top of page
Search

Vantar Chelsea annan miðjumann?


Fyrr í júlí gekk Chelsea frá kaupunum á miðjumanninum Jorginho, kaupverðið var sagt vera 57 milljónir punda. Kappinn er því næst dýrasti leikmaður í sögu klúbbsins, aðeins Alvaro Morata er dýrari. Kaupin á Jorginho voru greinilega forgangsatriði hjá nýja stjóra Chelsea, Maurizio Sarri, en þeir félagar störfuðu saman hjá Napoli í þrjú ár.


Jorginho er sjaldgæf tegund af fótboltamanni. Hann spilar sem djúpur leikstjórnandi (deep lying playmaker), staða sem Andrea Pirlo þróaði í nútíma fótbolta. Við getum ekki búist við því að Jorginho skori eða leggi upp mikið af mörkum, það má hins vegar bóka að hann mun eiga flestar sendingar og um leið snertingar á boltann. Bara í leiknum gegn Perth Glory sýndi hann snilli sína er hann átti 98 sendingar í 101 snertingu - á 45 mínútum! Það sem meira er að Jorginho vill helst ekki gefa til baka eða hliðar, sendingarnar hans eiga að fara fram á við og setja upp sóknirnar okkar og koma okkar bestu mönnum í góðar leikstöður.


Það er því nokkuð ljóst að Jorginho er með frátekið pláss í þriggja manna miðju Sarri. Ef við gefum okkur að heimsmeistarinn nýkrýndi, N'Golo Kanté, sé einnig með bókað byrjunarliðssæti þá er spurning hver eigi að vera sá þriðji?

Þessi spurning kemur í kjölfarið á því að Chelsea hefur verið orðað við nokkra miðjumenn í sumar. Aleksandr Golovin var nafnið sem var mikið í umræðunni en hann endaði í Monaco. Chelsea hefur einnig verið orðað við Miralem Pjanic hjá Juventus og Thiago Alcantara hjá Bayern -en báðir þessi leikmenn myndu kosta í kringum 75 milljónir punda. Mín pæling sú, þurfum við að kaupa þessa leikmenn?

Chelsea hefur í raun bætt við sig tveimur mönnum á miðjuna þar sem Ruben Loftus-Cheek snýr til baka úr láni og bætist þannig við kaupin á Jorginho. Þetta gerir það að verkum að Chelsea er allt í einu með sjö miðjumenn í leikmannahópnum fyrir þrjár lausar stöður:

Jorginho

Kanté

Barkley

Loftus-Cheek

Fabregas

Bakayoko

Drinkwater

Hverjir eiga að fara og hverjir eiga að fá tækifærið?

Loftus-Cheek sýndi það á HM með Englandi að hann er tilbúinn fyrir stóra sviðið. Barkley leit vel út í fyrsta æfingaleik sumarsins og Fabregas er einn reynslumesti leikmaður liðsins og alger sigurvegari. Þessir þrír leikmenn eiga að hafa næg gæði til þess að búa til svakalega sterka miðju með Jorginho og Kanté.

Ég hef ennþá trú á að Bakayoko geti orðið alvöru leikmaður fyrir Chelsea en hef þó áhyggjur að því að hann muni eiga erfitt að fóta sig í Sarri-Ball kerfinu sem snýst gríðarlega mikið um að góða fyrstu snertingu og hraðar sendingar - eitthvað sem er ekki á styrkleikalista Bakayoko. Undanfarna daga hafa verið að berast fréttir af áhuga Sevilla og AC Milan á kappanum. Ef Chelsea gæti fengið bróðurpartinn af upphaflega kaupverðinu á Bakayoko væri það mögulega ekki vitlaust að hreinlega selja hann. Mögulega væri líka skynsamlegt að lána hann og sjá hvernig hann myndi fóta sig annarsstaðar.

Danny Drinkwater á svo að vera seldur - svo einfalt er það. Það er í raun makalaust að hugsa til þess að Drinkwater kostaði Chelsea meira en N'Golo Kanté gerði á sínum tíma - aðeins með árs millibili. DD er ágætis leikmaður og vonandi verður hann keyptur af liði eins og Crystal Palace, West Ham eða Watford.

Chelsea hefur fengið á sig vænan skerf af gagnrýni á síðustu árum fyrir að gefa ekki ungum og efnilegum leikmönnum nægilega mörg tækifæri og það þrátt fyrir að Chelsea sé með eitt besta unglingastarf á öllu Englandi. Chelsea á að þora að gefa Loftus-Cheek alvöru spiltíma, fari allt á versta veg er Chelsea með góða breidd í bæði Fabregas og Barkley. Ethan Ampadu getur svo líka spilað sem miðjumaður ef við myndum lenda í meiðaslakrísu.

Talandi um Barkley að þá held ég að hann gæti orðið einn af leikmönnum sem koma á óvart í vetur, fari svo að hann fái sín tækifæri. Hann hefur sjálfur talað um að hann hafi aldrei verið í betra formi og sé hungraður í að sanna sig. Það sama má segja um Fabregas, hann er einhver mesti baráttuhundur sem til er og gefst aldrei upp. Hann var ekki valinn í lokahóp Spánverja á HM og nýtti því tímann í sumar í að koma sér í svakalegt form og virðist vera til í slaginn:


Þó svo að það væri vissulega spennndi að fá nafn eins og Pjanic eða Thigao á Stamford Bridge að þá tel ég meira aðkallandi að styrkja liðið í aðrar stöður. Þeir leikmenn sem eru í hópnum fyrir geta svo sannarlega vaxið og í tilfelli Loftus-Cheek, mögulega sprungið út sem stórstjörnur.

KTBFFH


bottom of page