Chelsea mætir Huddersfield í opnunarleik okkar manna í ensku Úrvalsdeildinni á laugardaginn kemur. Leikurinn er leikinn á John Smith vellinum í Huddersfield og hefst hann kl 14:00.
Síðustu leikir
Chelsea lék á móti Manchester City í leik um Samfélagssjöldinn um síðustu helgi. Leikurinn var okkar mönnum erfiður en segja má að Man City hafi komið Chelsea niður á jörðina hvað væntingar varðar fyrir komandi tímabil. Fótbolti Maurizio Sarri byggir á sömu hugmyndafræði og Pep Guardiola og í þessum leik sást bersýnilega hversu skammt á veg Sarri er kominn með Chelsea eða mögulega hversu langt Pep er kominn með sitt Man City lið – líklega samblanda af hvoru tveggja.
Chelsea reyndi að pressa Man City en með takmörkuðum árangri, það var of langt á milli lína, þ.e. miðjumennir voru of seinir í hjálparpressu og þannig slitnaði liðið í sundur. Þetta gerði það að verkum að Man City gat auðveldlega spilað sig í gegnum fyrstu pressuna hjá Chelsea og þannig komist í upphlaup á mjög hröðu tempói sem skilaði þeim einmitt fyrsta markinu í leiknum.
Besti leikmaður Chelsea í leiknum var Willy Caballero, það segir nú ýmislegt um frammistöðuna. Callum Hudson-Odoi reyndi líka keyra á vörn City og Willian átti nokkar rispur eftir að hann komm inn í leikinn en heilt yfir var Man City einfaldlega of stór biti á þessum tímapunkti. Ég vil þó hrósa liðinu fyrir að reyna, því síðast þegar við spiluðum á móti City undir stjórn Conte þá tapaði liðið 1-0 en átti varla snertingu á boltann inni á vallarhelmingi Man City.
Leikurinn gegn Lyon á þriðjudag var svo síðasti æfingaleikurinn fyrir mót. Í þeim leik fengu flestir að spreyta sig sem ekki komu við sögu í leiknum gegn Man City. Það var gaman að sjá menn eins og Kanté, Hazard og Giroud komna aftur í Chelsea treyjuna. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar reyndist Rob Green (!) hetja Chelsea en hann varði eina spyrnu frá Lyon á meðan Chelsea skoraði úr öllum sínum fimm spyrnum.
Andstæðingurinn
Huddersfield eru núna að hefja sitt annað tímabil í deild þeirra bestu á Englandi. David Wagner, stjóri Hudderfield veit vel að annað tímabilið getur oft reynst liðum erfitt og hefur því nýtt sumarið í að styrkja hópinn sinn verulega. Huddersfield var það lið sem flestir spáðu falli í fyrra en þeir komu öllum á óvart og héldu sér nokkuð örugglega í deildinni. Wagner hefur fengið til sín hvorki fleiri né færri en 8 leikmenn og varla misst neinn leikmann sem gæti talist sem einhver missir ef undan er skilinn Tom Ince sem fór til Stoke. Í skiptum fyrir Ince fengu Huddersfield Ramadan Sobi frá Stoke en sá leikmaður þótti gríðarlegt efni á sínum tíma en náði aldrei að springa almennilega út hjá Stoke, hann fær stórt hlutverk í sóknarleik Hudderfield á þessu tímabili. Þeirra dýrustu kaup voru á hinum hollenska Terence Kongolo frá Monaco en hann kostaði Huddersfield 17,5 milljónir punda og spilar sem miðvörður. Þeir fengu einnig Eric Drum (bakvörður) frá Bourissia Dortmund og Isaac Mbenza (framherji) frá Montpellier – þetta voru þeirra stærstu kaup í glugganum.
Hudderfield eiga að koma inn í þennan leik á fljúgandi siglingu þar sem undirbúningstímabilið þeirra hefur gengið ljómandi vel þar sem þeir unnu m.a. lið eins R.B. Leipzig, lið sem endaði í 6. sæti þýsku Bundesligunnar í fyrra. Þeirra sterkustu menn eru Aaron Mooy, Zanka, Alex Pritchard og markvörðurinn Sebastian Lössl en fyrst og fremst er það sterk liðsheild og feykilega gott skipulag David Wagner sem knýr þetta Huddersfield lið til afreka. Það er mikil stemming í kringum Huddersfield og alltaf erfitt að mæta þannig liðum í upphafi leiktíðar – þegar eftirvæntingin er sem mest. Við munum því eiga von á erfiðum leik í mjög „hostile crowd“ eins menn segja það á Englandi.
Chelsea
Það eru mörg spurningamerki varðandi liðsvalið en ég ætla að veðja á þetta byrjunarlið:
Ég efast stórlega um að okkar dýrasti leikmaður, Kepa, byrji þennan leik - hann hefur bara æft tvisvar með liðinu og Willy Caballero stóð sig vel gegn Man City. Sarri gaf það líka sterklega í skyn að þeir leikmenn sem komu síðastir úr landsliðsverkefnunum myndu líklega ekki byrja í þessum leik. Ég ætla þó að veðja á að N'Golo Kanté byrji enda er hann ofurmannlegur og ætti vel að geta byrjað á morgun, hann kæmi því inn á kostnað Barkley.
Ég held að bæði Hazard og Giroud verði á bekknum. Það eru margir að veðja á að Hudson-Odoi byrji leikinn en ég ætla að tippa á að hann vermi bekkinn til að byrja með en komi líklega við sögu í leiknum. Mér finnst ólíklegt að Kovacic verði í leikmannahópnum, bæði er hann búinn að æfa lítið í sumar og er bara rétt kominn til liðsins.
Líklega verða þeir Luiz og Rudiger í miðvörðunum þó ég sé alls ekki sannfærður um að þeir séu akkurat besta miðvarðaparið okkar - ég vil sjá Christensen spila á kostnað Luiz.
Spá
Núna er ballið að byrja og því verða Chelsea að sýna alvöru frammistöðu frá upphafi til enda. Við höfum séð frábæra spilamennsku á köflum á undirbúningstímabilinu en líka lítin stöðugleika í gegnum heilan leik - þetta verður að lagast.
Chelsea gekk vel á móti Hudderfield á síðasta tímabili, liðið vann báða leikina og var leikurinn John Smith Stadium einn sá besti sóknarlega hjá Chelsea þar sem Willian og Hazard léku á alls oddi. Vonandi finna þeir svipað form í leiknum á morgun sem skilar okkur öruggum þremur stigum og draumabyrjun fyrir Sarri.
Þetta á alltaf að vera skyldusigur!
Keep the blue flag flying high!