, þrisvar sinnum hefur hann verið rekinn á miðju tímabili og tvisvar fallið sjálfur með liðið. Þannig tölfræðin er ekki vinna með blessuðum kallinum. Cardiff gerði heldur engar rósir á leikmannamarkaðinum, ólíkt td. Fulham og Wolves sem fjárfestu mikið í sínum liðum. Þeirra stærstu kaup voru á vængmönnunum Josh Murphy og Bobby Reid en báðir voru þeir keypti úr Championship deildinni, einnig fengu þeir miðjumanninn Harry Arter að láni frá Bournemouth.

Landsliðsfyrirliðinn okkar Íslendinga, Aron Einar Gunnarsson, spilar auðvitað með Cardiff en hefur ekkert verið með það sem af er tímabili vegna meiðsla. Sumir fjölmiðlar í Cardiff tala um að hann geti mögulega verið á bekknum gegn Chelsea – vonandi fer hann að spila sem fyrst.

Chelsea

Ég ætla að spá byrjunarliði Chelsea svona í leiknum:


Það er alltaf erfitt að spá fyrir um byrjunarlið eftir landsleikjahlé – sumir leikmenn koma seinna heim sökum langra ferðalaga osfrv. Að mínu viti á Sarri alltaf að gefa Pedro traustið, hann verður ferskur eftir að hafa fengið nokkra daga frí þar sem hann var ekki í neinu landsliðsverkefni. Þar fyrir utan held ég að Sarri haldi sig við sitt lið en vona þó innilega að hann gefi Giroud traustið eftir að hann skoraði glæsilegt mark með franska landsliðinu gegn Hollandi á sunnudag, þó svo að Morata hafi verið í spænska landsliðinu þá spilaði hann hann ekki mínútu þeirra leikjum svo mögulega horfir Sarri eitthvað til þess. Það gæti svo verið að Sarri leyfi Barkley að byrja þennan leik en það verður væntanlega háð því ástandi sem Kanté og Kovacic skila sér til í eftir landsliðsverkefnin.

Spá

Chelsea á að vinna þeinnan leik, allt annað er stórslys. Cardiff sýndu það samt gegn Arsenal að þeir geta vel strítt toppliðum og voru Arsenal í raun heppnir að sleppa með sigur í þeim leik. Cardiff eru líka gríðarlega sterkir í föstum leikatriðum og voru fá lið í öllum deildarkeppnum í Englandi sem skoruðu jafn mikið og þeir eftir aukaspyrnur, horn eða löng innköst. Chelsea á engu að síður að mæta til leiks með sjálfstraustið í botni og klára Cardiff sannfærandi – allt annað væru glötuð þrjú stig. Setjum 2-0 sigur á þetta.

KTBFFH


bottom of page