top of page
Search

Chelsea heimsækir St. James' Park


Sumir leikir eru erfiðari en aðrir. Einhverra hluta vegna reynist það Chelsea gríðarlega erfitt að mæta á St. James Park og sækja úrslit. Chelsea hefur ekki unnið Newcastle á þeirra eigin velli síðan 2011 og hafa síðan þá spilað sex leiki, fimm hafa tapast og einum leik lauk með jafntefli. Núna fær Murizio Sarri það verkefni að snúa þessu gengi við því okkar menn mæta á St. James Park á sunnudaginn og hefst leikurinn kl 15:00.

Síðasti leikur

Síðasti leikur var nokkuð einstakur fótboltaleikur sé horft til skemmtanagildis. Chelsea byrjuðu leikinn frábærlega og voru komnir í 2-0 þegar 20 mín voru búnar af leiknum með mörkum frá markavélinni Pedro og Alvaro Morata (!). Arsenal réðu ekkert við hreyfanlega sókn Chelsea sem Jorginho stýrði eins og stjórnandi í sinfóníu hljómsveit. Þetta breyttist því nokkuð snögglega því frá ca. 30 mín tók Arsenal öll völd á vellinum, skoruðu tvö mörk og brenndu af öðrum tveimur dauðafærðum. Chelsea voru í raun heppnir að sleppa inn í hálfleikinn með jafna stöðu.

Síðari hálfleikurinn var langt frá því að vera sama flugeldasýningin og sá fyrri en Unai Emery breytti taktíkinni hjá sínum mönnum sem að einhverju leiti lokaði leiknum. Chelsea voru mun meira með boltann og voru að skapa sér nokkur þokkaleg færi. Það var samt ekki fyrr en á 60. mín að Chelsea herti tökin verulega, þá komu Hazard og Kovacic inn í leikinn. Kovacic fékk þarna sínar fyrstu mínútur og leit frábærlega út. Arsenal féll aftar og aftar og eftir frábæran undirbúning frá Hazard skoraði Marcos Alonso sigurmarkið á 81. mínútu.

Að mínu viti var þetta sanngjarn sigur. Chelsea voru með nánast öll tök á leiknum í seinni hálfleik og ógnaði Arsenal lítið þegar leið á leikinn. Chelsea litu mjög vel út síðasta hálftímann, liðið færist upp um einn styrkleikaflokk þegar Eden Hazard er inni á vellinum. Miðað við þessa fyrstu frammistöðu er Kovacic hörku leikmaður sem mun smellpassa inn í „Sarri-Ball“ leikstílinn. Það eru aðvörunarbjöllur varðandi varnarleikinn en eins og Sarri bendir sjálfur á munu þeir erfiðleikar halda áfram í 1-2 mánuði, eða þangað til að leikstíllinn er orðinn leikmönnum eðlisbundinn. Sarri forðast það líka að gagnrýna bara varnarmennina, í hápressufótbolta eru framherjarnir og miðjumennirnir gríðarlega mikilvægir og ef þeir „klikka“ í sinni varnarvinnu setur það öftustu línuna mjög erfiða stöðu. Vonandi sjáum við þéttari vörn í næsta leik.


Newcastle

Okkar gamli „bráðabirgða“ stjóri, Rafa Benítez, er við stjórnvölin hjá Newcastle eins og undanfarin ár. Rafa er klókur stjóri sem alls ekki má vanmeta. Hann náði frábærum árangri með Newcastle í fyrra þegar liðið endaði í 10. Sæti og þá sem nýliðar í deildinni. Rafa Benítez á í köldu stríði við eiganda Newcastle, Mike Ashley. Sá skrautlegi náungi hefur verið að reyna selja klúbbinn um nokkurt skeið en það gengið illa. Ashley hefur harðneitað að setja einhverja alvöru peninga í leikmannakaup og því eru stærstu viðskipti Newcastle í sumar lánssamningar á okkar manni Kenedy og Salomon Rondo frá WBA. Þeir keyptu þó markvörðinn Dubravka og reynsluboltana Ki og Fabian Schar. Það segir kannski alla söguna að dýrasti leikmaður Newcastle er Michael Owen en hann var keyptur á 16,5 milljónir punda árið 2005.

Newcastle hefur ekkert byrjað neitt sérstaklega, þeir stóðu sig ágætlega gegn Spurs í fyrstu umferðinni en töpuðu naumlega 1-2. Því næst heimsóttu þeir Cardiff City í frekar slökum fótboltaleik sem lyktaði með 0-0 jafntefli en í þeim leik tókst Kenedy að klúðra víti í uppbótartíma. Þeir eru því með eitt stig eftir tvo leiki.

Newcastle munu vera án Florian Lejeune, Kenedy og Isaac Hayden í þessum leik en flestir miðar gera ráð fyrir að Rondon byrji sinn fyrsta leik. Við þekkum öll hvernig Rafa leggur upp sín lið, hann er mjög sterkur taktíkst séð og passar vel upp á að halda sínum liðum þéttum. Yfirleitt aðlagar Rafa sín lið að liðum andstæðingana og það kæmi mér ekki á óvart ef Rafa væri búinn að teikna upp eitthvað flott plan gegn Sarri-Ball.

Chelsea

Ég spái byrjunarliðinu svona:


Á blaðamannafundi fyrir leikinn sagði Sarri að Hazard væri klár í að byrja leikinn og spila 60 mín, það sama ætti við um Kovacic. Ég vænti þess þá að þeir komi inn í liðið enda voru þeir frábærir gegn Arsenal. Pedro er búnn að vera einn okkar hættulegasti maður og mun því halda sætinu sínu. Það eru því Willian og Barkley sem detta út, að mínu viti. Ég væri alveg til í að sja Andreas Christansen byrja á kostnað David Luiz en tel engar líkur á að slíkt muni eiga sér stað þar sem Sarri er heldur íhaldssamur.

Spá

Chelsea virðast breytast í Sunderland í hvert sinn sem þeir stíga fæti inn á St. James Park. Til að bæta gráu ofan á svart breytast Newcastle í Barcelona og því fer sem fer. Ég ætla samt að leyfa mér að vonast eftir einhverju öðru núna og vonast til þess að sóknarboltinn hjá Sarri takist að hrista hressilega upp í þessu. Ef Hazard byrjar leikinn og spilar á eðlilegri getu á Chelsea að vinna þennan leik og það örugglega.

Spái 1-3 sigri. Hazard skorar og Morata líka.

KTBFFH


bottom of page